Takmörkun á umsvifum erlendra sendiráða
Fimmtudaginn 06. desember 1990


     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Á þskj. 190 hef ég leyft mér að bera fram við hæstv. utanrrh. svofellda fsp.:
    ,,Hvað hefur utanrrn. aðhafst í framhaldi af ályktun Alþingis frá 13. júní 1985 um takmörkun á umsvifum erlendra sendiráða og til hvaða aðgerða telur ráðherra þörf að grípa þar að lútandi?``
    Þessi tilvitnaða þál. hljóðar þannig, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Alþingi ályktar að leggja áherslu á að umsvif erlendra sendiráða séu jafnan innan hæfilegra marka og felur ráðherra að fylgjast með því að svo sé og gera, ef þörf krefur, með samningum eða einhliða, ráðstafanir í þessu skyni á grundvelli laga nr. 16/1971, um aðild Íslands að alþjóðasamningi um stjórnmálasamband, og laga nr. 30/1980, um breytingu á lögum nr. 19/1966, um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, með sérstakri hliðsjón af íslenskum aðstæðum.``
    Aðdragandi þessarar tillögu og samþykktar Alþingis, sem gerð var samhljóða hér í Sþ., var þáltill. sem ég flutti tvívegis hér á hv. Alþingi um takmörkun á umsvifum erlendra sendiráða og var tilefni að tillögu sem utanrmn. bar fram, efnislega mjög svipaðri þeirri þáltill. sem ég flutti á þinginu 1983 -- 1984. Tilefni þessa máls var það að mér þótti sem sendiráð hérlendis erlend, sérstaklega risaveldanna, færu langt út fyrir eðlileg mörk með tilliti til Vínarsamningsins, sem byggir á jafnréttissjónarmiðum, fullveldisjafnréttarsjónarmiðum, og 11. gr. þess samnings. Þar stendur: ,,Þegar ekki er gerður sérstakur samningur um stærð sendiráðs getur móttökuríki krafist þess að stærð sendiráðs verði sett takmörk er það telur hæfileg og eðlileg með hliðsjón af aðstæðum og ástandi í móttökuríkinu og þörfum hlutaðeigandi sendiráðs. Einnig getur móttökuríkið innan sömu takmarka og þannig að eigi sé um mismunun að ræða neitað að taka við starfsmönnum í tilnefndum starfsflokki.`` Í öðrum lögum varðandi fasteignir og önnur umsvif eru sömuleiðis heimildir.
    Tilefni þessarar fyrirspurnar eru auðsæ. Það er umræða sem hér fór fram um njósnastarfsemi eða jafngildi hennar á vegum sovéska sendiráðsins og fyrr og oft raunar hafa gefist tilefni til þess að spyrjast fyrir um takmörkun á umsvifum erlendra sendiráða.