Fyrirspyrjandi (Geir H. Haarde) :
    Virðulegi forseti. Gjaldið í Framkvæmdasjóð aldraðra er orðinn árviss kunningi hér í sölum Alþingis vegna þess klúðurs sem núv. ríkisstjórn hefur til stofnað varðandi það gjald og nefni ég þá ekki þá staðreynd að verulegum hluta þessa gjalds er árlega stolið beint í ríkissjóð í stað þess að hann renni til þess málefnis sem um er að ræða.
    Í fyrra var hér lagt fram frv. um að breyta þessari gjaldtöku og flytja hana í það horf sem upp var tekið þegar staðgreiðsla skatta var hér upp tekin. Allir sem til máls tóku um það mál á þeim tíma virtust vera sammála þessari breytingu og í áliti stjórnarliða í fjh. - og viðskn., sem útbýtt var 26. mars sl., var tekið undir rökstuðninginn með frv., meira að segja svo nákvæmlega að það var birtur orðréttur rökstuðningur frv. í nál. Hins vegar var á því stigi talið óeðlilegt að gera þessa breytingu vegna þess að afgreiðslu fjárlaga væri lokið en rétt að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar, enda væri tilhögun gjaldtöku í Framkvæmdasjóð aldraðra bæði ,,órökrétt og óhagkvæm í innheimtu``. Orðrétt sagði 1. minni hl., með leyfi forseta, að hann teldi því ,,rétt að nákvæm athugun færi fram á álagningu þessa gjalds í framtíðinni og að niðurstöður þeirrar athugunar eigi að liggja fyrir eigi síðar en við 1. umr. fjárlaga fyrir árið 1991``. Fyrsta umræða fjárlaga var hér fyrir löngu síðan í þessum sal og ég vil leyfa mér að spyrja ráðherra þeirrar spurningar sem fram er borin á þskj. 189:
    Hvað líður þeirri nákvæmu athugun á innheimtu gjalds til Framkvæmdasjóðs aldraðra sem lagt var fyrir ríkisstjórnina að gera þegar frv. til laga um breytingu á lögum um málefni aldraðra var vísað til ríkisstjórnarinnar með þeim rökstuðningi sem ég vitnaði til hér fyrir augnabliki síðan?