Takmörkun á umsvifum erlendra sendiráða
Fimmtudaginn 06. desember 1990


     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Mér finnst það sérstakt og sérkennilegt að ályktanir Alþingis skuli ekki vera til athugunar og meðferðar hjá ráðuneytum þótt nokkur tími sé um liðinn frá því að þær voru gerðar og það í ljósi gerbreyttra aðstæðna sem nú eru orðnar á alþjóðavettvangi sem hljóta m.a. að leiða hugann að því hvort ekki sé sérstök þörf á því að gera hér breytingar á.
    Ég minni, virðulegur forseti, á undirtektir Geirs Hallgrímssonar fyrrv. hæstv. utanrrh. þegar þessi tillaga var til umræðu hér á Alþingi á sínum tíma. Þar tók hann mjög jákvætt undir efni hennar og Matthías Á. Mathiesen utanrrh., sem svaraði fyrirspurn 1986, sagði að sérstök athugun væri í gangi í ráðuneytinu vegna þessara mála á þeim tíma og henni yrði fram haldið. Fyrirspyrjandi sem þá bar þessa fyrirspurn fram úr Sjálfstfl. hnykkti sérstaklega á því að hann teldi að svo væri. Ég vil því hvetja hæstv. utanrrh. til að gera nú gangskör að því að fara yfir þessi mál í heild sinni, eins og hann vakti vonir um að gert yrði, og þakka ég fyrir þær undirtektir.