Fjárgreiðslur úr ríkissjóði
Fimmtudaginn 06. desember 1990


     Pálmi Jónsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil gera örstutta athugasemd við orð hæstv. ráðherra sem sagði að ég hefði hér farið með dylgjur, órökstuddar dylgjur. Það er ekki rétt. Hvert orð sem ég sagði í minni fyrri athugasemd stendur. Hins vegar sagði hæstv. ráðherra það að hann hefði verið tilbúinn með þetta frv. eftir þá athugun, sem fram hefði farið á undangengnum mánuðum, allt frá því í sumar og það stæði á fjvn. að taka þetta mál til umræðu. ( Fjmrh.: Ég notaði ekki þau orð.) Hæstv. ráðherra sagði að hann hefði á undangengnum vikum verið tilbúinn til þess að ræða þetta mál við fjvn. og það væri fjvn. að kenna að það hefði ekki verið flutt. ( Fjmrh.: Þetta er fullkomið rugl í þingmanninum.) Hæstv. ráðherra getur talað hér úr þessum ræðustól, en hæstv. ráðherra gaf það í skyn að það væri vegna fjvn. að málið fengist ekki flutt og hann vildi ekki sjálfur fara að flytja það til þess að sundra ekki þeirri samstöðu sem væri í fjvn. um málið. Hér er kominn formaður fjvn. í salinn. Hann hlýddi ekki á ráðherra þegar hann talaði. En ég hlýt að ganga eftir því hjá formanni fjvn. sem hér er kominn hvort það sé vegna þess að forustan í fjvn. hafi ekki haft á ungangengnum vikum áhuga fyrir því að endurflytja þetta mál eins og hæstv. fjmrh. gaf í skyn.