Landnýtingaráætlun
Fimmtudaginn 06. desember 1990


     Umhverfisráðherra (Júlíus Sólnes) :
    Virðulegi forseti. Hér er um athyglisvert mál að ræða sem hv. 6. þm. Vesturl. hreyfir og er mér ljúft að reyna að veita þau svör sem ég get um stöðu mála.
    Það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. að það var samþykkt þáltill. á Alþingi 1984 um gerð landnýtingaráætlunar og sú nefnd sem var sett til þess að vinna það verk í kjölfar þál. lauk störfum með skýrslu sem var afhent landbrh. í maí 1986. Það má hins vegar segja að þar hafi ekki verið um neina raunverulega landnýtingaráætlun að ræða því nefndarmenn voru sammála um að óframkvæmanlegt væri að semja slíka áætlun að svo komnu máli vegna skorts á upplýsingum og pólitískum ákvörðunum. Skýrsla nefndarinnar fjallaði því eingöngu um stöðu landnýtingarmála. Í skýrslunni frá 1986 eru ábendingar um ýmislegt sem taka þarf ákvörðun um og gera áður en hægt er að ráðast í gerð landnýtingaráætlunar. Þessu hefur hins vegar miðað hægt í þau fjögur ár sem eru liðin frá því nefndin skilaði af sér og má þar eflaust tilgreina, eins og hv. þm. kom inn á, að skort hefur á yfirstjórn þessara mála, að þau væru undir einum hatti, ef svo má að orði komast. Það eru ákveðin atriði sem nefndin taldi á sínum tíma að þyrfti að fá skýrari svör við og reyndar undirbúa betur. Það eru t.d. framleiðslumál, kortagerð og svæðisskipulag. Ég tek undir með hv. þm. að mestu máli skiptir að nú er búið að samræma stjórn umhverfismála sem auðveldar yfirsýn við gerð landnýtingaráætlunar og tryggir hlutlægni þegar ólík sjónarmið verða samræmd.
    Hv. þm. spyr hvort vinna sé hafin við gerð landnýtingaráætlunar á vegum umhvrn. Svarið er já. Vinnan er hafin þó formleg nefnd hafi ekki verið sett á laggirnar til að gera slíka áætlun líkt og reynt var fyrir sex árum síðan.
    Núna er unnið að því að skapa grundvöll fyrir þá upplýsingaöflun sem er nauðsynleg til að gera slíka landnýtingaráætlun. Í sumar sem leið var skipaður starfshópur eða nefnd á vegum umhvrn. til að vinna að mörkun heildarstefnu varðandi skipulag kortagerðar á vegum stofnana ríkisins. Nefndin vinnur nú að tillögum um að skilgreina kortagrunn á stöðluðu formi og sömuleiðis að gera áætlun um stöðluð grunnkort og gróðurkort á svokölluðu stafrænu formi. Hér er því verið að gera tilraun til að greiða úr þeirri ringulreið sem ríkt hefur í kortagerð á Íslandi með því að ganga frá samræmdum kortagrunni fyrir alla sem vinna að upplýsingasöfnun sem byggist á slíkri vinnu. Eins er verið að vinna að því að undirbúa landfræðilegt upplýsingakerfi, nokkurs konar landfræðilegan gagnagrunn sem gæti verið undirstaða fyrir gerð landnýtingaráætlunar. Reyndar er þessi vinna sem hér er verið að vinna nauðsynleg sem fyrsta skref í átt að slíkri landnýtingaráætlun.
    Megintilgangur með landnýtingaráætlun er að ná fram sáttmála um ráðstöfun og nýtingu lands á sem flestum sviðum og skapa þannig grundvöll fyrir ákvörðunartöku í hinum ýmsu málaflokkum. Slíka

áætlun er ekki hægt að gera fyrr en búið er að vinna heimavinnuna og afla þeirra gagna sem hún verður að byggja á.
    Landbúnaður er langáhrifamesti landnýtingarþátturinn og skipulag hans ræður því miklu um svigrúm til annarrar landnýtingar. Framtíðarskipulag landbúnaðar er fremur óljóst og erfitt að taka á því máli vegna skorts á grunngögnum. Það þarf t.d. að ljúka gerð gróðurkorta og byggðakorta og gera upplýsingar um búrekstur aðgengilegar í formi jarðabókar á tölvuformi. Það má kannski geta þess til gamans að í raun má segja að þær upplýsingar sem við byggjum á enn þann dag í dag varðandi búrekstur og landkosti séu að verulegu leyti byggðar á Jarðabókinni frá upphafi 18. aldar sem þeir Páll Vídalín og Árni Magnússon tóku saman. Þar er að finna þær aðgengilegustu upplýsingar sem við höfum enn þann dag í dag um búrekstur, landgæði og reyndar sömuleiðis ókosti lands þar sem búið er og ýmsar fleiri fróðlegar upplýsingar. Það er þess vegna orðið mjög brýnt að taka saman slíka jarðabók sem hér er verið að tala um. Það þarf enn fremur að gera kort yfir eyðingarhættu og safna tölulegum upplýsingum um gróður og jarðvegseyðingu í einstökum sveitarfélögum og afréttum landsins áður en ákvarðanir eru teknar um svæðaskiptingu, t.d. sauðfjárræktar, milli héraða.
    Þessi dæmi sem hér hafa verið nefnd eru til að sýna hversu langt er í land með að gera raunhæfa landnýtingaráætlun. Á sama hátt hefði mátt taka dæmi úr öðrum málaflokkum þótt framtíðarskipulag í landbúnaði vegi mjög þungt.
    Landnýtingaráætlun verður því aðeins til gagns að hún sé vel unnin og byggi á traustum gögnum og það sé tekið tillit til sem flestra sjónarmiða við gerð hennar. Fyrri tilraunir til að gera landnýtingaráætlun strönduðu á gagnaskorti og óljósri stefnumótun stjórnvalda í mikilvægum málaflokkum. Nú verður reynt að bæta þar úr áður en gengið verður frá niðurstöðunni og sú vinna er hafin. Auk fyrrnefndra gagna má nefna að starfsemi Skipulags ríkisins verður nú færð undir yfirumsjón umhvrh. frá 1. jan. nk., eins og hv. þm. gat um, en þar er unnið að öflun gagna á skipulegan og markvissan hátt.
    Að lokum vildi ég geta þess að snemma í haust var skipuð svokölluð hálendisnefnd sem er ætlað það verkefni að huga að landnýtingu á hálendinu, skipulagi löggæslu á hálendinu og verndun hálendisins. Það er afar einkennilegt, og ég vildi kannski biðja hv. þm. að svara því, að öllum þingflokkum sem sæti eiga á Alþingi var boðið að taka þátt í þessu starfi og sent bréf þar að lútandi með ósk um að tilnefna fulltrúa í nefndina. Hvorki Sjálfstfl. né Kvennalisti hafa séð ástæðu til að tilnefna fultrúa sína í þessa nefnd.