Takmörkun á umsvifum erlendra sendiráða
Fimmtudaginn 06. desember 1990


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Ályktun Alþingis frá 13. júní 1985 sem hv. fyrirspyrjandi vitnar til hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að leggja áherslu á að umsvif erlendra sendiráða séu jafnan innan hæfilegra marka og felur ráðherra að fylgjast með því að svo sé og gera, ef þörf krefur, með samningum eða einhliða, ráðstafanir í því skyni`` o.s.frv.
    Þessi ályktun er fimm ára gömul og svar mitt er einfaldlega það að ekki hafi þótt hingað til af hálfu ráðuneytis, og þá í tíð þriggja utanrrh., tilefni til sérstakra aðgerða til að hefta eða hindra starfsemi erlendra sendiráða á Íslandi meðan þau gerast ekki brotleg við ákvæði Vínarsamnings um stjórnmálasamband.
    Það mun vera svo að lítil breyting hafi orðið á þessu tímabili á starfsemi sendiráða á Íslandi. Ef litið er á sendiráð Bandaríkjanna og Sovétríkjanna hefur fækkað um þrjá erlenda starfsmenn í sendiráði Bandaríkjanna en starfslið sendiráðs Sovétríkjanna er óbreytt frá árinu 1985. Heildarfjöldi erlendra starfsmanna í sendiráði Bandaríkjanna í Reykjavík er 19 manns, en 37 starfa í sendiráði Sovétríkjanna. Við þessar tölur bætast síðan 16 makar og börn bandarískra sendiráðsstarfsmanna og 44 makar og börn á vegum sovéska sendiráðsins. 18 íslenskir starfsmenn starfa í sendiráði Bandaríkjanna.
    Fjöldi fasteigna í eigu erlendra sendiráða í Reykjavík er óbreyttur frá 1985 að því þó undanskildu að fasteign fyrrum sendiráðs austur - þýska alþýðulýðveldisins hefur verið seld.
    Utanrrn. veitir dvalarleyfi og gefur út persónuskilríki fyrir erlenda sendiráðsstarfsmenn og birtir árlega diplómatalista yfir stjórnarerindreka. Á nokkurra ára fresti er sendiráðum gert að gera grein fyrir heildarfjölda erlendra og íslenskra starfsmanna þeirra. Ráðuneytið hefur hliðsjón af Vínarsamningnum um stjórnmálasamband við afgreiðslu dvalarleyfa fyrir erlenda starfsmenn sendiráða
í Reykjavík. Er sendiráðum m.a. gert að gera jafnt grein fyrir komu og brottför starfsmanna við reglubundna flutninga og að þau sýni fram á að maður komi í manns stað. Sérstaka heimild þarf til að bæta við heildarfjölda starfsmanna en það hefur ekki gerst á umliðnum tíma. Hefur verulega verið bætt úr þessu eftirliti undanfarin ár og það gert skilvirkara.
    En niðurstaðan er sú að að því er varðar ályktunina um það að ráðherra hefur verið falið að fylgjast með og þá takmarka umsvif sendiráða ef þörf krefur, þá er svarið að það hefur ekki verið gert og það hefur ekki verið talin vera sérstök þörf á því.