Heilbrigðis - og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason) :
    Virðulegi forseti. Hv. 17. þm. Reykv. hefur beint til mín fsp. sem hljóðar svo:
    ,,Hvað líður þeirri nákvæmu athugun á innheimtu gjalds til Framkvæmdasjóðs aldraðra sem lagt var fyrir ríkisstjórnina að gera þegar frv. til laga um breytingu á lögum um málefni aldraðra var vísað til ríkisstjórnarinnar með rökstuðningi 1. minni hl. fjh.- og viðskn. 27. apríl sl., en þar segir um núverandi skipan að hún sé ,,órökrétt og óhagkvæm í innheimtu`` og að 1. minni hl. telji því rétt að ,,nákvæm athugun fari fram á álagningu þessa gjalds í framtíðinni og að niðurstöður þeirrar athugunar eigi að liggja fyrir eigi síðar en við 1. umr. fjárlaga fyrir árið 1991``?``
    Hér er vissulega um að ræða fsp. sem tengist heilbr. - og trmrn. vegna þess að málefni aldraðra og þau lög svo og þar af leiðandi Framkvæmdasjóður aldraðra eru á verkefnaskrá þess ráðuneytis. Hins vegar má segja að þetta tengist einnig fjmrn. því að hér er um að ræða álagningu og innheimtu gjalda. Ég taldi það því ekki endilega vera í verkahring heilbr.- og trmrn. að
fjalla um hvort þessi innheimta væri óhagkvæm eða eins og segir í nál.: ,,órökrétt og óhagkvæm í innheimtu``, heldur væri það á sviði fjmrn. ásamt með athugun á sköttum og gjöldum almennt. Ég hef því nú, eftir að þessi fsp. kom fram, leitað til fjmrn. og fengið upplýsingar bæði frá tekju- og lagasviði þess ráðuneytis svo og frá ríkisbókhaldi og styðst við upplýsingar frá þessum aðilum í svarinu.
    Gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra er innheimt við álagningu, þ.e. í ágústmánuði ár hvert hefur gjald þetta forgang á önnur gjöld í tekjubókhaldinu og greiðist það því fyrst gjalda. Við álagningu fer fram uppgjör á ofgreiddri staðgreiðslu svo og barnabótum, húsnæðisbótum, vaxtabótum og fleiri greiðslum til einstaklinga. Slíkum inneignum er skuldajafnað á móti álögðum gjöldum á viðkomandi einstaklinga. Þar sem gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra hefur forgang á önnur gjöld hefur þetta gjald innheimst mjög vel. Frá ríkisbókhaldi hef ég fengið tölulegar upplýsingar um innheimtu á gjaldi í Framkvæmdasjóð aldraðra frá 1. ágúst, eftir að innheimta á þessari álagningu hófst, og til 1. des. nú á þessu ári frá öllum innheimtuaðilum ríkissjóðs. Kemur í ljós að innheimtuhlutfallið er rétt um 90% eins og nú standa sakir. Það er mat þeirra aðila sem um málið hafa fjallað og gerðu þessa athugun að ekki sé ástæða til að breyta þessu innheimtukerfi miðað við það að skatturinn sé með því formi sem lögin kveða á um.
    Við undirbúning fjárlagafrv. fyrir árið 1991 varð samkomulag um óbreytt form á þessari umræddu skattlagningu í ríkisstjórninni, þ.e. að leggja áfram á sérstakan persónubundinn eftirágreiddan skatt, sem stundum er kallaður nefskattur, sem renna skal í Framkvæmdasjóð aldraðra. Fyrirhugað er að leggja fyrir Alþingi frv. um breytingu á lögum um málefni aldraðra þar sem hlutverk sjóðsins yrði aukið nokkuð, þ.e. að sjóðurinn fái takmarkaða heimild til þess að taka þátt í rekstrarverkefnum enda renni skatturinn þá undanbragðalaust allur, óskertur, til sjóðsins. Ég get út af fyrir sig tekið undir það sem kom fram í framsögu hv. fyrirspyrjanda er hann talaði um að það væri óviðunandi að hluti gjaldsins rynni beint í ríkissjóð. En þó það sé ekki beint tengt þessari fsp. má það koma fram að í lögum um sjóðinn og hlutverk hans, eins og lögin eru nú, er reyndar heimilt að hann styrki sveitarfélög til að koma á heimaþjónustu fyrir aldraða, svo og er honum heimilt að taka þátt í öðrum verkefnum sem sjóðstjórn heimili og heilbrrh. samþykki. Í raun er því nokkurt svigrúm í lögum um sjóðinn eins og er og þau rök verið notuð m.a. þegar talað er um að hluti af sjóðnum hafi runnið beint í ríkissjóð en ekki til fjárfestinga eins og er þó meginhlutverk sjóðsins.
    Ég nefndi það að fyrirhugað væri að leggja fyrir Alþingi frv. sem kvæði nánar á um hlutverk sjóðsins og er frv. þess efnis nú til meðferðar hjá þingflokkum ríkisstjórnarinnar varðandi þann þáttinn. En svarið við efni fsp. er að ekki er gert ráð fyrir því, eins og mál standa nú, að á álagningu og innheimtu skattsins verði breytingar.