Sala á Þormóði ramma
Fimmtudaginn 06. desember 1990


     Ragnar Arnalds :
    Virðulegi forseti. Ég vil fyrst taka það fram að ég tel mig út af fyrir sig ekki hafa verið neinn sérstakan áhugamann um að selja hlutabréf í Þormóði ramma. Ég viðurkenni það fúslega að það er visst öryggi fólgið í því að ríkið eigi þetta fyrirtæki, öryggi fyrir Siglfirðinga. En ég held hins vegar að það teljist ekki eðlilegt þegar á heildina er litið að slíkt fyrirkomulag sé við lýði til frambúðar og að það verði ekki friður um það til lengdar. Því er ég á því að það sé orðið tímabært að endurskoða skipulag þessara mála.
    Ég vil hins vegar leyfa mér, og það er þess vegna sem ég stóð upp, að vara við þeim sjónarmiðum sem hér hafa komið fram að það sé æskilegt að aðilar utan Siglufjarðar eignist hlutabréfin í Þormóði ramma. Ég tel að þegar Ingimundur hf. keypti Siglósíld í sumar hafi gegnt töluvert öðru máli því þá var ekki um það að ræða að utanaðkomandi aðili væri að kaupa kvóta sem Siglfirðingar ættu heldur var það akkúrat öfugt, þar var um að ræða utanaðkomandi aðila sem var að koma með kvóta í stórum stíl til Siglufjarðar. En það sjá auðvitað allir að ástæðan fyrir því að við leggjum svona mikla áherslu á það að heimamenn verði ráðandi í þessu fyrirtæki er einmitt sú að ef utanaðkomandi aðili eignast veruleg ítök í þessu fyrirtæki þá aukast auðvitað líkurnar á því að önnur sjónarmið og aðrir hagsmunir fari að toga í spottana og verði þess valdandi að kvóti kynni að flytjast burt af staðnum. Það viljum við ekki. Þar af leiðandi er æskilegt að halda á þessu máli eins og hæstv. fjmrh. hefur gert, að láta heimamenn hafa forgang um kaup á hlutabréfum ríkisins.