Fyrirspyrjandi (Egill Jónsson) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 168 hef ég flutt fsp. til hæstv. utanrrh. sem er á þessa leið:
    ,,Hvað felst í tilboði ríkisstjórnarinnar í GATT - viðræðunum fyrir Íslands hönd um verslun með landbúnaðarvörur? Sérstaklega er óskað eftir upplýsingum um:
    1. Breytingar á innra stuðningi við landbúnaðinn.
    2. Breytingar á landamæravernd vegna verslunar með landbúnaðarvörur.
    3. Breytingar á útflutningsbótum.
    4. Hve mikil hlutdeild innfluttra landbúnaðarvara yrði samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar í þeim markaði sem innlend framleiðsla hefur fram til þessa fullnægt þegar aðlögunartíma lýkur.``
    Þrjár fyrstu spurningar mínar hafa reyndar komið nokkuð fram í umræðunni um þessi mál en aftur á móti hefur minna farið fyrir því að hverju væri stefnt í sambandi við innflutning á landbúnaðarvörum, hvaða áform séu um það að gera þá breytingu sem felst í tilboði ríkisstjórnarinnar og hvað hlutdeild innfluttra vara í lok aðlögunartímabilsins yrði mikil. Það er náttúrlega grundvallaratriði að þau mál verði skýrð með viðunandi hætti því að auðvitað stækkar ekki markaðurinn fyrir landbúnaðarvörur og menn hljóta þá að þurfa með einum eða öðrum hætti að gera þær ráðstafanir hér innan lands sem samrýmast þessari ákvörðun, þ.e. tryggja því fólki sem nú lifir í sveitum landsins og býr við þessa framleiðslu annað lífsviðurværi.
    Virðulegi forseti. Ég vek sérstaka athygli á því að í þessu tilboði ríkisstjórnarinnar felast mikil tímamót með viðskipti á landbúnaðarvörum. Ríkisstjórnin hefur gert allt sem í hennar valdi stendur og þá sérstaklega forsrh. til að gera sem minnst úr þessari ákvörðun, en auðvitað er hér um gífurlega stóra ákvörðun að ræða þegar fallist er á það í alþjóðaumræðu um viðskipti á milli landa að hefja innflutning á landbúnaðarvörum. Og það verður með engum hætti hjá því komist fyrir ríkisstjórnina að skýra það með viðhlítandi hætti hversu stór spor hefur verið talað um og er gengið út frá að stíga í þessum efnum og hver markaðshlutdeild þeirra erlendu verður þegar aðlögunartímabilinu lýkur.