Landnýtingaráætlun
Fimmtudaginn 06. desember 1990


     Fyrirspyrjandi (Danfríður Skarphéðinsdóttir) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir svör hæstv. umhvrh. hér. Eins og fram kom í máli hans verður auðvitað mikil gagnaöflun að fara fram áður en hægt er að ganga formlega til verks við að gera landnýtingaráætlun. Skýrsla sú sem gefin var út árið 1986 dró einungis fram forsendur fyrir gerð landnýtingaráætlunar. Það er ljóst að miklar breytingar verða á landnýtingu á næstu 10 -- 20 árum vegna breytinga á atvinnuháttum og búsetu, auk þess sem kröfur munu vaxa í þjóðfélaginu um fjölbreytileg afnot af landinu. Eins og fram kom í máli hæstv. umhvrh. þá er landbúnaður og stefnan í landbúnaði afgerandi þáttur í gerð landnýtingaráætlunar. Ég minntist reyndar einnig á í máli mínu áðan, það vantar jarðabók. Við kvennalistakonur höfum fyrr á þessu kjörtímabili verið með fyrirspurn til hæstv. landbrh. um hvað líði gerð hennar. En hún er einmitt mjög nauðsynlegur þáttur í því að hægt sé að skipuleggja þessa undirstöðuatvinnugrein. Það er nauðsynlegt að komið verði á svæðabúskap þannig að landið verði nýtt eftir þoli þess og getu.
    Í síðasta tölublaði rits Arkitektafélags Íslands eru þessi mál einmitt meginefni blaðsins, þ.e. umhverfismál og skipulag. Þar er fjallað mjög um nauðsyn þess að gerð verði landnýtingaráætlun fyrir Ísland og jafnframt vitnað til þeirrar skýrslu sem ég gat um áðan.
    Þá kemur einnig fram í grein í þessu riti að það er mjög mikil nauðsyn á því að tekin verði af öll tvímæli um hverjir bera ábyrgð á skipulags- og byggingarmálum í óbyggðum Íslands. Hæstv. umhvrh. minntist einnig á það hér áðan og talaði um sérstaka hálendisnefnd sem hefði það verkefni að gera tillögur um landnýtingu á hálendi Íslands. Ég hef fengið það staðfest frá samstarfskonum mínum í þingflokki að þetta bréf hefur ekki borist til okkar. En eins og hæstv. umhvrh. veit þá eru umhverfismálin mjög ofarlega á stefnuskrá okkar kvennalistakvenna og við höfum að sjálfsögðu fullan hug á að taka þátt í því starfi sem fram fer í þessari nefnd. En það hafa greinilega orðið einhver mistök í kerfinu því við höfum örugglega ekki fengið þetta bréf. Ég tel það mjög mikilvægt að hálendið sé tekið inn í allt skipulag því það voru fréttir um það í fjölmiðlum í sumar að uppi á hálendinu spryttu upp hús og skálar án allra leyfa og án þess jafnvel að fólk vissi hver væri að reisa þá.
    Ég fagna því að þessi vinna er hafin og vona að hæstv. umhvrh. leggi metnað sinn í að þetta verk gangi eins hratt og verða má.