Grænar símalínur
Mánudaginn 10. desember 1990


     Flm. (Jón Kristjánsson) :
    Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. sem fyrir liggur á þskj. 200 um grænar símalínur sem ég flyt ásamt hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur og Guðna Ágústssyni. Till. hljóðar svo:
    ,,    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hlutast til um að Stjórnarráð Íslands og helstu ríkisstofnanir semji við Póst - og símamálastofnun um ,,grænar símalínur`` og tryggt verði fjármagn til að standa straum af þeim kostnaði sem af þessum samningum leiðir.``
Í grg. segir svo: ,,Tækniframfarir eru örar í fjarskiptum. Þetta skapar möguleika sem ekki voru áður fyrir hendi, m.a. í gjaldtöku fyrir símtöl. Meðal þeirrar þjónustu sem Póst - og símamálastofnun býður upp á eru svokallaðar grænar símalínur. Það þýðir að símtöl eru greidd af þeim sem hringt er til og sá sem hringir greiðir aðeins samkvæmt staðartaxta.
    Samkvæmt upplýsingum frá Póst - og símamálastofnuninni hafa nokkrar opinberar stofnanir notfært sér þessa þjónustu,`` þ.e. samgrn. og landbrn.
    ,,Hér hagar þannig til að opinberar stofnanir eru að mestu leyti í Reykjavík. Þar er einnig öll æðsta stjórn ríkisins. Mikill kostnaður er því samfara fyrir almenning í landinu að nýta þjónustu og ráðgjöf sem hægt er að fá símleiðis frá hinu opinbera og hið sama gildir um sveitarfélög og fyrirtæki. Það er réttlætismál að kippa þessu í lag og tæknilega er ekkert því til fyrirstöðu lengur, enda hefur Póst - og símamálastofnun þegar gefið út bækling þar sem þessi þjónusta er auglýst.
    Þetta mál væri skref til þess að jafna aðstöðuna í landinu. Segja má að sem sambærilegastur aðgangur að þjónustu hins opinbera heyri til lýðréttinda.
    Fordæmi þess í málinu gæti orðið fyrirtækjum á almennum markaði hvatning til að taka upp þessa þjónustu og þar með yrði gengið enn lengra til jöfnunar að þessu leyti.``
    Eins og segir í grg. yrði samþykkt þessarar till. skref til þess að jafna aðstöðu í landinu. Mjög stór skref hafa verið stigin á undanförnum árum til að jafna símkostnað. Hér gerir tæknin okkur kleift að ganga enn lengra með auðveldum hætti. Meginmunurinn á því sem hér er lagt til og almennri jöfnun símataxta er sá að hér er gert ráð fyrir að stofnanir og fyrirtæki bjóði viðskiptavinum sínum þá þjónustu sem hér um ræðir. Það er ekki í valdi Alþingis að mælast til þessa fyrir aðra en opinbera aðila en fullvíst má telja að ef ríkisvaldið gengi á undan í þessu efni yrði það hvatning fyrir aðra.
    Ljóst er að hér er um nokkurn kostnað að ræða. Benda má á að nokkur reynsla er fyrir hendi í þessu efni þar sem nokkrar opinberar stofnanir hafa tekið þessa þjónustu upp nú þegar þó það hafi ekki verið fyrr en á þessu ári, enda hér um tiltölulega nýtt fyrirbrigði að ræða. Einnig hafa nokkur einkafyrirtæki nýtt sér þessa þjónustu Póst- og símamálastofnunar nú þegar. Þessi þjónusta er vel þekkt erlendis og er sambærileg við þá þjónustu í Bandaríkjunum sem kölluð er 800-þjónustan. Hérlendis sem annars staðar í Evrópu hefur þessi þjónusta fengið nafnið ,,grænar símalínur`` eða ,,grænt númer``.
    Þess má geta að sá sem hringir ber ætíð lágmarkskostnað vegna símtalsins, þ.e. hann greiðir þann staðartaxta sem gildir innan hans svæðis. Þetta þýðir að jafnrétti ríkir í þessum viðskiptum og það er eðlilegt í viðskiptum við opinberar stofnanir sem eiga að þjóna landinu öllu að þær nýti sér það þegar hægt er að koma slíku við með tiltölulega auðveldum hætti. Að öðru leyti en því að auðvitað kostar þessi þjónusta fjármuni.
    Þar sem hér er um útgjaldamál að ræða fyrir ríkissjóð tel ég eðlilegt að hv. fjvn. fái þetta mál til meðferðar og umræðu þannig að ef af samþykkt yrði sé mögulegt að reikna með þessum kostnaði í rekstrarfé viðkomandi ráðuneyta og stofnana. Hins vegar er eðlilegt að Alþingi lýsi vilja sínum í þessu efni. Vona ég að þessi till. fái jákvæð viðbrögð hér á hv. Alþingi. Eins og ég sagði áður, legg ég til að að lokinni þessari umræðu verði till. vísað til hv. fjvn.