Fjárgreiðslur úr ríkissjóði
Fimmtudaginn 06. desember 1990


     Fyrirspyrjandi (Geir H. Haarde) :
    Virðulegi forseti. Ég hafði nú hugsað mér að þakka fjmrh. fyrir þær upplýsingar sem hann bar hér fram í sinni fyrri ræðu en hann getur aldrei látið hjá líða, virðulegur ráðherrann, að hella úr skálum reiði sinnar yfir Sjálfstfl. hvenær sem hann tekur til máls, segist hafa gert hér meira í þessum málum undanfarin tvö ár heldur en Sjálfstfl. á síðustu 30 árum. Hann man auðvitað ekkert eftir því að gildandi lög um fjárlög, ríkisbókhald og gerð ríkisreiknings voru samþykkt hér að frumkvæði sjálfstæðismanna, þau eru frá árinu 1966, en málið er það að þau eru orðin úrelt, þeim þarf að breyta. Það þarf að gera meiri háttar breytingar á allri skipan þessara mála. Á það var bent hér þegar frv. okkar Pálma Jónssonar var flutt fyrir tveimur árum um þetta mál sem er upphaf umræðna um þetta mál á þessu stigi. Öll vinnubrögð fjh. - og viðskn. í fyrra um frv. fjvn. um fjárgreiðslur úr ríkissjóði voru nefndinni til vansa og hin rökstudda dagskrá er til marks um hrein handabakavinnubrögð af hálfu nefndarinnar.
    Ég get hins vegar tekið undir það með hæstv. ráðherra að það er eðlilegt að ríkisreikningsnefnd hafi fengið þetta mál til umfjöllunar þó það hafi kannski ekki staðið í hinni rökstuddu dagskrártillögu sem samþykkt var. Það er eðlilegt að hún fjalli um þetta mál. Fjmrh. kallaði hér fram í þegar hv. 2. þm. Norðurl. v. var að tala og sagði að nefndin hefði fjallað um þetta í sumar og haust. Því er þá ekki komið með málið inn þingið núna fyrst búið er að vera að fjalla um það í sumar og haust af þessum aðilum? ( Fjmrh.: Það er af því að við höfum viljað hafa samvinnu við fjvn. um það hvenær það kemur inn í þingið. Ef þeir vilja að ég flytji frv. einn, þá skal ég gera það.) Ég vil biðja hæstv. ráðherra að reyna að hafa örlítið stjórn á skapi sínu og fara hér eftir réttum þingsköpum. Ég hef ekki sakað hann um nein óeðlileg vinnubrögð í þessu máli. En mér finnst óeðlilegt að hann tefji málið fyrst ríkisreikningsnefnd og aðrir faglegir aðilar hafa lokið sinni umfjöllun um það. Auðvitað verður Alþingi sjálft að hafa síðasta orðið um þessi mál. Auðvitað er það eðlilegt að Alþingi sjálft taki hér lokaákvarðanir og ákveði hvernig þessum málum á að skipa til frambúðar. Ég skil ekki hvers konar viðkvæmni þetta er hjá hæstv. ráðherra þó að menn leyfi sér að fitja hér upp á þessu máli hér á hinu háa Alþingi og bera fram fyrirspurnir um þetta efni. Þetta er með ólíkindum, virðulegi forseti.