Sala á Þormóði ramma
Fimmtudaginn 06. desember 1990


     Ragnar Arnalds :
    Virðulegi forseti. Ég minnist þess vel að þegar Þormóði ramma var komið á fót fyrir frumkvæði ríkisvaldsins var gert ráð fyrir því að ríkið yrði ekki einn aðili með eignarhlutdeild heldur mundu heimamenn og bæjarfélag koma með virkum hætti inn í reksturinn. Ég átti sæti í þeirri stjórnskipuðu nefnd sem gerði tillögur um uppbyggingu Þormóðs ramma og minnist þess vel að menn treystu á það að þannig yrði málum hagað að heimamenn mundu taka við þessum rekstri og verða þar allsráðandi með tíð og tíma þó að ríkisvaldið hefði þetta frumkvæði. Þróunin varð hins vegar allt önnur og nú á ríkisvaldið 98% í þessu fyrirtæki. Ég tel löngu orðið tímabært að heimamenn taki þarna forustu. Ég er hins vegar eindregið andvígur því að hlutabréf í Þormóði ramma verði seld á almennum markaði þannig að hætta sé á því að eignarhald á fyrirtækinu færist til aðila utan Siglufjarðar.
    Ég tel að fjmrh. hafi farið alveg rétt að í þessu máli. Hann hefur haldið tvo formlega samráðsfundi með bæjarstjórn Siglufjarðar. Eftir seinni fundinn var send út sameiginleg fréttatilkynning þar sem tilkynnt var hvað til stæði. Ég tel að meginatriðið í þessu máli sé það að þarna er verið að reyna að sameina nokkur sterk fyrirtæki í sjávarútvegi um eitt enn öflugra sjávarútvegsfyrirtæki og að því er stefnt að heimamenn hafi þar forustu. Auðvitað þarf að tryggja það samtímis að kvóti skipanna verði örugglega áfram á staðnum. Æskilegast er að sem flestir Siglfirðingar verði aðilar að þessum rekstri. Ég tel hins vegar rétt að ríkið verði enn um sinn með nokkurn eignarhlut í þessu fyrirtæki, a.m.k. meðan verið er að koma þessari breytingu á og meðan enn er ekki búið að koma því svo fyrir að um sé að ræða almenningshlutafélag á breiðum grundvelli. En ég tel að vel hafi verið haldið á þessu máli og er sannfærður um að það er skoðun flestra á Siglufirði að svo sé.