Fjárgreiðslur úr ríkissjóði
Fimmtudaginn 06. desember 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Ég hafði enga athugasemd við þá ræðu sem hv. þm. Geir H. Haarde flutti hér, ekki neina. Mér fannst hins vegar vera óeðlilegar dylgjur hjá hv. þm. Pálma Jónssyni að ég væri að reyna að svæfa þetta mál. Mér fannst það ekki réttmætt í ljósi þeirrar miklu vinnu sem ég hef látið leggja í þetta mál og eins og ég sagði hér, ég hef verið tilbúinn til viðræðna við fjvn. í nokkrar vikur um þetta mál. Ég hef hins vegar ekki talið rétt vegna frumkvæðis og samstöðu í fjvn. um málið að ég sem fjmrh. færi að flytja það einhliða hér inn á þingið. Þess vegna hef ég talið nauðsynlegt að fjvn. og fjmrn. ynnu í samvinnu að því hvernig málið yrði flutt.