Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Örstuttar athugasemdir að gefnu tilefni. Það er ástæða til að árétta það að hið alþjóðlega samkomulag um tolla og viðskipti heyrir undir utanrrh. sem og alþjóðlegir samningar sem gerðir eru á því sviði. Um það eru engar deilur.
    Í annan stað vil ég mótmæla því sem haldið hefur verið fram að tilboð ríkisstjórnarinnar hafi með einum eða öðrum hætti verið mistúlkað. Tilboðið er svo skýrt að það gefur ekkert tilefni til mistúlkunar. Það er algerlega skýrt að því er varðar samdrátt í útflutningsbótum, að því er varðar samdrátt í heildarstuðningi við landbúnað.
    Þriðju spurningunni, sem er um það hversu stór skref verði stigin við að rýmka fyrir innflutning, verður ekki svarað og henni hefur ekki verið svarað, hvorki af mér né öðrum. Það er með öðrum orðum eins og fram kom í mínu plaggi algerlega háð þeirri niðurstöðu sem fæst í samningunum sjálfum.
    Á hitt er svo rétt að leggja áherslu að hér er ekki aðeins um að ræða rýmkun á innflutningi, heldur er jafnframt um að ræða heimildir til þess að mæta innflutningi með því að leggja á breytileg jöfnunargjöld sem vega upp muninn á hráefniskostnaði innan lands og erlendis þannig að í stað banns eða magntakmarkana kemur með vissum hætti tollvernd. Höfuðávinningurinn ætti að vera frá sjónarmiði neytenda samkeppni í lokað kerfi, sem ætti vonandi að skila sér um það er lýkur í lækkun verðs og þarf alls ekki að vera andstæður hagsmunum bænda eða framleiðenda ef gæði vöru og samkeppnisaðstaða að öðru leyti er viðunandi.