Fyrirspyrjandi (Geir H. Haarde) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir hans svör þótt ófullkomin væru nú að mínum dómi. En hann er ekki fjmrh., það er vissulega rétt. Efni þessa máls er auðvitað skattalegs eðlis þó svo þessum skatti sé nú reyndar ranglega og óeðlilega fyrir komið í lögum um málefni aldraðra og þess vegna verður að beina fsp. til hæstv. heilbrrh.
    En það kemur fram í hans máli að sú nákvæma athugun sem Alþingi samþykkti, þegar málinu var vísað til ríkisstjórnarinnar að fram skyldi fara, hefur ekki verið látin fara fram. Þess vegna er ljóst að ekki hefur verið farið eftir vilja Alþingis sem kom fram þegar þessi rökstuðningur nefndarinnar með till. um að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar var samþykktur.
    Þetta kemur mér reyndar ekkert á óvart í sambandi við málið vegna þess að þetta hefur verið hið mesta vandræðamál fyrir ríkisstjórnina og ráðherrana alla eins og menn minnast hér úr þingsölum. Hæstv. núv. utanrrh. hefur verið á harðahlaupum undan sinni fyrri afstöðu í þessu máli. Þjóðinni var lofað því að nefskattur í Framkvæmdasjóð aldraðra yrði felldur niður þegar upp var tekin staðgreiðsla skatta. Staðgreiðsluhlutfallið var hækkað sem honum nam og sjóðurinn fékk sitt. Síðan var þessi skattur tekinn upp á nýjan leik af núv. ríkisstjórn án þess að skatthlutfallið í staðgreiðslu lækkaði á móti.
    Ég hef engan heyrt mæla þessu gjaldi bót nema hv. 5. þm. Reykn. Geir Gunnarsson sem hafði einurð í sér hér á þinginu í fyrra til að lýsa andstöðu sinni við þann rökstuðning sem fjh.- og viðskn. lagði til grundvallar og þingið síðan samþykkti. Hann er eini maðurinn sem hefur sagt það hreint út að hann telji að gjaldtaka í þessu formi sé betri en að hafa hana inni í staðgreiðslunni. Og vissulega ber að virða þá skoðun hans. En allir aðrir sem hafa tjáð sig um þetta mál eru þeirrar skoðunar að skattgreiðendur hafi verið hlunnfarnir þegar staðgreiðsluhlutfallið var hækkað gegn því að gjaldið skyldi fellt niður en gjaldið síðan tekið upp á nýjan leik án þess að lækka staðgreiðsluhlutfallið á móti.
    Ég harma það, virðulegur forseti, að ekki skyldi hafa verið framkvæmd sú athugun sem Alþingi ákvað að gerð skyldi og að allt skuli sitja við það sama í þessu máli. En ég geri mér grein fyrir því að hæstv. núv. heilbrrh. ræður ekki einn ferðinni heldur er fjmrh. landsins með puttana í þessu máli.