Fjárgreiðslur úr ríkissjóði
Fimmtudaginn 06. desember 1990


     Kristinn Pétursson (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Ég vil gjarnan spyrja hæstv. forseta álits á því: Níu manna þingnefnd, fjvn. Alþingis, flytur einum rómi lagafrv. hér í þinginu í fyrra. Því er vísað til hv. nefndar, fjh. - og viðskn. þessarar deildar, Nd. Þar er sest á málið. Síðan sæst á það að málið sé sent til ríkisstjórnarinnar til frekari skoðunar og komi hér aftur fram í þinginu. En, hæstv. forseti, nú situr hæstv. fjmrh. með þetta frv. í höndunum. Hæstv. fjmrh. er ekki aðili að löggjafarsamkomu þjóðarinnar. Hann er fjmrh. þessa lands, hann er ekki þingmaður. Löggjafarvaldið var með þetta mál. Hæstv. fjmrh., fulltrúi framkvæmdarvaldsins hér á þessum stað, situr á þessu máli. ( Fjmrh.: Það er mesti misskilningur.) Ég spyr hæstv. forseta að því hér í umræðum um þingsköp: Vill hæstv. forseti sjá til þess sem æðsti yfirmaður löggjafarsamkomu þjóðarinnar að hann taki þetta mál af hæstv. fjmrh. og komi því hér inn í þingið?