Sala á Þormóði ramma
Fimmtudaginn 06. desember 1990


     Jón Sæmundur Sigurjónsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram og þær upplýsingar sem gefnar hafa verið. Ég held að það hafi allt verið mjög til bóta að þetta hefur verið sagt hér á þessum stað þannig að öllum sé ljóst hvernig þessi mál standa.
    Ég vil taka undir með hv. 1. þm. Norðurl. v. þegar hann sagðist ekki endilega vera áhugamaður um sölu á hlutabréfum í Þormóði ramma. Þetta á líka við um mig. Ég treysti heldur ekki öllum til að standa að sölu á hlutabréfum í Þormóði ramma. Ég verð hins vegar að segja að ég hef góða reynslu af störfum fjmrh. í þeim efnum. Hvernig staðið var að sölu á Sigló hf. á ofanverðu sumri var honum til sóma í alla staði þannig að ég hef traust á fjmrh. til að standa vel að þessu máli og eins og ég sagði í minni framsögu þá hefur hann farið vel af stað.
    En ég vil ítreka að Siglfirðingar hafa ekki endilega góða reynslu af áhættufjármagni einkarekstursins á Siglufirði. Þegar á hefur bjátað í atvinnurekstrinum hafa þeir haft ríka tilhneigingu til að hlaupast á brott og skilja menn eftir atvinnulausa og þá hafa menn ekkert haft í höndunum nema ríkið eitt. Þess vegna held ég að það verði að fara af mikilli gát í þessa sölu og fylgjast vel með hverjir það eru sem við þessu fyrirtæki taka. Það hefur komið fram bæði hjá ráðherra og öðrum þeim sem hér hafa talað að það sé nauðsynlegt að fyrirtækið lendi í höndum heimamanna, að það verði gert tryggt við þessa sölu að kvótinn fari ekki úr byggðarlaginu. Ég held að bæjarbúar allir líti á það sem mikilvægasta málið í þessu sambandi að hugsanleg sala fari þannig fram að sem mestri eignardreifingu verði náð meðal bæjarbúa. Þegar ákvörðun verður tekin um endanlega sölu, þ.e. þegar ákveðið verður endanlega að selja, er mjög nauðsynlegt að upplýsingar liggi fyrir um á hvern hátt verði selt, hversu mikið verði selt og hvað hlutir komi til með að kosta. Ef þessum upplýsingum er fullnægt, sem mér heyrðist ráðherra taka undir og upplýsa menn um, held ég að það sé farið vel af stað í þeim tilgangi að treysta undirstöður atvinnulífs á Siglufirði eins og er ætlun manna.