Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Fyrst fáein orð almennt um tilboð ríkisstjórnarinnar í GATT - viðræðunum. Í því felst að stjórnvöld lýsa sig reiðubúin til að draga úr hömlum á innflutningi á unnum kjötvörum og unnum mjólkurvörum. Þá verður dregið úr útflutningsbótum og stuðningur við landbúnað lækkaður á fjárlögum. Hins vegar verða áfram hömlur á innflutningi á lifandi dýrum, nýmjólk og hráu kjöti af heilbrigðisástæðum. Einnig er tekið fram að tilboðið er háð tilboðum annarra þátttakenda í GATT - viðræðunum og er það grundvallaratriði. Náist samkomulag í GATT - viðræðum um þessar aðgerðir mun þetta hafa í för með sér aukið vöruúrval hérlendis að því er varðar unnar landbúnaðarvörur. Þetta þýddi einnig samkeppni við vinnslustöðvar sem veitti þeim aukið aðhald að því er framleiðslukostnað varðar og mundi knýja þær til hagræðingar og hagsbóta þannig fyrir neytendur. Þá felur tilboðið í sér minni byrðar skattgreiðenda vegna stuðnings við landbúnaðinn í heild. T.d. ættu útflutningsbætur að lækka um u.þ.b. 675 millj. kr. á ári að loknum aðlögunartímanum miðað við tölur fjárlagafrv. fyrir árið 1991.
    Varðandi einstaka liði fysp. sem sérstaklega er spurt um vil ég taka fram eftirfarandi:
    1. Breytingar á innra stuðningi við landbúnað.
    Ísland skuldbindur sig til að draga úr stuðningi innan lands í raungildum um allt að 25% í jöfnum árlegum áföngum fram til ársins 1996 þar sem árið 1988 er lagt til grundvallar fyrir útreikningi á heildarstuðningi í samræmi við sérstakan lista yfir útreikning á heildarstuðningi.
    2. Breytingar á landamæravernd vegna verslunar með landbúnaðarvörur.
    Ísland lýsir sig reiðubúið til að rýmka innflutningsheimildir og draga úr magntakmörkunum á unnum mjólkur - og kjötafurðum. Hins vegar verða áfram í gildi eins og áður sagði innflutningstakmarkanir á þessum vörum vegna legu landsins og til að tryggja öruggt framboð á matvælum.
    Innflutningstakmörkunum á lifandi dýrum, nýmjólk og hráu kjöti, fersku og frosnu, verður áfram haldið af heilbrigðisástæðum. Þess má geta að langtímaeinangrun íslensks bústofns gerir hann sérlega viðkvæman fyrir sjúkdómum. Ísland gerir tillögu um að leggja breytilegt innflutningsgjald á þann innflutning sem leyfður verður til að jafna muninn á verði innlends landbúnaðarhráefnis og heimsmarkaðsverðs svokallaðs.
    Ísland er einnig reiðubúið til að breyta innflutningstakmörkunum í tolla á einstökum landbúnaðarafurðum í tollflokkum 1 -- 24 í hinni samræmdu tollskrá sem komi í staðinn fyrir innlendar landbúnaðarafurðir. Stuðst verður við leiðréttingarstuðul sem tekur tillit til gjaldeyrissveiflna og breytinga á heimsmarkaðsverði. Ísland er reiðubúið til að lækka tolla á þessum vörum síðan á tímabilinu til ársins 1996 um allt að 25%.
    3. Breytingar á útflutningskvótum.

    Ísland lýsir sig reiðubúið til að draga úr útflutningsbótum að raungildi um allt að 65% til ársins 1996 í jöfnum, árlegum áföngum. Skuldbindingin á samdrættinum er byggð á meðaltali áranna 1986 -- 1989. Eftir 1996 er Ísland reiðubúið til að halda áfram að draga í áföngum úr útflutningsbótum með það að markmiði að þær verði felldar niður að fullu.
    4. Hve mikil hlutdeild innfluttra landbúnaðarvara yrði samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar í þeim markaði sem innlend framleiðsla hefur fram til þessa fullnægt, þegar aðlögunartíma lýkur? Þetta er spurning hv. þm.
    Svar við þessari spurningu er ekki unnt að leggja fram fyrr en samningaviðræðum er lokið og séð verður hvar hið alþjóðlega samkomulag næst. Með öðrum orðum: Spurningunni um það hversu stór skref verða stigin verður ekki svarað fyrr en samkomulagið liggur fyrir og menn standa þá frammi fyrir því hvaða skuldbindingar við viljum á okkur taka í því efni. Þetta ræðst líka af samkeppnisstöðu íslenskrar búvöru. Það er hins vegar almennt mat þeirra sem til þekkja að gæði unninna landbúnaðarvara hér á landi séu mikil og að því leyti muni hún áreiðanlega standa að samkeppni erlendra landbúnaðarvara og halda sterkri stöðu á markaðnum.