Sala á Þormóði ramma
Fimmtudaginn 06. desember 1990


     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég er ekki sérstakur áhugamaður um sölu hlutabréfa í Þormóði ramma. Það er gott og sæmilega traust fyrirtæki sem komið er fyrir vind og ríkinu ekkert hættulegt að eiga það. Ég get vel hugsað mér að það verði rekið sem ríkisfyrirtæki áfram. Ég vil þó ekkert útiloka að það geti verið skynsamlegt að selja þarna einhver hlutabréf. En til þess að hægt sé að gera það upp við sig hvort skynsamlegt sé að selja þarf náttúrlega að liggja fyrir í fyrsta lagi níu mánaða uppgjör frá Þormóði ramma, níu mánaða uppgjör þeirra fyrirtækja sem kynnu að hafa áhuga á því að kaupa þessi hlutabréf eða hluta þeirra, þær tryggingar sem settar kunna að verða um að kaupendur ráði við það sem þeir ætla að fara að gera og greinargerð um hvernig hugsað er að fyrirtækið verði rekið.
    Ég tel að það þurfi samþykkt bæjarstjórnar Siglufjarðar fyrir því að þessi hlutabréf verði seld. Ég legg á það mikla áherslu að ekki verði seld þarna hlutabréf, hvorki í trássi við bæjarstjórn Siglufjarðar eða þingmenn Norðurl. v. enda hef ég fyrir því orð hæstv. fjmrh. að hann muni ekki gera það. Ég tel að það þurfi að tryggja að kvótinn verði kyrr á Siglufirði og að skipin verði ekki seld þaðan nema með vilja bæjarstjórnar. Hugsanlega getur það verið hentugt fyrir fyrirtækið að skipta um skip að einhverju leyti en það þarf að sjá svo til að rekstur fyrirtækisins verði tryggður til frambúðar og náttúrlega þar með að afli verði ekki seldur burt í stórum stíl óunninn.
    Um hitt er ég í vafa hvort réttmætt sé eða nauðsynlegt að einskorða þessa hlutabréfasölu við Siglfirðinga. Það sem við þurfum að sjá til er að fyrirtækið verði rekið á Siglufirði í blómlegum rekstri en fyrir mér mega aðrir en Siglfirðingar eiga eitthvað í fyrirtækinu. Það gæti beinlínis verið til styrktar fyrir Siglufjörð ef nýtt fjármagn kæmi þangað heim. Það er reyndar hægt að nefna dæmi um slíka fjármagnsflutninga þegar Ingimundur hf. flutti til Siglufjarðar, það held ég að hafi verið vel ráðið. Ég sé ekkert á móti því að eitthvað svipað eða tengt gerðist við Þormóð ramma.
    Það sem þarf að tryggja í þessu máli er fyrst og fremst það að flana ekki út í einhverja vitleysu og að tryggja að fyrirtækið verði áfram í blómlegum rekstri á Siglufirði.