Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson) :
    Sem starfandi landbrh. neyðist ég til, virðulegi forseti, að reyna á þolinmæði þingheims og undirstrika að landbrh. og landbrn. fer með þessi mál, svo og innflutning landbúnaðarvara, eins og hv. 4. þm. Austurl. þekkir. Og að því er varðar þessi tilboð sem hér hafa verið rædd þá er það alveg ljóst að ef yrði um að ræða einhvern innflutning á landbúnaðarvörum er þar verið að tala um brot eða brotabrot. Þar er verið að tala um tölu 1, 2 eða 3%, eitthvað því um líkt, eins og hæstv. forsrh. hefur tekið fram opinberlega í viðtölum við fjölmiðla en aðrir hafa kosið að gera meira úr af einhverjum undarlegum ástæðum.
    Að lokum vil ég endurtaka það, virðulegi forseti, sem ég sagði hér áðan. Ég tel að þetta sé svo stórt mál að það eigi að ræða það í heild hér á hv. Alþingi vegna þess að ég er sannfærður um að það tilboð sem hér hefur verið gert undir forustu hæstv. landbrh. með góðum stuðningi allra stjórnarflokka er með þeim hætti að það er góður samnefnari fyrir þau viðhorf sem eru hér á hv. Alþingi.