Launamál
Fimmtudaginn 06. desember 1990


     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nál. 1. minni hl. fjh. - og viðskn. sem er á þskj. 244. Undir það álit skrifar hv. 12. þm. Reykv. Þórhildur Þorleifsdóttir. Hún gat ekki verið hér þar sem hún er erlendis á vegum Alþingis svo að ég mæli fyrir hennar áliti hér.
    Frv. það sem hér um ræðir er til staðfestingar bráðabirgðalögum sem sett voru 3. ágúst sl. til að ógilda kjarasamning ríkisins og aðildarfélaga BHMR sem undirritaður var 18. maí 1989. Kvennalistinn var mótfallinn setningu bráðabirgðalaganna sem og öðrum afskiptum hins opinbera af almennum kjarasamningum í landinu og sendi frá sér harðorða ályktun strax 3. ágúst 1990. Ályktunin hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Kvennalistakonur átelja harðlega að enn einu sinni skuli íslensk ríkisstjórn setja bráðabirgðalög á launafólk. Þannig er jafnt og þétt grafið undan lýðræði og mannréttindum í þjóðfélaginu.
    Núverandi ríkisstjórn hóf feril sinn með því að framlengja bann á kjarasamninga sem var meginástæða þess að Kvennalistinn hafnaði aðild að henni.
    Ríkisstjórnin setur nú lög á eigin samninga og beitir valdi sínu þannig til að hnekkja dómi Félagsdóms. Nú eru það samtök háskólamanna sem beitt eru lögþvingunum til þess að sveigja þau undir vilja stjórnvalda. Hverjir verða næstir?
    Í raun felst í nýsettum bráðabirgðalögum afnám réttar alls launafólks til þess að semja um laun sín því ríkisstjórnin hefur sýnt að hún er tilbúin til lögþvingunar á hvað sem er, jafnvel þvert á uppkveðna dóma.
    Þáttur forustumanna ASÍ og BSRB vekur furðu, þar sem þeir hafa tekið undir þann áróður að laun almenns launafólks séu meginvaldur verðbólgu og berjast nú jafnvel harðar gegn öðru launafólki en atvinnurekendum.
    Þetta eru alvarleg tíðindi fyrir almenning í landinu. Á hvaða leið er samfélag, þar sem stjórnvöld, atvinnurekendur og stærstu samtök launafólks sameinast um að svipta hluta launafólks samningsrétti? Hvernig er lýðræðinu háttað, þar sem stjórnvöld óvirða mannréttindi og dómstóla?
    Vinnubrögð ríkisstjórnarinnar eru forkastanleg og bera vott um siðblindu. Ríkisstjórn, sem setur lög á eigin gerðir, er ekki hæf til að stjórna landinu og á að segja af sér.``
    Fjölmörg dæmi eru því miður um afskipti af kjarasamningum undanfarin ár og hefur Kvennalistinn ætíð mótmælt slíku. Auk þess telur Kvennalistinn ákvæði í stjórnarskránni um heimild til setningar bráðabirgðalaga bæði ofnotaða og misnotaða og hefur enda lagt fram frv. á Alþingi þess efnis að hún verði felld niður. Það er 2. mál þessa þings og er nú til meðferðar í hv. allshn. þessarar deildar. En sjaldan eða aldrei hefur sú heimild verið notuð með jafnósvífnum hætti og í þessu tilfelli, enda þessi bráðabirgðalög líklega ein þau umdeildustu í sögu lýðveldisins. Kemur þar margt til. Málið á sér langan og flókinn aðdraganda.
    Umræddur kjarasamningur var gerður 18. maí 1989

eftir langt og harðvítugt verkfall. Helsti ávinninguar fyrir aðildarfélög BHMR var sá að samþykkt var að endurskoða launakerfi háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna. Í 1. gr. I. kafla kjarasamningsins segir svo:
    ,,Endurskoða skal launakerfi háskólamenntaðra starfsmanna ríkisins með tilliti til ábyrgðar, sérhæfni og menntunar sem nýtist í starfi. Skal þessi endurskoðun hafa það að markmiði að háskólamenntaðir ríkisstarfsmenn njóti sambærilegra kjara og menn sem gegna hliðstæðum störfum eða hafa sömu eða svipaða menntun, sérhæfni og ábyrgð og ekki taka laun samkvæmt launakerfi ríkisstarfsmanna, enda sé þá tekið tillit til hlunninda og annarra atriða sem áhrif hafa á starfskjör. Standa skal að umræddum breytingum með þeim hætti að ekki valdi röskun á hinu almenna launakerfi í landinu. Tímabundnar sveiflur og sérstakar aðstæður á vinnumarkaði skulu ekki hafa áhrif á þessa endurskoðun.``
    Sérstakri nefnd, skipaðri þremur mönnum af BHMR og jafnmörgum af fjmrh., var falið að annast þann kjarasamanburð sem um er rætt í 1. gr. og skila lokaáliti eigi síðar en 1. júlí 1990.
    Til áréttingar þessu og til að tryggja framgang og framkvæmd endurskoðunarinnar og kjarasamanburðarins var sett ákvæði þess efnis að hafi nefndin ekki skilað áliti á tilsettum tíma, þ.e. 1. júlí 1990 í síðasta lagi, skuli koma til greiðsla til félagsmanna upp í væntanlegar hækkanir, sbr. 6. mgr. 5. gr. kjarasamningsins, en þar segir:
    ,,Hafi nefnd skv. 3. mgr. 2. gr. ekki skilað lokaáliti hinn 1. júlí 1990 skal greitt upp í væntanlega hækkun þannig að tilfærslur milli launaflokka skv. 3. mgr. verði að jafnaði 1 1 / 2 launaflokki meiri en lágmark skv. 3. mgr. hefði verið frá 1. júlí 1990.``
    Þarna er að finna það ákvæði sem hefði fært félögum í aðildarfélögum BHMR u.þ.b. 4,5% launahækkun 1. júlí 1990 hefði það komið til framkvæmda.
    Þegar ,,þjóðarsátt`` var gerð í febrúar 1990, þ.e. samningar ASÍ og VSÍ og síðan samningar ríkisins við BSRB, fóru strax að heyrast raddir um það að ekki kæmi til greina að BHMR - félagar fengju hækkun umfram aðra. Litla furðu vakti þó að VSÍ léti þessa skoðun í ljós. Alvarlegra var að sumir forsvarsmenn verkalýðshreyfingarinnar tóku undir sönginn. Kvað þar við alveg nýjan tón þegar látið var í veðri vaka að eitt verkalýðsfélag gæti í samningum bundið hendur annars, jafnvel ógilt þegar gerða og undirritaða samninga.
    Í júní dró til tíðinda. Þann 12. júní 1990 ritaði starfandi forsrh., Halldór Ásgrímsson, BHMR þar sem einhliða var tilkynnt að ríkið hygðist ekki standa við samninga sem það sjálft var annar aðilinn að. Í því bréfi stendur m.a.:
    ,,Ein af forsendum kjarasamnings ASÍ og VSÍ, sem aðrir kjarasamningar hafa tekið mið af, er að launaþróun annarra verði sú sama og gert er ráð fyrir í samningi þessum. ... Jafnframt hefur það komið fram af hálfu fulltrúa þess launafólks, sem þegar hefur samið, að ef BHMR - félagar fengju almenna kauphækkun nú í sumar mundu þeir að sjálfsögðu sækja

viðlíka hækkanir til handa sínum umbjóðendum. ... Samkvæmt þessu munu BHMR - félagar fá þær breytingar á launalið sem annað launafólk hefur samið um.``
    Kvennalistinn mótmælti þessum vinnubrögðum þegar í stað og sendi m.a. frá sér fréttatilkynningu í tilefni þessa atburðar sem hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Í lýðræðisþjóðfélagi telst frjáls samningsréttur til grundvallarmannréttinda. Þegar ríkisstjórn Íslands sýnir nú sitt rétta andlit og grípur til þess ráðs að tilkynna BHMR formálalaust að ríkisvaldið hyggist ekki standa við sinn hlut í löglega gerðum og undirrituðum kjarasamningi hlýtur það að vekja ugg í brjósti margra og spurningar. Ekki síst þegar þess er gætt að þetta er ekki í fyrsta sinn sem samningsréttur íslenskra launþega er fótum troðinn og einskis virtur. Aðferðin er ný en innihaldið ekki. Þetta mannréttindabrot ríkisstjórnarinnar er því einungis tilbrigði við stef sem allir launþegar ættu nú að kunna.
    Fyrir rúmu ári, eftir langt og harðvítugt verkfall, gerðu BHMR og ríkið með sér samning um að endurskoða launakerfi háskólamenntaðra starfsmanna ríkisins í því augnamiði að þeir nytu sambærilegra kjara og fyrir sambærileg störf á almennum vinnumarkaði. Í kjölfar þessarar endurskoðunar, sem ljúka átti á fyrra missiri ársins 1990, skyldu tillögur um breytingar á launakerfi BHMR framkvæmdar á þremur árum. Fyrsta skref átti að stíga 1. júlí 1990.
    En þá gerist það að ríkisstjórn Íslands tilkynnir BHMR með bréfi dagsettu 12. júní 1990 að hún hafi ákveðið að fresta framkvæmd nýs launakerfis háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna. Sama dag er tilkynnt hækkun á áfengi og tóbaki og sú skýring gefin að hækkunin sé í samræmi við fjárlög. Var hækkunin til háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna, sem samið var um fyrir ári, ekki inni í fjárlögum? Ætlaði ríkisstjórnin sér aldrei að standa við samninginn?
    Í bréfi ríkisstjórnarinnar er vísað til ,,þjóðarsáttarinnar`` og að framkvæmd umsaminnar endurskoðunar á launakerfi BHMR muni spilla árangri hennar. Því til stuðnings er minnt á að ein af forsendum kjarasamnings ASÍ og VSÍ, sem aðrir kjarasamningar hafi tekið mið af, sé að ,,launaþróun annarra verði sú sama og gert er ráð fyrir í samningi þessum`` (þ.e. ASÍ og VSÍ).
    BHMR átti ekki aðild að þjóðarsáttinni svokölluðu. Samningur þess við ríkisvaldið var gerður tæpu ári fyrr. Hvorki ASÍ, VSÍ eða nokkur annar getur gert kjarasamninga sem breyta þegar gerðum samningum annarra.
    Frestun er réttlætt með því að vitna til eftirfarandi setningar í BHMR - samningnum: ,,Standa skal að umræddum breytingum með þeim hætti, að ekki valdi röskun á hinu almenna launakerfi í landinu.`` Þessi setning staðfestir að launakerfi BHMR skuli breytt, eins og 1. gr. samningsins kveður á um. Hún er ekki um það að ekki eigi að framkvæma umsamdar breytingar heldur um leiðir til þeirra breytinga.
    Með því að fresta leiðréttingunni einhliða gefur ríkisstjórnin til kynna að ekki megi hrófla við ríkjandi launakerfi. Þýðir þetta að hópar, sem hér eftir semja um leiðréttingu launa, geti ekki fengið hana vegna þess að ekki megi breyta launakerfinu? Er það launakerfi, sem nú er við lýði, eitthvert náttúrulögmál?
    Kvennalistakonur telja núverandi launakerfi óréttlátt og vilja raska því, ekki síst til þess að bæta hag kvenna á vinnumarkaðinum.
    Ríkisvald sem opinberar virðingarleysi sitt fyrir lýðræði og mannréttindum með þeim hætti sem nú er orðið er til alls víst. Það er því áríðandi að allt launafólk skilji mikilvægi þess að undirritaðir samningar haldi --- hver svo sem í hlut á --- minnugt þess að þau spjót sem beinast að einum í dag geta fyrr en varir snúist gegn öðrum á morgun.``
    Í nál. meiri hl. fjh.- og viðskn. sem er á þskj. 233 segir, með leyfi forseta: ,,Ríkisstjórnir hafa áður breytt kjarasamningum með bráðabirgðalögum sem Alþingi hefur samþykkt. Alþingi hefur einnig breytt kjarasamningum með lögum.`` Þetta virðist sagt hér til að réttlæta þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar. Síðan segir: ,,Löggjafinn hefur þannig breytt samningum milli vinnuveitenda og launafólks óháð því hver vinnuveitandinn er,`` og þá er væntanlega verið að reyna að réttlæta það að ríkisstjórnin hefur sett lög á eigin samninga. Og síðan segir: ,,Flestir stjórnmálaflokkar hafa staðið að slíku,`` og það er alveg rétt og þar með talinn Sjálfstfl. sem hefur lýst andstöðu sinni við það að nú skuli vera sett lög á kjarasamninga. Er það vel að fólk skipti um skoðun og breyti afstöðu sinni. ( FrS: Við höfum aldrei sett lög á dóm. Viltu nefna dæmi.) Nei, ég sagði það heldur ekki. Ég sagði aldrei að Sjálfstfl. hefði sett bráðabirgðalög á dóm og það vil ég ítreka, það gerði ég alls ekki. (Gripið fram í.) Það er mat margra að svo hafi verið gert, það er mat mitt og margra annarra að þarna hafi verið sett lög á dómsniðurstöðu. En það er merkilegt að það skuli vera afstaða meiri hl. fjh. - og viðskn. að þar sem áður hafi verið sett lög á kjarasamninga, þá sé orðin hefð fyrir því og nú eigum við að hafa það sem reglu að setja lög á kjarasamninga ef ríkisstjórn þóknast svo. Það er mjög alvarlegt sem stendur í áliti meiri hl. fjh. - og viðskn. og raunar alvarlegt ef hv. þm. Sjálfstfl. telja réttlætanlegt að setja lög á kjarasamninga og það sé einungis vegna þess að verið sé að setja lög á dóm sem þeir eru á móti þessari lagasetningu. Það þykir mér mjög miður og tel aldrei réttlætanlegt að gripið sé inn í frjálsa kjarasamninga með þeim hætti sem gert hefur verið allt of oft á undanförnum árum. Ber að leggja þá venju af fremur en að sköpuð verði hefði fyrir því og hefðin sé réttlæting fyrir því að nú skuli sett lög á kjarasamninga.
    BHMR - félagar höfðu ítrekað óskað eftir viðræðum um endurskoðun á launakerfi BHMR eins og samið hafði verið um, en árangurslaust. Þetta umrædda bréf var í raun einu viðbrögðin. Eftir móttöku bréfsins brást BHMR hart við og mótmælti samningsbrotum ríkisstjórnarinnar. Jafnframt var málið lagt fyrir dómstóla og samstöðu leitað með öðrum launamönnum. Allt sumarið gekk á fundum og samningaumleitunum

af ýmsu tagi.
    Dómur Félagsdóms í máli Félags íslenskra náttúrufræðinga gegn fjmrh. var á þann veg að skylt væri að standa við umsamdar launahækkanir. Í dómsorði stendur m.a., með leyfi forseta:
    ,,    Viðurkennt er að stefnda, fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs, sé frá 1. júlí 1990 skylt að greiða félagsmönnum stefnanda, Félags íslenskra náttúrufræðinga, sem starfa hjá stefnda og taka laun samkvæmt kjarasamningi aðila frá 18. maí 1989, fjárhæð sem nemur 1 1 / 2 launaflokki til viðbótar launum viðkomandi félagsmanns samkvæmt 10. gr. kjarasamnings aðila.``
    BHMR sendi þá öllum hlutaðeigandi launagreiðendum bréf með kröfu um greiðslu á 4,5% launahækkun í samræmi við dóm Félagsdóms. ASÍ brást hart við og krafðist þess að BHMR afsalaði sér hækkuninni. Þeirri beiðni hafnaði BHMR.
    Þann 27. júlí kynnti viðræðunefnd BHMR fjmrh. um samþykkt samninganefndar BHMR um breytingu á 15. gr. kjarasamningsins til að koma í veg fyrir víxlverkunaráhrif launahækkana, en það hafði verið ein sterkasta röksemd ríkisstjórnarinnar í málinu að framkvæmd hennar mundi leiða til óðaverðbólgu. Sú hefði eflaust orðið raunin hefði verið staðið við þær yfirlýsingar sem gefnar höfðu verið. Þar með hefðu víxlverkunaráhrifin verið komin í fullan gang. Tilgangur BHMR með tilboðinu um breytingu á 15. gr. var einmitt að koma í veg fyrir slíkt. Reyndar kom fram að það hefði fyrst og fremst verið fjmrh. sem óskaði eftir þessari grein í samningaviðræðum við gerð hans.
    Þessu erindi BHMR var ekki sinnt og 27. júlí tilkynnti ríkisstjórnin að ákveðið hafi verið að segja upp samningi ríkisins og BHMR. Enn reyndi BHMR samningaleiðina og sendi ríkisstjórninni bréf dags. 30. júlí 1990. Þar segir m.a.:
    ,,Samninganefndin vill leggja sitt af mörkum til svonefndrar ,,þjóðarsáttar`` með því að breyta efni 15. gr. kjarasamninga aðildarfélaga BHMR frá 18. og 19. maí 1989 þannig að BHMR - félagar geti ekki krafist launaleiðréttinga ef laun hækka hjá öðrum launamönnum. Með þessu er höggvið nú strax á þann hnút sem kjaramálin í landinu virðast vera komin í og það tryggt að hægt verði að leiðrétta lægstu launin í landinu án víxlverkana. Er þetta í samræmi við óskir ASÍ og BSRB.``
    Ef ríkisstjórnin hefði gengið að þessu tilboði hefði eflaust verið auðveldara að taka upp viðræður við BHMR um aðra þætti samningsins og þar sem BHMR hafði með þessu tilboði sýnt bæði skilning, samstarfsvilja og ábyrgð hefði næsta skrefið átt að vera að snúa sér bæði til ASÍ og VSÍ sem gáfu út yfirlýsingu 31. júlí ásamt VMSS þess efnis að þeir mundu greiða viðsemjendum sínum sömu hækkun launa og félagar í BHMR hlytu og krefjast þess sama af þeim. Áhugi þeirra á því að þjóðarsátt héldi hefði einmitt getað birst í sama skilningi og ábyrgð og dregnar til baka yfirlýsingar um sömu hækkanir til allra. Þannig hefði verið komið í veg fyrir víxlverkun launa og verðlags og óðaverðbólgu bægt frá. Eftir hefði staðið 4,5%

hækkun til BHMR - félaga sem í raun var leiðrétting en ekki launahækkun. Sú leiðrétting hefði kostað 350 -- 400 millj. kr. sem ekki hefði leitt til neinnar almennrar hækkunar á verðlagi eða þjónustu og ekki hefði verið brotið á þeim 4 þús. ríkisstarfsmönnum sem eru innan vébanda BHMR.
    Í meirihlutaáliti fjh. - og viðskn. er ein réttlætingin á því að samþykkja þessi lög og ein réttlæting ríkisstjórnarinnar á því að setja bráðabirgðalögin álit Þjóðhagsstofnunar þar sem segir orðrétt:
    ,,Niðurstöður þessara útreikninga sýna að verði víxlhækkanir verðlags, launa og gengis með þeim hætti sem að framan greinir stefnir í stöðugt vaxandi verðbólgu.`` Þeir segja reyndar líka: ,,Tilgangslítið er að reikna slík dæmi langt fram í tímann`` þannig að þetta er reiknað mjög skammt fram í tímann. ,,Ljóst er að á nokkrum mánuðum yrði þriggja mánaða hraði verðbólgunnar miðað við heilt ár kominn í tugi prósenta.``
    Þarna gefa þeir sér þá forsendu að komið verði af stað víxlhækkunum, þ.e. um leið og BHMR fái hækkun þá fái aðrir hækkun og þá fái BHMR hækkun o.s.frv. Þetta eru alveg furðulegar forsendur en það má segja þeim til málsbóta að á fyrstu síðu þessa álits þeirra segir að marga fyrirvara þurfi að hafa í dæmum af þessu tagi og ég vona að þeir hafi gert sér grein fyrir því hversu hæpið er að setja fram útreikninga á þann hátt sem þarna er gert.
    Í umsögn hagfræðideildar Seðlabankans um sama atriði, þar sem forsrh. óskaði eftir því að Seðlabankinn mæti verðbólguáhrifin, kemur allt annað álit fram. Það sem segir í þeirra mati er m.a.: ,,Það er vissulega hægt að hugsa sér mörg önnur tilbrigði, misjafnlega háskaleg, við þá atburðarás sem hér er dregin fram`` --- þá eru þeir að tala um það sama og Þjóðhagsstofnun. --- ,,Til þess að hækkun verðlags nái 20% yfir árið þyrfti t.d. víxlhækkun launa um 4,5% annan hvern mánuð fram yfir mitt ár að viðbættu mánaðarlegu gengissigi upp á um það bil 1,5% á mánuði.`` Algerlega er óhugsandi að mati hagfræðideildar að VSÍ mundi gangast inn á slíkt þar sem engin afdráttarlaus ákvæði eru í kjarasamningi ASÍ og VSÍ um að svo þurfi að vera. Og síðan er sagt: ,,Það er því mat hagfræðideildar að skynsamleg túlkun kjarasamnings ASÍ og VSÍ feli ekki í sér vá óðaverðbólgu.`` Ég endurtek, ,,skynsamleg túlkun kjarasamnings ASÍ og VSÍ feli ekki í sér vá óðaverðbólgu.`` Hvers vegna er þetta ekki dregið fram í umræðunni? Hvers vegna tekur meiri hl. hv. fjh. - og viðskn. þetta ekki inn í sitt álit og gerir það að umtalsefni?
    En ríkisstjórnin kaus að fara aðra leið en samningaleiðina við BHMR. Þann 3. ágúst voru bráðabirgðalögin sett sem grípa inn í kjarasamninga ríkisins og BHMR. Tvær mikilvægar greinar hans eru felldar úr gildi og gildistími styttur um rúmlega þrjú ár. Látið er í veðri vaka að þau nái til allra en þau gera það ekki. Tekið er fram að þau nái ekki til þeirra kjarasamninga sem þá, þ.e. 3. ágúst, eru lausir og þau breyta engu fyrir þá sem aðild eiga að þjóðarsátt. Þessi bráðabirgðalög eru því í raun sett til höfuðs fámennum hópi og er það í hróplegu ósamræmi við 28. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir: ,,Þegar brýna nauðsyn ber til, getur forsetinn gefið út bráðabirgðalög milli þinga.`` Er sá skilningur almennur að það skuli varða þjóðarheill.
    Athæfi ríkisstjórnarinnar allt hlýtur að teljast ámælisvert. Aldrei var reynt að fara samningaleið og fátt eða ekkert getur réttlætt aðferðir ríkisstjórnarinnar, enda hefur BHMR ekki viljað hlíta þessu og hefur verið lögð inn stefna fyrir bæjarþingi Reykjavíkur vegna eins félagsmanna úr aðildarfélögum BHMR til kröfu á þeim 4,5% sem afnumin voru með bráðabirgðalögunum. Lagarök eru m.a. þau að BHMR telur að bráðabirgðalögin brjóti í bága við stjórnarskrána í fjórum greinum. Vil ég lesa nokkur atriði úr stefnu BHMR, með leyfi forseta:
 ,,1. Samtökin telja að setning laganna brjóti í bága við 2. gr. stjórnarskrárinnar sem kveður á um þrískiptingu valdsins. Lögin voru sett í þeim tilgangi að ómerkja dóm sem æðsta dómsvald hafði fellt.
    2. Samtökin telja að lögin stríði gegn eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar sem eru í 67. gr. hennar. Með lögunum er hluti af launum afmarkaðs hóps þjóðfélagsþegna gerður bótalaust upptækur.
    3. Samtökin telja lögin brjóta gegn 73. gr. stjórnarskrárinnar sem fjallar um félagafrelsi. Þegar viðsemjandi beitir sér fyrir einhliða afnámi samnings er í raun og veru verið að kippa stoðunum undan starfsemi stéttarfélaga. Þar með er verið að svipta launamenn þeim rétti til frjálsrar félagastarfsemi sem stjórnarskránni er ætlað að tryggja.
    4. Alþingi ræddi öll tilvik þessa máls í vetur og þar með einnig möguleikann á lagasetningu. Samtökin telja þess vegna að heimild til setningar bráðabirgðalaga skv. 28. gr. stjórnarskrárinnar hafi ekki verið fyrir hendi.``
    Hv. 1. þm. Norðurl. v. Páll Pétursson las hér greinargerð ríkislögmanns og þarf ekki að ræða hana frekar að mínu mati.
    BHMR hefur einnig kært til Aþjóðavinnumálastofnunar og telur að þessi lög brjóti í bága við tvær samþykktir stofnunarinnar, þ.e. samþykktina um beitingu grundvallarreglna um réttinn til að stofna félög og semja sameiginlega og einnig samþykktina um félagafrelsi og verndun þess. Í plaggi frá BHMR segir að þeir muni vekja athygli Alþjóðavinnumálastofnunarinnar á eftirfarandi aðstæðum, með leyfi forseta:
 ,,1. Bráðabirgðalögin eru sett af ríkisstjórninni sem var samningsaðili BHMR. Annar tveggja samningsaðila getur ekki haft rétt til að ómerkja meginefni samnings þegar honum hentar.
    2. Bráðabirgðalögin veitast að umsömdum kjörum afmarkaðs hóps launamanna.
    3. Bráðabirgðalögin ómerkja niðurstöðu æðsta dómsvalds um kjör launamanna.
    4. Bráðabirgðalög hafa undanfarin ár grafið undan starfsemi stéttarfélaga en þessi lagasetning er sérstök árás á félög innan BHMR.
    5. Bráðabirgðalögin eru sett með vitund annarra stéttarfélaga sem í sínum samningum hafa gert ráð

fyrir að samningur BHMR - félaganna yrði ómerktur.``
    Kvennalistinn telur að ríkisstjórnin hafi með vinnubrögðum sínum unnið ómældan skaða, grafið undan trausti dómstóla, rýrt álit Íslands á alþjóðavettvangi auk þess óheillaverknaðar sem setning bráðabirgðalaganna var. Sá skaði verður seint bættur sem unninn er. Þjóðarsátt er engin afsökun fyrir þessari gjörð. Á aðrar leiðir var aldrei látið reyna. Það getur ekki verið réttlátt að hluti verkalýðshreyfingarinnar þurfi að gjalda fyrir samninga sem aðrir gera. Það eru ákvæði um samningsrétt í landinu. Kjarasamningur BHMR og ríkisins er gerður tæpu ári fyrir þjóðarsátt. Hún var ekki gerð við BHMR og er ekki á þess ábyrgð. Ábyrgðin er þeirra sem hana gerðu. Við gerða kjarasamninga á að standa og þá sérstaklega þeir sem aðild eiga að þeim eins og er í þessu tilfelli.
    Ríkisstjórnin segir að allt verði til að vinna svo að þjóðarsátt haldi, annars blasi við óðaverðbólga. En engin svör hafa fengist við því hvað gerist 15. sept. nk. þegar þjóðarsátt lýkur. Voru bráðabirgðalögin einungis forsmekkur þess sem koma skal? Er e.t.v. ætlunin að ríkisstjórn geti einhliða tekið sér það vald að ákvarða launakjör fólksins í landinu og gera þar með alla samninga óþarfa og ómerka? Sú ríkisstjórn, sem nú situr, hefur þegar sýnt það í verki að hún skirrist ekki við að taka sér þetta vald.
    Ríkisstjórn, sem með svo hrokafullum hætti opinberar virðingarleysi sitt fyrir lýðræði og mannréttindum, er til alls vís. Því er mikilvægt, áður en spjótin beinast gegn fleirum, að stöðva hana í þessum óheillaverkum. Til að stuðla að því og til að BHMR - félagar nái þeim rétti, sem þeim ber, munu kvennalistakonur greiða atkvæði gegn þessu frv.