Þjónusta Ríkisútvarpsins á Suðurlandi
Mánudaginn 10. desember 1990


     Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson) :
    Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs til að taka undir þá tillögu sem fjórir hv. þm. Suðurl. hafa flutt og fagna þeirri tillögu, mæla með henni, og það geri ég vegna þess að ég held að bæði í þeirri ágætu greinargerð sem tillögunni fylgir og ræðu 1. flm. hafi komið greinlega fram að hér er um þýðingarmikið mál að ræða fyrir þá sem hlut eiga að máli.
    Það kom fram í máli flm. að þrír fjórðungar hafa þegar þá þjónustu sem hér er verið að fara fram á fyrir Sunnlendinga. Í Vestfirðinga - , Norðlendinga - og Austurlandsfjórðungi er þessi þjónusta þegar fyrir hendi.
    Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það að fréttaþjónusta og umfjöllun fjölmiðils, eins og á vegum Ríkisútvarpsins, er mikilvæg fyrir alla sem hlut eiga að máli. Auk þess sem héraðsfréttir fá ákveðið vægi í slíkri stofnun fær fjórðungurinn sem slíkur aukna sjálfsvitund ef svo má segja. Ýmsir möguleikar fylgja framförum á þessu sviði. Mig langar aðeins til að minna á það í þessu sambandi að á Selfossi hefur þetta verið í hug manna alllengi. 1974 -- 1986 unnu menn þar að stórbyggingu við Ölfusárbrú sem er félagsheimili, hótel o.fl. Í þeirri byggingu var þegar frá upphafi gert ráð fyrir aðstöðu fyrir þessa þjónustu sem enn þá er ekki tekin í notkun. Þess vegna er það svo að aðstæðurnar bjóða sig fram. Þetta er allt saman tilbúið ef menn vilja nýta það en um það er einmitt beðið í þessari þáltill., að að því sé unnið. Afstaða bæjarstjórnar Selfoss liggur einnig ákveðið fyrir í þessu efni og ég vænti þess að þingheimur allur veiti tillögunni brautargengi.