Öflun gagna um veiðiheimildir smábáta
Mánudaginn 10. desember 1990


     Halldór Blöndal :
    Herra forseti. Ég hef borið fram þá fyrirspurn til forsetavaldsins hvort það vilji ganga í það mál að sjá til þess að þingmenn í sjávarútvegsnefndum, sem telja sig þurfa á því að halda, vilja setja sig inn í málefni smábáta, fái þau gögn í hendur sem trúnaðarmál, skrá yfir þær veiðiheimildir sem sendar hafa verið til einstakra eigenda smábáta.
    Þó svo að forsetar séu kjörnir pólitískri kosningu hér í þinginu og þó svo meiri hlutinn reyni að sjá um það að forsetavaldið sé í höndum meiri hlutans til þess að geta haft stjórn á því hvernig þinghaldið er og þó svo að maður hafi orðið vitni að næsta hæpnum úrskurðum finnst mér óhjákvæmilegt virðingu þingsins vegna að sá sem situr í forsetastóli á hverjum tíma svari því hvort hann vilji verða við erindi þingmanns eða ekki þegar erindið er borið fram með þinglegum hætti.
    Það mál sem ég ber hér upp er forseta kunnugt. Þess vegna hlýtur hann að geta svarað því nú hvort hann vilji verða við beiðninni. Það er úrhendis og óþarfi að við séum að kveðja okkur hljóðs hér á hverjum degi til að fá svar við þessari einföldu spurningu. Ég vil fá svar við því hvort hæstv. forseti vilji ganga í það mál að nefndarmenn í sjútvn. Ed. fái þau skjöl í hendur sem þeir telja sig þurfa að fá sem trúnaðarmál og varða úthlutun á fiskveiðiheimildum til smábáta.
    Það hefur komið fram í ræðu hæstv. sjútvrh. í Sþ. að þingmenn megi fara upp í ráðuneyti og spyrja um einstaka báta, en það hefur líka komið fram að hæstv. sjútvrh. telji óþarfa að þessi gögn komist í hendur nefndarmanna. Ef málið er að öðru leyti ókunnugt forseta get ég reynt að rekja það nánar. Ég get minnt á það að ekki er verið að biðja um einhver leyniplögg. Þessir kvótar hafa verið sendir til útgerðarmanna smábáta víðs vegar um landið, liggja fyrir í bréfum úti um allt land. Álitamálð er hvort þingnefndarmenn í sjútvn. Alþingis megi fá skrá yfir þau bréf sem sjútvrn. hefur sent út um allt land.
    Nú eru auðvitað bréf opinber gögn og það gefur auga leið að við þingmenn getum með þinglegum hætti óskað eftir því að fá þessi gögn í hendur. Það er auðvitað ljóst ef bæði forseti Ed. og forseti Sþ. synja um erindið, að upplýsingarnar munu koma fram með þinglegum hætti nema ríkisstjórnin hlaupi til og rjúfi þing. Hún er alltaf að hóta því að rjúfa þing. Það er annað mál. En þetta er kurteis fyrirspurn. Ég vil aðeins láta þess getið í leiðinni að þessar upplýsingar munu koma fyrir augu manna. Það er óhjákvæmilegt eins og nú er komið. Spurningin er: Vill hæstv. forseti greiða fyrir því eða óskar hann eftir því að upplýsinganna verði aflað með öðrum hætti?