Landnýtingaráætlun
Fimmtudaginn 06. desember 1990


     Árni Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Vegna þeirrar umræðu sem nú á sér stað um landnýtingaráætlun tel ég rétt að það komi hér fram að svokölluð landnýtingarnefnd, eða landgræðslunefnd, sem starfað hefur á undanförnum árum og unnið að landnýtingaráætlun af mjög veikum burðum, hefur ævinlega staðið frammi fyrir þeim vanda að fjármagn til þessa málaflokks hefur verið mjög af skornum skammti. Þrátt fyrir miklar yfirlýsingar hv. Alþingis um það að snúa vörn í sókn í landgræðslumálum hefur treglega gengið. M.a. vil ég benda á það að Landgræðslu ríkisins, sem hefur verið öflugasti aðilinn í landgræðslumálum, var settur stóllinn fyrir dyrnar á síðasta ári þegar henni var gert að greiða virðisaukaskatt vegna áburðarkaupa sem stórkostlega rýrði áburðardreifingu Landgræðslunnar. Auk þess hefur verið mjög erfitt að vinna það verk, sem er undirstöðuatriði í þessu öllu saman, að koma á verulegri gróðurkortagerð. Rannsóknastofnun landbúnaðarins hóf vinnu að gróðurkortagerð en hún stöðvaðist vegna peningaskorts. Nú eru hins vegar að gerast hlutir á þeim vettvangi sem lofa mjög góðu og ég persónulega, sem einn af fulltrúum í landgræðslunefndinni, hef mikinn áhuga á og hef barist fyrir í langan tíma, þ.e. gróðurkortamyndir sem LANDSAT - gervihnötturinn tekur og við höfum séð nokkrar útgáfur af. Þar opnast stórkostlegir möguleikar á því að fylgjast með gróðurfari frá ári til árs eða á milli tiltekins árafjölda, t.d. á tíu ára bili. Þarna er kominn nýr möguleiki.
    Nefndin er núna að vinna að því að fá fjármagn til að auka þessa myndatöku þannig að hún geti tekið fyrir fleiri landsvæði en nú eru til myndir af. Þetta er auðvitað það sem allt þetta starf byggist á. Þessar gróðurkortamyndir og gerð þeirra þarf að stórefla og reyna að gera það að eðlilegum og sjálfsögðum þætti í öllu því landnýtingarstarfi sem við vinnum. En númer eitt, tvö og þrjú er það að fá peninga til þessara starfa. Um það snýst málið.