Fyrirspyrjandi (Egill Jónsson) :
    Virðulegi forseti. Ég minni reyndar á það sem kom fram hér hjá hv. þm. Pálma Jónssyni áðan, að afstaða Sjálfstfl. í þessum efnum liggur greinilega fyrir í síðustu landsfundarsamþykkt og ætti ekki að vefjast fyrir hæstv. fjmrh. að ná fram skoðunum okkar sjálfstæðismanna í þeim efnum.
    Það sem er hins vegar eftirtektarvert við þessa umræðu og mikilvægt er að fengist hefur skýr niðurstaða um það að hér hafa verið teknar miklu stærri og skýrari ákvarðanir um innflutning á landbúnaðarvörum en ýmsir stjórnarliðar hafa viljað vera láta. Hæstv. utanrrh. lét það verða svona hér um bil sín síðustu orð að það væri hann sem færi með þessi mál, eins og forsrh. hefur reyndar tekið fram, m.a. þegar hann svaraði fyrirspurn Pálma Jónssonar héðan, og hann hefur talað með þeim hætti hér að í þessum efnum er gengið miklu lengra til þess að opna fyrir innflutning á íslenskum landbúnaðarvörum en stjórnarliðar margir hverjir vilja vera láta.