Stjórn fiskveiða
Mánudaginn 10. desember 1990


     Skúli Alexandersson :
    Virðulegi forseti. Vera má að ýmislegt sé málum blandið í upplýsingum í þeirri frétt sem birtist í Þjóðviljanum og hér er til umræðu. Mér sýnist það svona fljótt á litið að það sé víðar en á þann veg sem hæstv. ráðherra var að upplýsa, að ekki væri rétt haft eftir veiðieftirlitsmanni. Hér er t.d. sagt í fyrirsögninni: ,,Meðaltalsnýting á botnfisksafla frystitogara er 55%.``
    Ég fékk í hendur yfirlit frá sjútvrn. um það hvað ráðuneytið reiknar nýtingu hjá frystitogurunum. Það er dálítið annað en þetta. Það er t.d. flök, roðflett með beinum 41,5%, flök með roði, beinlaus 40%, flök roðflett og beinlaus 37%, flök með roði og beinum 44,5%. Þannig er útreikningur ráðuneytisins á nýtingu afla sem skipin koma með að landi. Hér virðist því ýmislegt misfarið og kannski á þann veg að menn viti ekki almennilega hvað þeir eru að tala um. Mér sýnist það einmitt eiga við um það sem hæstv. ráðherra sagði hér að nú skal fara að breyta nýtingarútreikningi á frystitogurunum. Hvað höfum við búið við á undanförnum árum? Eitthvað sem hefur verið rangt fyrst núna þarf endilega að fara að breyta. Ætli að það sé ekki allt í lagi með nýtinguna sem hér er áætluð 41,5%. Ég er ekki að segja að hún sé meiri hjá togurunum og jafnvel minni, jafnvel niður í 38 eða 37%, en eðlileg nýting samkvæmt útreikningum þeirra sjálfra er 45%. Þannig er ástandið í kringum þessa grein sem mestur vöxturinn hefur verið í á tímabili núverandi fiskveiðistjórnar. Það er margföldun í
aukningu, sá afli sem sóttur er á þessum skipum.
    Til viðbótar langar mig til að spyrja hæstv. sjútvrh. um það sem hann sagði hér áðan að, það væri Ríkisendurskoðun sem ætti að fylgjast með störfum hans og ráðuneytisins. Er ekki Ríkisendurskoðun undir Alþingi? Og er ekki Alþingi þá yfir þessum stofnunum báðum? Og fær ekki ráðherra sitt vald frá Alþingi og ber ekki ráðherranum, þó að milliliður sé þarna til í einhverjum greinum, að fara fyrst og fremst eftir vilja og óskum Alþingis og alþingismanna?