Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Vegna orða hv. þm. Egils Jónssonar er nauðsynlegt að það komi skýrt fram að það hefur alltaf legið ljóst fyrir að hæstv. landbrh. fer með stefnumótun í landbúnaðarmálum. Hins vegar fer hæstv. utanrrh. með samninga við erlend ríki á þessu sviði sem og öðrum.
    Hins vegar var erindi mitt hér í ræðustól meira til að spyrja --- og það er leitt að enginn af kjörnum forustumönnum Sjálfstfl. er hér í salnum --- hver er stefna Sjálfstfl. í málinu? Og verði því ekki mótmælt þá mun ég draga þá ályktun að það sem þeir hafa hér sagt, hv. þm. Egill Jónsson og Pálmi Jónsson, sé stefna Sjálfstfl. í málinu. Ég óska þess vegna eftir því að það komi fram hér áður en umræðunni lýkur hvort það er rétt ályktun hjá mér eða röng að þessir tveir þingmenn hafi túlkað stefnu Sjálfstfl. í þessum málum.