Sala á Þormóði ramma
Fimmtudaginn 06. desember 1990


     Jón Sæmundur Sigurjónsson :
    Virðulegi forseti. Ég hef beðið um þessa utandagskrárumræðu til að ræða málefni Þormóðs ramma hf. á Siglufirði sem er að 98% í eigu ríkisins.
Stærstu fyrirtækin á Siglufirði eru í ríkiseign, Síldarverksmiðjan og Þormóður rammi. Það er ekki ofsögum sagt að þessi tvö fyrirtæki séu kjölfestan í atvinnulífi Siglfirðinga. Því hefur ekki alltaf verið þannig varið. Meðan síldin var og hét fyrir norðan land voru yfir tuttugu söltunarstöðvar reknar af einkaaðilum og aðrar síldarverksmiðjur voru þar sem ekki voru í ríkiseign. Þegar hráefnið brast bar enginn þessara aðila þá ábyrgð að hafa vilja eða getu til að halda uppi atvinnu á staðnum með öðrum hætti. Lukkuriddarar einkaframtaksins sem höfðu gert það gott á góðum síldarárum hlupu á brott. Það var því einungis ríkið sem fann til ábyrgðar með því að viðhalda eigin fyrirtækjum sem fyrir voru og að byggja upp eitthvað nýtt. Það var ekki að ófyrirsynju. Áratugum saman hafði þjóðin mænt til Siglufjarðar. Áratugum saman skipti það öllu fyrir þjóðarhag hvernig til tækist með síldarvertíð og síldarvinnslu á Siglufirði. Þegar harðnaði á dalnum og augljóst var það skemmdarverk sem unnið hafði verið á norsk-íslenska síldarstofninum lá fyrir að byggja upp eitthvað nýtt á Siglufirði. Einungis ríkið hafði til þess vilja og getu. Ólafur Jóhannesson, fyrrv. forsrh., sagði á sínum tíma að þjóðin stæði í skuld við Siglufjörð og að uppbygging Þormóðs ramma væri eins konar viðlagatrygging Siglufjarðar fyrir mikilvægasta framlagið til þjóðarbúsins í marga áratugi. Það er því ekki að ófyrirsynju að almenningur á Siglufirði hefur sett traust sitt á ríkisrekstur. Þar vakir því eðlileg tortryggni á áhættusömum einkarekstri aðila sem ekki hafa áhuga á staðnum sem byggðarlagi.
    Nú hefur fjmrh. tilkynnt að hann hafi áhuga á að selja þessa viðlagatryggingu Siglufjarðar, Þormóð ramma. Hann hefur nokkra reynslu í þeim efnum, þar sem hann hafði forustu um sölu Sigló hf. á ofanverðu hausti. Í því tilfelli eru menn yfirleitt sammála um að mjög vel hafi tekist til. Með sölu Þormóðs ramma er tekist á við miklu stærra verkefni. Það er algjörlega ljóst að í því sambandi er bráðnauðsynlegt að rétt sé farið að. Því miður gætir allnokkurrar óvissu um framvindu málsins meðal bæjarbúa. Í fréttatilkynningu af sameiginlegum fundi fjmrh. og bæjarstjórnar frá 17. nóv. sl., en það er eina opinbera opnunin í þessu máli, segir að þar hafi hugmyndir verið ræddar og fulltrúar fyrirtækisins og ráðherra muni annast viðræður við fyrirtæki og einstaklinga í bænum um þessi mál. Þetta var fréttatilkynning af fundi. Í fundargerð bæjarstjórnar kemur síðan fram að óvíst er hvort selja eigi yfirleitt. Síðan hefur ekkert heyrst opinberlega um þessi mál þannig að greinilegt er að margir sem vilja gera upp sinn hug varðandi kaup velkjast í vafa um framhaldið. Ég held því fram að það sé mjög nauðsynlegt að fjmrh. geri grein fyrir stöðunni í þessu máli og svari eftirfarandi spurningum:
    Ætlar ríkið að sleppa hendinni af fjöreggi atvinnulífsins á staðnum og segja sig úr ábyrgð frá því sem Ólafur Jóhannesson kallaði ,,viðlagatryggingu Siglufjarðar``?
    Ætlar stærsti hluthafinn að opna markað fyrir hlutabréf sín þannig að heimamenn viti hvað er til sölu, hversu mikið er til sölu og þá hvað það sem hugsanlega er til sölu komi til með að kosta?
    Þá er einnig nauðsynlegt að vita hvar og hvenær þessi markaður er til staðar og hver hafi frumkvæði í þessum málum. Ekkert af þessu kemur fram í umræddri fréttatilkynningu.
    Þá er nauðsynlegt að vita hvort hugsað hafi verið til þess að setja þau skilyrði að kvótaeign fyrirtækisins verði ekki seld úr byggðarlaginu.
    Mér er kunnugt um að fjmrh. hefur byrjað mjög vel í þessu máli. Það er góðs viti að hans ætlun er að í framtíðinni verði bæði eign og rekstur þessa fyrirtækis í höndum heimamanna, ef af sölu verður. Hins vegar er nauðsynlegt að farið sé af gát í þessi mál af ástæðum sem ég gat um hér áðan. Það hefur komið upp ónauðsynleg óvissa meðal þeirra sem hug hafa á kaupum, sérstaklega í því ótrygga atvinnuástandi sem nú ríkir á staðnum. Ég vil því gefa fjmrh. tækifæri til að eyða þeirri óvissu og gera hreint borð í þessum efnum.