Fjárgreiðslur úr ríkissjóði
Fimmtudaginn 06. desember 1990


     Fyrirspyrjandi (Geir H. Haarde) :
    Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að bera fram svohljóðandi fyrirspurn til hæstv. fjmrh. á þskj. 188:
    ,,Hvað líður vinnu á vegum fjmrn. að endurskoðun frv. um fjárgreiðslur úr ríkissjóði o.fl. sem á síðasta þingi var afgreitt með rökstuddri dagskrá að tillögu fjh. - og viðskn. Nd. ,,í trausti þess að unnið verði að málinu í sumar`` á vegum ríkisstjórnarinnar?``, eins og það var orðað.
    Ég geri ráð fyrir að hv. þm. reki alla minni til umræðna sem urðu um þetta frv. á síðasta þingi. Hér var hreyft mjög merku máli. Ég tel mér þetta mál nokkuð skylt þar sem ég flutti frv. svipaðs efnis á þinginu fyrir tveimur árum síðan og efnið úr því frv. var að hluta til notað óbreytt í það frv. sem fjvn. flutti í fyrra og ég geri hér að umtalsefni. Það hefur ekki bólað á neinum viðbrögðum að svo komnu máli á vegum ríkisstjórnarinnar þó að hér hafi verið samþykkt rökstudd dagskrá í trausti þess að unnið yrði að málinu frekar á vegum hennar. Því finnst mér eðlilegt að grennslast eftir því við hæstv. fjmrh. hvað líði vinnu á hans vegum að þessu merka máli.