Launamál
Fimmtudaginn 06. desember 1990


     Frsm. 2. minni hl. fjh. - og viðskn. (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Mér er ætlað að mæla hér fyrir nál. á þskj. 245. Áður en ég vík að því langar mig til þess að segja frá því að þegar ég hlýddi á mál hv. 1. þm. Norðurl. v., sem er frsm. meiri hl. hv. fjh. - og viðskn., fannst mér eins og ég væri kominn í dómsal því að meginþorra ræðu sinnar eyddi hv. þm. í að lesa upp úr greinargerð ríkislögmanns. Þá sátu hér nokkrir hæstv. ráðherrar í fremstu röð en hæstv. forseti sat í forsetastól rétt eins og hann væri dómari. Nú bregur svo við að enginn hæstv. ráðherra --- það er von að maður ruglist og ætli að kalla þá hæstv. sakborninga --- er við hér í salnum né heldur verjandi þeirra, hv. 1. þm. Norðurl. v. Sé ég þó hann koma hér í gættina og er það vel ef hann nær að hlýða á mál mitt.
    Mér er kunnugt um það, virðulegi forseti, að hæstv. forsrh. gat ekki verið viðstaddur þessa umræðu af eðlilegum ástæðum. En það hefði vissulega verið fengur í því ef hæstv. fjmrh. hefði mátt vera að því að verja smábroti af lífi sínu til þess að hlusta á ræður sem hér eru fluttar því að sumt af því sem sagt verður hér á erindi til hæstv. fjmrh. sem fer með þetta mál, a.m.k. þegar það kemur óþægilega við hæstv. forsrh., sem raunar er sá sem lagði það fram hér á hinu háa Alþingi.
    Það eru aðeins tvö atriði sem komu fram hjá hv. 1. þm. Norðurl. v. í hans málflutningi hér áðan, þ.e. atriði sem hann lagði sérstaka áherslu á. Fyrra atriðið var þetta: Þjóðhagsstofnun spáir því að allt fari til fjandans ef bráðabirgðalögin falla. Í áliti stofnunarinnar, sem hæstv. forsrh. bað um, kemur í ljós að verðbólgan getur farið upp í 20 -- 40% á skömmum tíma.
    Nú er það svo að allir spádómar sem þessi byggjast á forsendum. Forsendur spádóms Þjóðhagsstofnunar eru þær að í landinu sitji ríkisstjórn sem aðhafist ekkert, láti þetta allt saman afskiptalaust, og til viðbótar að aðilar vinnumarkaðarins láti sér það vel líka að verðbólga hlaupi svona upp. Á þetta er rækilega minnt í áliti Seðlabankans sem birtist sem fskj. með nál. 2. minni hl. og mun ég síðar koma að því. En með sömu rökum og Þjóðhagsstofnun notar þegar hún er að færa forsrh. vopn í hendurnar mætti halda því fram að ef það frv. sem hér er til umræðu félli yrði verðbólgan 1000% á næstu árum og jafnvel 200.000% um aldamótin. Er þá notast við sömu forsendur, þ.e. að hér sitji ríkisstjórn sem ætli sér ekkert að fást við þessi vandamál eins og Þjóðhagsstofnun virðist álíta þegar hún sendir núv. hæstv. forsrh. sitt álit. Þetta verða menn að hafa í huga þegar rætt er um forsendur spádóms Þjóðhagsstofnunar.
    Ég vil leyfa mér í þessu sambandi að minna á að hægt er að fá allt aðra tölu. Ef við t.d. álítum að ekkert gerðist annað en það að BHMR fengi 4,5% launahækkun, þá mundi verðbólgan fara sáralítið af stað. Þannig má með ákveðnum forsendum finna út að þótt þetta frv. félli þá þyrfti verðbólgan ekki að aukast

nema innan við 1%. Svona má leika sér með tölur.
    Hitt atriðið sem kom fram í málflutningi hv. 1. þm. Norðurl. v., sem er frsm. meiri hlutans, var að í raun og veru væri þetta ekki svo afleitt allt saman því að verjandi hæstv. fjmrh., ríkislögmaður, hefði greinargerð til bæjarþingsins og með því að lesa upp úr greinargerð verjanda stefnda þá var hægt að komast að þessari niðurstöðu. Það er auðvitað fátítt að gripið sé til slíks bragðs en á móti kemur að aðrir lögfræðingar, jafngildir lögfræðingar í bænum, þar á meðal tveir hæstaréttarlögmenn, hafa á undanförnum dögum verið að skrifa um þessi mál og álit beggja liggja fyrir sem fylgiskjöl með nál. 2. minni hl. Mun ég víkja betur að því hér á eftir. Það hlýtur að vekja sérstaka athygli að hv. 1. þm. Norðurl. v. skuli sækjast eftir því að bera hér á borð álit ríkislögmanns. Þess vegna er ástæða til að spyrja hæstv. forsrh., sem væntanlega kemur til með að lesa þessa ræðu, að því hvernig á því hafi staðið að ekki var leitað álits ríkislögmanns þegar margoft var bent á að hæstv. ríkisstjórn þyrfti að aðhafast eitthvað varðandi samning BHMR áður en í óefni stefndi. Hvernig í ósköpunum stóð á því að þá var ekki leitað álits ríkislögmanns?
    Ég vek athygli á því, virðulegi forseti, að hv. 6. þm. Norðurl. e. Stefán Valgeirsson hefur lagt fram fyrirspurn nú á þessu þingi og spyr til hvaða lögfræðinga hafi verið leitað þegar álit var fengið um það hvað gera skyldi. Ég hygg mig vita hvers vegna hv. þm. spyr að þessu. Það er vegna þess að það hefur verið erfitt að toga þetta upp úr hæstv. ráðherrum. Sem betur fer hlífði hæstv. forsrh. ríkislögmanni hér í ræðu um daginn og sagði að hann hefði leitað álits ýmissa aðila, þar á meðal aðstoðarmanns síns, sem hér situr í hliðarsal. Reyndar hefði það nú ekki gert útslagið heldur hitt að hann hafi spurt hæstv. fjmrh. að þessu og hæstv. fjmrh. hefði sannfært hann um það að til einskis þyrfti að grípa.
    Virðulegi forseti. Ef hv. þm. Páll Pétursson hefði verið samkvæmur sjálfum sér hér áðan í ræðunni, þá hefði hann óskað eftir --- ég ætlaði nú að segja hléi í réttinum, en maður ætti kannski að segja óska eftir því að þessu máli yrði frestað þar til dómur félli. Meginþunginn í varnarræðu hv. þm. byggðist á greinargerð verjandans í bæjarþingi Reykjavíkur. Ef hv. þm. telur að það eina sé satt sem þar standi er auðvitað eðlilegt að álykta sem svo að hann telji að nú eigi að bíða eftir niðurstöðu dómsins. Ég vænti þess að á næstu dögum, þegar þetta mál verður til umræðu, muni hv. þm. svara því hvort hann telji eðlilegt að bíða eftir því að dómur falli, en mér er sagt að hann kunni að falla snemma á næsta ári.
    Eins og ég sagði í upphafi, virðulegi forseti, þá mæli ég fyrir nál. sem er á þskj. 245 og er álit 2. minni hl. fjh. - og viðskn. Í þessu nál. rek ég hvernig staðið var að samningi BHMR annars vegar og ríkisins hins vegar, hverjir voru þar að verki og hvaða skuldbindingar þeir tóku á sig. Ég rifja upp samkomulagið sem kallað hefur verið þjóðarsáttin og hvernig hæstv. ríkisstjórn tók það að sér að sjá um að BHMR gengi í bandalag við hinn hluta þjóðarinnar

um það að standa að þeim forsendum sem þá lágu fyrir. Þetta ætlaði hæstv. ríkisstjórn að tryggja og handsalaði það eins og upplýst hefur verið.
    Loks er greint frá því hvernig úrskurður Félagsdóms féll og staðfesti skilning BHMR. Síðan er sagt frá bráðabirgðalögunum og loks frá því að ekki hafi verið nægur meiri hluti fyrir hendi á hinu háa Alþingi. Í lokin er greint frá niðurstöðu og afstöðu 2. minni hl.
    Ég vek athygli á því að það mun vera einsdæmi að fjórir hæstv. ráðherrar hafi staðið að kjarasamningagerð eins og gerðist í því tilviki þegar gerður var kjarasamningur við BHMR hinn 18. maí 1989. Það er alveg ljóst að í þeim samningi var gert ráð fyrir verulegri hækkun hjá starfsmönnum ríkisins í BHMR umfram aðra launþega. Það var ljóst frá upphafi. Og í þeirri grein samningsins sem var eins konar refsigrein, en það er um hana sem styrinn stendur, var sagt beinlínis að 4,5% greiðsla væri upp í væntanlega hækkun. Ég vek athygli á þessu. Allir hæstv. ráðherrarnir sem tóku þátt í samningsgerðinni vissu frá upphafi að hverju stefndi. Það hefur verið ítarlega farið í þennan samning. Það gerði frsm. 1. minni hl. sem talaði hér næst á undan mér.
    Það vekur einnig athygli að hæstv. ráðherrar töldu að þeir hefðu tekist á hendur persónulegar og pólitískar skuldbingingar. Þeir hefðu skuldbundið sig bæði pólitískt og persónulega þegar þessi samningur var gerður. Hæstv. fjmrh. lýsti þessu svo í Þjóðviljanum 19. maí 1989, einmitt á þeim degi sem samningurinn var gerður við BHMR, þ.e. viðtalið var sama dag en birtist daginn eftir. Þjóðviljinn er að okkur er tjáð málgagn hæstv. fjmrh. Ég les orðrétt, með leyfi forseta, úr þessu viðtali við hæstv. fjmrh.:
    ,,Samningurinn sem náðist er að mörgu leyti tímamótasamningur. Með því að bera beint ábyrgð á samningavinnunni var bæði ég sem fjmrh. og síðan ríkisstjórnin í heild að taka verulega pólitíska áhættu þar sem líf hennar og kannski staða einstakra ráðherra gat ráðist af því hvernig samningsgerðin tækist.`` Og áfram í viðtalinu segir: ,,Hin beina þátttaka ríkisstjórnarinnar í samningagerðinni gæfi auðvitað til kynna að ríkisstjórnin telur sig pólitískt og persónulega skuldbundna til að vinna það verk sem fram undan er í einlægni og byggja upp trúnaðartraust á nýjan leik.``
    Þetta er orðrétt haft eftir hæstv. fjmrh. þegar hann hafði nýlokið við að skrifa undir þann samning sem hann síðar sveik.
    Strax við gerð þessa samnings lá fyrir að ýmsir ábyrgir aðilar í þjóðfélaginu sáu það í hendi sér að þessi samningur var öðruvísi og útgjaldameiri en aðrir samningar sem gerðir höfðu verið. Annars vegar vil ég benda á að Morgunblaðið skrifaði um þetta í leiðara og varpaði fram ýmsum spurningum, sem ég hygg að hollt hefði verið fyrir hæstv. ráðherra að velta fyrir sér þá, og hins vegar skrifaði formaður Sjálfstfl. að ljóst væri að þessi samningur hefði verið gerður án þess að nokkur innstæða hefði verið fyrir þeim útgjöldum sem fylgdu í kjölfarið.

    Nú víkur sögunni að því, virðulegi forseti, að gerður er kjarasamningur hinn 1. febr., sem reyndar átti nú nokkurn aðdraganda, á milli ASÍ og VSÍ og komu þar fleiri aðilar að verki. Þessi kjarasamningur hefur verið kallaður þjóðarsáttin eftir að hæstv. ríkisstjórn þáði að taka sér far með fulltrúum aðila vinnumarkaðarins. Ég leyfi mér að kalla þennan heildarsamning sem þar var gerður þjóðarsátt þó sumum þyki það varla vera rétt nafn. Það liggur á borðinu og er viðurkennt af samningsaðilum í þeim samningi að kallað var eftir tryggingu fyrir því að kjarasamningar ríkisstjórnarinnar röskuðu ekki febrúarsamningunum. Það hefur komið fram, m.a. hjá formanni Vinnuveitendasambands Íslands, að ríkisstjórnin hafi handsalað þetta. Með öðrum orðum, strax 1. febr. var ljóst að hæstv. ríkisstjórn skuldbatt sig til þess að efna ekki samninginn og verður að skilja það sem svo að hæstv. ríkisstjórn hafi ætlað sér að tryggja að BHMR, sem hæstv. ríkisstjórn hafði samið við árið áður, ætlaði að taka þátt í þjóðarsáttinni. Auðvitað hlutu aðilar að gera ráð fyrir því að slíkt yrði gert með samkomulagi og samningsumleitunum á milli hæstv. ríkisstjórnar og BHMR. Um þetta var nokkuð fjallað í fjölmiðlum á þessum tíma. Það er hins vegar athygli vert að hæstv. fjmrh. sagði tiltölulega fljótt að í raun og veru þyrfti ekkert að hafa áhyggjur af þessu því að 1. gr. samningsins héldi. Með öðrum orðum, hæstv. fjmrh. hélt því fram að 1. gr. væri þannig að í raun og veru þyrfti ekkert að efna samninginn og þess vegna væri engin ástæða til þess að tala við hinn samningsaðilann. Þessu hélt hæstv. fjmrh. fram aftur og aftur þrátt fyrir fjölda ábendinga um annað.
    Þjóðviljinn virðist hafa verið á annarri skoðun því að um þetta er fjallað strax 2. febr. í því blaði. Þá er bent á, eins og segir hér á bls. 3 í nál. 2. minni hl., að það væri ,,banabiti
verkalýðshreyfingarinnar ef hún ætlaði sér að fá samningi við BHMR rift og varla hægt að ætla neinum slíkt brot á grundvallarmannréttindum.``
    Þetta er ekki upp úr Morgunblaðinu og þetta er ekki heldur haft eftir hv. þm. Geir Gunnarssyni né heldur hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni. Þetta er upp úr Þjóðviljanum daginn eftir að þessir samningar voru undirritaðir.
    Ég læt öðrum eftir að skilja hvað í þessu felst en ég tel að þetta sanni það að a.m.k. sumir hafi álitið að það ætti að fara siðlega og löglega að þessu máli sem hér er til umræðu. Formaður Alþb., hæstv. ráðherra, kaus hins vegar að horfa fram hjá fyrirliggjandi staðreyndum og sagði að ríkisstjórnin hefði náð sínu fram án þess að beita lögþvingunum með einum eða öðrum hætti.
    Skömmu eftir að samningurinn var gerður á milli ASÍ og VSÍ hófust umræður um þetta mál. Formaður Vinnuveitendasambandsins, Ari Skúlason, hagfræðingur ASÍ, og fleiri og fleiri bentu á að það þyrfti að aftengja þá tímasprengju sem fælist í samningi BHMR. Í DV 8. febr. sagði fjmrh. orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Það er ljóst að Einar Oddur Kristjánsson, formaður VSÍ, hefur ekki lesið vel yfir kjarasamninga BHMR þegar hann kallaði þá tímasprengju sem þyrfti að aftengja. Það hefur engin tímasprengja verið tengd. Það er því ljóst að kjarasamningar háskólamanna munu ekki raska því jafnvægi sem nýju kjarasamningarnir eiga að tryggja á vinnumarkaði og í efnahagslífinu. Endurskoðun og breytingar á launakerfi háskólamanna verði því að vera innan þess ramma sem nýju kjarasamningarnir marka.``
    Þetta eru orðrétt ummæli hæstv. fjmrh.
    Ég tel, virðulegi forseti, ekki ástæðu til þess að fara mörgum orðum um söguna. Það hefur verið gert hér fyrr. En það er rétt sem kom fram hjá fyrri ræðumanni að loks hinn 12. júní aðhafðist ríkisstjórnin eitthvað. Það fyrsta sem henni datt í hug að gera var að kalla til sín fulltrúa BHMR og segja þeim að hæstv. ríkisstjórn hafði ákveðið að greiða ekki út samkvæmt samkomulaginu sem gert hefði verið árið áður. Þetta mál endaði síðan með því að það fór fyrir Félagsdóm sem er æðsti dómstóll í þessum málum. Niðurstaða Félagsdóms var skýr og hann undirstrikaði þá staðreynd sem um hafði verið deilt að áhrif kjarasamningsins voru þekkt frá upphafi og hlutu að hafa sams konar áhrif hvort sem þjóðarsáttin var gerð eða ekki. Eins er bent á þann sjálfsagða hlut að leita verði samkomulags áður en annar aðili í tvíhliða samningi tekur einhliða ákvarðanir um efnisatriði.
    Það er mjög mikilvægt að menn átti sig á því að samningurinn sem gerður var við BHMR fól í sér þá hættu sem allir eru að tala um núna, þá vá, allan tímann. Þjóðhagsstofnun gæti nákvæmlega eins hafa reiknað þá og allar götur síðan að afleiðingin hefði verið sú sama algerlega burt séð frá framhaldinu. Það hlaut að vera ljóst þá, eins og endranær, að aðrir launþegahópar mundu aldrei þola BHMR það að þeir fengju launahækkanir langt fram yfir það sem gerðist almennt á vinnumarkaðinum.
    Virðulegi forseti. Ég má til með núna þegar ég ræði þetta alvarlega mál að benda á það enn einu sinni að hér í salnum situr ekki einn einasti hæstv. ráðherra. Ég veit ekki hvort hæstv. forseta þykir þetta mál vera mjög lítið og lítils virði og í raun og veru sé það aukaatriði að troða þessu hér í gegnum þingið, en ég verð að lýsa yfir undrun minni eftir að hafa legið mjög mikið yfir þessu máli, lagt á mig mikla vinnu við að safna öllum upplýsingum, þegar ég þarf að lesa orð hæstv. ráðherra úr blöðum og fjölmiðlum öðrum, án þess að nokkur þeirra sjái sóma sinn í að vera hér við. Þetta eru þó menn sem hafa verið dæmdir af Félagsdómi og standa núna í málaferlum við BHMR. Og það er ekki nóg að hv. 1. þm. Norðurl. v. lesi hér upp lögfræðilegar greinargerðir fyrir bæjarþingi Reykjavíkur. Mér finnst að sakborningarnir þurfi að vera viðstaddir. Ég veit og ég endurtek það að æðsti presturinn, hæstv. forsrh., er á spítala og kemst ekki. Við féllumst á það að flýta því að taka þetta mál fyrir í dag þrátt fyrir fjarveru hans að sérstakri beiðni hv. 1. þm. Norðurl. v. Ég hélt ekki að allir væru þar. Nú er klukkan að verða þrjú, kannski er heimsóknartími. Ég veit ekki hvort öll ríkisstjórnin fer þangað. Ef svo er, þá held ég að rétt væri að við gæfum smáhlé. En það undrar mig stórlega satt að segja að þessi virðing sé borin fyrir því frv. sem hefur líklega verið umdeildasta frv. síðasta tíma og er hér flutt til þess að staðfesta bráðabirgðalög sem eru umdeildustu bráðabirgðalög líklega sem sett hafa verið frá upphafi. Undirstrikar þetta kannski það að hæstv. ráðherrar þola ekki sannleikann í þessu máli? Ég geri mér grein fyrir því að virðulegur forseti er að leita að hæstv. ráðherrum og skal ég halda ræðu minni áfram á meðan.
    Ég er kominn að því að dómur Félagsdóms er fallinn og fyrst þá fer hæstv. ríkisstjórn að reyna að semja við BHMR. Þær samningaviðræður sem þá hófust voru hreinar sýndarviðræður, eins og reyndar hefur komið fram hjá hv. síðasta ræðumanni. Það er ljóst að BHMR - forustan treystir ekki núverandi valdhöfum. Í viðtölum við aðra, þar á meðal forustumenn Sjálfstfl., hefur komið fram af hálfu þeirra skilningur á því að gera megi samninga við BHMR á öðrum nótum en hingað til hefur verið gert. Þeir hafa jafnframt sagt að það verði mjög erfitt fyrir þá að semja við aðila sem eru tilbúnir til að svíkja þá samninga áður en blekið þornar á samningsblaðinu.
    Þá er ég kominn að því, virðulegi forseti, að hæstv. ríkisstjórn gaf út bráðabirgðalög. Það átti sér aðdraganda sem ég ætla aðeins að rekja hér. Það er ekki rétt sem hv. 1. þm. Norðurl. v. sagði í sinni framsöguræðu að löggjöf á borð við þessa hefðu allir eða flestallir stjórnmálaflokkar staðið að. Það er nefnilega grundvallarmunur á þessum bráðabirgðalögum og þeim sem oft hefur verið gripið til og mun ég víkja betur að því síðar. En það er athygli vert þegar skoðaður er aðdragandi bráðabirgðalaganna að strax eftir að dómur féll var talað við hæstv. fjmrh. Í viðtali við DV hinn 24. júlí á þessu ári þegar hann var spurður hvort kæmi til greina að setja bráðabirgðalög á þessar hækkanir svaraði hæstv. fjmrh., með leyfi forseta, orðrétt: ,,Nei, það tel ég ekki vera. Það kemur ekki til greina að setja bráðabirgðalög á niðurstöður dómsins.``
    Undir þetta tók reyndar starfandi forsrh. Halldór Ásgrímsson eins og alþekkt er.
    Það var hins vegar annað hljóð í strokknum hjá hæstv. utanrrh. Hann taldi að það ætti að segja samningum upp og setja bráðabirgðalög að hluta þannig að samningurinn takmarkaðist að nokkru leyti. Smám saman varð hins vegar ljóst að hverju stefndi. Vandinn var auðvitað hjá Alþb. en fulltrúar þess, einkum hæstv. ráðherrar, höfðu tekið mjög mikið upp í sig um þessi efni.
    Í viðtali við Morgunblaðið segir hæstv. fjmrh. eftir að bráðabirgðalögin voru sett, með leyfi forseta: ,,Bráðabirgðalögin eru í þeirri mynd sem við vildum hafa þau.`` Hann var þá nýbúinn að segja að hann mundi ekki standa að því að setja slík bráðabirgðalög, ég skýt því hér inn. ,,Við vildum ekki takmarka samningsrétt þeirra sem eru með lausa samninga og það er ekki gert í þessum bráðabirgðalögum. Almennur samningaréttur og lýðréttindi eru ekki skert með

þessum lögum.`` Síðan er hann spurður: En hvað ef félög með lausa samninga ætla að fá meira en felst í þjóðarsáttinni? Verða þá sett lög á þau? Hann svarar orðrétt: ,,Þau geta auðvitað farið fram á hvað sem er``, sér er nú hvað, ,,en lýðræðislegur réttur þeirra til að gera sjálfstæða samninga er ekki skertur í þessum bráðabirgðalögum.`` Undir þetta tekur síðan hæstv. menntmrh. sem hafði keypt pakkann, hafði bitið á agnið. Hann segir í viðtali við Þjóðviljann þennan dag: ,,En það grundvallaratriði verða menn að hafa í huga að allir sem á annað borð hafa lausa samninga geta, ef þeir ná til þess stöðu, samið sig frá þessu. Þannig að mannréttindaákvæði laga, stjórnarskrár og leikreglu í þjóðfélaginu eru á sínum stað, hvort sem um er að ræða rétt til uppsagnar, samninga og verkfalla. Pólitískt séð fyrir Alþb. er þetta meginatriðið í mínum huga.``
    Hvað þýðir þetta? Þetta þýðir það að hæstv. ráðherrar Alþb. halda því fram að þeir sem hafa lausa samninga geti í raun og veru samið um hvaða launahækkanir sem er. Og nú spyr ég: Trúir því nokkur maður að það yrði þolað af hæstv. ríkisstjórn? Trúir því nokkur maður að það yrði þolað af þeirri hæstv. ríkisstjórn sem nú situr miðað við þá spádóma sem fyrir liggja hjá Þjóðhagsstofnun? Því að það vita allir að það er sama hvaða hópur fær launahækkun þá munu samningarnir frá því í febrúar gliðna og allir aðilar fá sömu launahækkun. Auðvitað eru þetta orðin tóm. Þetta er sett upp með þessum formlega hætti til að kaupa Alþb., sem hefur verið kjaftfullt af yfirlýsingum um frjálsan samningsrétt, til fylgis við bráðabirgðalögin.
    En þá kem ég að því að tveir hv. þm. Alþb. greiddu atkvæði í þingflokknum gegn þessari niðurstöðu. Ég leyfi mér að vitna hér til hv. þm. Geirs Gunnarssonar sem orðaði sína hugsun eins og venjulega með mjög skýrum hætti. Hann sagði í viðtali við Þjóðviljann hinn 4. ágúst, með leyfi forseta, orðrétt:
    ,,Ríkisstjórnin gerði þennan samning áður en þjóðarsáttin var gerð og maður verður að ímynda sér að hún hafi ætlað að standa við hann. En svo er eins og menn hafi verið ráðnir í að hafa hann að engu. Svo kom þetta áfall sem úrskurður Félagsdóms var og þá var ekki hikað við að afnema dóminn með lögum. Alltaf þegar gerð er atlaga að samningsrétti launafólks hefur það fordæmisgildi. Það veit enginn hver verður næstur.``
    Hugsið ykkur. Þetta er maðurinn sem mun innan tíðar hverfa af þingi til þess að hleypa hæstv. fjmrh. að. Það er munur á hugsun þessara tveggja manna.
    Hv. 1. þm. Norðurl. v., frsm. meiri hl., gerði lítið úr því þegar gagnrýnt væri að ekki væri tilskilinn meiri hluti fyrir hendi á hinu háa Alþingi. Það mætti halda að hv. þm. gerði sér ekki grein fyrir því að Alþingi starfar í tveimur deildum. Auðvitað þarf ríkisstjórn sem ætlar að hafa starfhæfan meiri hluta að hafa meiri hluta í báðum deildum. Hugtakið starfhæfur meiri hluti þýðir það að í þingræðislandi þar sem um tvær deildir er að ræða þarf meiri hlutinn að vera í báðum deildum. Og því verður ekki haggað að

þannig stóð á, eftir að hv. þm. Stefán Valgeirsson hafði lýst yfir andstöðu sinni við lögin, að allt útlit var fyrir að þessi lög mundu falla. Það var alveg ljóst frá þeim tíma að meiri hluti var ekki til staðar. Það er alveg út í bláinn að fara að verja sig með þeim hætti, eins og hv. þm. gerði, að þetta væri efni í breytingar á stjórnarskránni á þá leið að breyta Alþingi þannig að Alþingi starfi framvegis í einni málstofu. Gott og vel. Við skulum taka hann á orðinu og segja að við séum tilbúin til þess að láta Alþingi starfa í einni málstofu. En þá spyr ég: Er ekki kominn tími til þess árið 1990 að taka eða a.m.k. takmarka bráðabirgðalöggjafarvald ríkisstjórna? Hefði ekki verið nær fyrir hæstv. ríkisstjórn þegar hún sjálf lendir í þeim ósköpum að þurfa að éta ofan í sig allar fyrri yfirlýsingar og efna til setningar bráðabirgðalaga, eins og hún gerði í sumar, að kalla saman þingið? Auðvitað hefði hún átt að gera það og þá hefðu umræður farið á allt annan veg því að þá hefði verið tryggt að umsagnir hefðu legið fyrir um það hvort þessi bráðabirgðalög stönguðust á við lög, þar á meðal stjórnarskrána, eða ekki.
    Þegar hv. þm. Stefán Valgeirsson lýsti því yfir í síðasta mánuði að hann mundi greiða atkvæði gegn bráðabirgðalögunum varð ljóst að ríkisstjórnin hafði misst tilskilinn meiri hluta til þess að koma frv. í gegnum Nd. án stuðnings eða hjásetu stjórnarandstöðuþingmanna. Það er athyglisvert að þrátt fyrir yfirlýsingu þingflokks sjálfstæðismanna um að greiða atkvæði gegn frv., eins og það liggur fyrir, á grundvelli siðferðis - og lagaraka kaus ríkisstjórnin að ræða ekki við stjórnarandstöðuna um framhald málsins. Í stað þess hótaði hún þingrofi sem hefði fellt bráðabirgðalögin úr gildi og í framhaldi af því átti að setja lögin á nýjan leik. Slíkt tilræði við þingræði og lýðræðisvenjur náði þó ekki fram að ganga þegar einn eindregnasti andstæðingur frv. ákvað að sitja hjá við atkvæðagreiðsluna til að koma í veg fyrir að flokkur hans tæki þátt í að fótum troða leikreglur lýðræðisins ofan í það siðleysi og þau lögbrot sem áður höfðu átt sér stað í þessu máli.
Það er nefnilega athygli vert að lesa og hlusta á rök hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar fyrir því að sitja hjá. Þau rök eru ekki stuðningur við bráðabirgðalögin heldur þvert á móti yfirlýsing um það að hann óttist ekkert frekar en að minnihlutastjórn rjúfi þing og setji lög þrátt fyrir minni hlutann og hunsi þannig þingræðisregluna. Það er þetta sem rekur hv. þm. til þess að standa með stjórninni og sitja hjá.
    Í nál. mínu fjalla ég nokkuð um aðra þætti þjóðarsáttarinnar en þá sem oftast eru til umræðu, einkum um þessar mundir. Það er nefnilega þannig að þjóðarsáttin er ekki einungis það að launamenn hafi tekið á sig 15% kjaraskerðingu til að ríkisstjórnin geti fengið tækifæri til þess að ná árangri í efnahagsmálum. Til viðbótar þarf ríkisstjórnin að sýna að hún sé að ná slíkum árangri. Á bls. 7 í nál. mínu fjalla ég um þessi atriði og þar kemur fram mjög skýrt og ljóst að ríkisstjórnin vinnur gegn þjóðarsáttinni á mörgum sviðum.

    Og nú, virðulegur forseti, kemst ég ekki hjá því að spyrja: Er það virkilega svo að það hafi verið í samkomulagi milli þingflokkanna að framsögumenn í þessu stóra máli ættu að talast við hér einir eða hvort hæstv. ráðherrar hafi tekið að sér að sinna skyldum sínum og vera hér á þingfundi? Sé það svo, virðulegur forseti, að hæstv. ráðherrar hafi haft leyfi og samkomulag hafi verið um það er auðvitað ekkert við því að segja. En sé ekki svo finnst mér að hæstv. forseti eigi a.m.k. að íhuga það hvort ræðumaður eigi ekki að gera hlé á sínu máli og bíða eftir því að hæstv. ráðherrar hafi tíma til að hlýða á þetta mál. Hér er þó verið að fjalla um bráðabirgðalög sem þessi ríkisstjórn setti í sumar. ( Forseti: Vegna þessara orða hv. ræðumanns vill forseti geta þess að hann hefur gert ráðstafanir til þess að hæstv. fjmrh. komi hér í sal. Hæstv. utanrrh. er hér í húsi og var hér í gætt rétt áðan en er nú horfinn á nýjan leik. Mun forseti gera ráðstafanir til þess að hann komi til salar aftur.
    Það samkomulag sem gert var um framgang þessa máls, sem forseti leyfir sér að fullyrða að er eitt veigamesta mál þessa þings, var að hv. frsm. meiri og minni hluta mæltu fyrir nál. hér í dag. Það var ekki rætt um viðveru hæstv. ráðherra í því samkomulagi. Hins vegar var um það rætt að hæstv. forsrh. yrði viðstaddur hér á þriðjudaginn kemur þegar almenn umræða hefst að loknum flutningi manna á nál. sem hér fer fram í dag. Forseti vill hins vegar lýsa þeirri skoðun sinni, eins og hann oft hefur gert, að hv. þingdeildarmenn eigi að fara að ákvæðum þingskapa 34. gr. þar sem segir: ,,Skylt er þingmönnum að sækja alla þingfundi nema nauðsyn banni.`` Þetta er ákaflega einfalt ákvæði og þessari skyldu eiga þingmenn að sinna. Það er engin spurning um það. Forseti mun enn reyna að gera ráðstafanir til þess að fá hæstv. ráðherra til að vera hér í sal við þessa umræðu. Ef hv. 1. þm. Reykv. óskar eftir að gera hlé á ræðu sinni á meðan forseti gerir ráðstafanir til að ráðherra komi, þá er það sjálfsagt.)
    Mér finnst, virðulegur forseti, og ég þakka fyrir skilning sem mér er sýndur, nauðsynlegt að hæstv. fjmrh., sem á í máli fyrir dómstólum út af þessum bráðabirgðalögum, sjái sóma sinn í því að mæta hér. Jafnvel þó hann sé ekki þingmaður þá er hann þingmannsígildi og honum bera sömu skyldur og þeim sem hér sitja á þingi. Ég furða mig satt að segja á því að það sé pressað fram að hér sé verið að mæla fyrir nál. í dag án þess að hæstv. ráðherra sé við. Ég óska eftir því að gert verði hlé á þessum fundi og tel óviðurkvæmilegt annað en hæstv. ráðherra komi hér og hlusti á mál manna. Ég tel að það verði að halda þessari umræðu síðan áfram í dag. Það er ekki hægt að slíta hana svona í sundur með þessum hætti. Ég kýs því að gera hlé á ræðu minni þar til hæstv. ráðherra hefur komið í leitirnar.