Jarðalög
Mánudaginn 10. desember 1990


     Flm. (Geir H. Haarde ):
    Herra forseti. Umræður um þetta mál eru orðnar nokkuð langar. Ég ég vil þakka öllum þeim sem í þeim hafa tekið þátt fyrir þeirra framlag til þess að ræða þessi mál þó að vissulega hafi mönnum mælst misjafnlega eins og gengur. Einkanlega þóttu mér ræður þeirra þingmanna Framsfl. sem hér hafa talað, núv. og fyrrv., á köflum missa marks í sambandi við þessi mál.
    Reyndar er það svo að það er ekki hönd festandi á mörgum einstökum efnisatriðum í þeirri gagnrýni sem fram hefur komið á frv. Ég fór hér í ítarlegu máli við framsögu, 1. umr. málsins, yfir hverja einustu grein í frv., rökstuddi þær og ræddi. Síðan hafa menn komið hér upp með alls kyns misskilning í þessum umræðum sem gefur auðvitað ekkert annað til kynna en það að þeir hafa ekki kynnt sér frv., ekki lesið greinarnar, eða misskilið þær með öðrum hætti. Sá sem tók hér fyrstur til máls á eftir framsöguræðu minni, hv. þm. Páll Pétursson, til að mynda, misskildi það algjörlega að ætlunin væri með þessu frv. að afnema tilkynningarskyldu til jarðanefnda. Það segir skýrt og skorinort í grg. að eftir sem áður verði skylda að tilkynna um viðskipti með jarðir til jarðanefnda. Það verður bara ekki skylda að leita samþykkis jarðanefnda.
    Hv. þm. Pálmi Jónsson hafði reyndar misskilið það svo að jarðanefndir ætti að leggja niður samkvæmt frv. Það er auðvitað ekki tilfellið.
    Hv. þm. Friðjón Þórðarson lét þess getið að öðruvísi væri nú um að litast í sveitum landsins ef ekki hefðu verið jarðalög. Það má vel vera að svo væri. En ég efast um að sú mynd sem þar blasti við væri eitthvað lakari en sú sem við höfum nú fyrir framan okkur.
    Það sem mér finnst efnislega standa út úr og sú gagnrýni sem ástæða er til þess að fjalla um er spurningin um forkaupsrétt sveitarfélaga. Tveir þingmenn hafa fjallað um það með málefnalegum hætti í þessari umræðu að mínum dómi, hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir og Pálmi Jónsson, sem hafa að vísu aðra skoðun á því máli en ég. Ég vil jafnframt þakka forseta deildarinnar, hv. þm. Árna Gunnarssyni, fyrir undirtektir hans við það ákvæði sem snertir rétt manna til þess að ráðstafa jörðum með erfðaskrá, eða réttara sagt rétt erfingja til þess að erfa jarðir. Eins og kunnugt er eru þau ákvæði með þeim eindæmum í núverandi jarðalögum að fjarskyldir erfingjar geta ekki erft jarðir nema hreppsnefnd leyfi það og menn geta ekki ráðstafað jörðum sínum til að mynda til líknarmála nema hreppsnefndin leyfi það. Þetta tel ég óeðlilega íhlutun í yfirráðarétt manna yfir eignum sínum.
    Hins vegar, að því er varðar forkaupsrétt á landi, hafa komið hér fram nokkrar athugasemdir við það mál og nefnd hafa verið dæmi, sérstaklega úr sveitarfélaginu Kópavogi, þar sem Kópavogur hefur nýtt sér forkaupsrétt. En mér finnst sú umræða sem upp var vakin um það mál til hliðar við kjarna málsins. Lögsagnarmörkum milli sveitarfélaga verður ekkert

breytt nema með lögum. Það breytir engu um forræði þess sveitarfélags sem ræður yfir lögsögu á viðkomandi svæði, hvort það er einstaklingur eða annað sveitarfélag sem er eigandi tiltekins landsvæðis. Það eru mörg dæmi um það í nágrenni Reykjavíkur að eignarhlutar sveitarfélaga skarist. Reykjavíkurborg á jarðir á Kjalarnesi og í Mosfellssveit án þess að nokkur dragi í efa hver fari þar með lögsögu eða ráði yfir skipulagi á landinu sem þar um ræðir. Ég held að hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir, 9. þm. Reykn., hafi gert of mikið úr því vandamáli, sem hún rakti fyrir okkur í ræðu sinni og snertir þau vandkvæði sem hún taldi að gætu hafa orðið, ef Reykjavíkurborg hefði eignast landskika eða jarðir innan lögsagnarumdæmis Kópavogs. Auðvitað hefði Kópavogskaupstaður eftir sem áður haft fullt vald til þess að ráðstafa þar skipulagi og auðvitað má gera sér í hugarlund að ef almenningsþörf hefði krafið þá hefði Kópavogskaupstaður getað farið fram á eignarnám, ef brýnir hagsmunir hefðu við legið.
    Ég þekki ekki þau dæmi nákvæmlega sem hv. þm. rakti, þessar þrjár jarðir, en mér er mjög til efs að það hafi nokkru breytt í þessum málum hvort Kópavogskaupstaður hafði forkaupsrétt eða ekki. Mér finnst frekar líklegt að aðili sem hefði hugsað sér að kaupa slíkar jarðir hefði boðið í þær eitthvað lægra verð en ella vegna þess að hann gat vitað að hann fengi ekki jörðina vegna ákvæða um forkaupsrétt. En mér finnst reyndar óeðlilegt að ræða þessi mál út frá einstökum dæmum, einstökum jörðum, eða jafnvel einstökum guðsmönnum vestur á fjörðum eins og hv. þm. Ólafur Þórðarson gerði síðast þegar þetta mál var á dagskrá. Hér er um að ræða almenn atriði sem skipta grundvallarmáli.
    Reyndar er það nú svo að lögin taka til lands utan skipulagðra þéttbýlissvæða. Ég efast um að í framtíðinni verði mikið um slíkar jarðir á höfuðborgarsvæðinu sem kaupstaðir á þessu svæði geti deilt um, land utan skipulagðra þéttbýlissvæða. Mér finnst þetta því ekki koma að kjarna þessa máls sem er spurningin um yfirráðarétt manna yfir sínum eignum, í þessu tilfelli yfir sínum jörðum.
    Útúrsnúninga hv. þm. Ólafs Þórðarsonar læt ég mér í léttu rúmi liggja um að það sé sambærilegt ef Reykjavíkurborg lætur fjarlægja bíla af götum borgarinnar, þar sem þeir kunna að vera fyrir, og flytja þá inn í eitthvert port þangað sem menn geta síðan komið og sótt bíla sína. Það er auðvitað annað mál og kemur þessu nákvæmlega ekkert við.
    Nei, virðulegi forseti. Spurningin hér er um það hvort eðlilegt sé að setja jafnþröngar skorður við ráðstöfun manna á jörðum og nú eru í lögum. Ég tel það ekki eðlilegt. Ég tel að það sé ekki eðlilegt að menn þurfi að leita samþykkis sveitarstjórnar eða jarðanefndar fyrir því að geta selt jarðir sínar. Ekkert frekar en það er eðlilegt í þéttbýli að menn sæki um slíkar heimildir til yfirvalda eða húsfélaga. Og svo aftur hitt að ég tel ekki eðlilegt að sveitarfélögin geti gengið inn í fyrirhuguð viðskipti og keypt upp á grundvelli forkaupsréttar. Hins vegar eru þetta tvö aðskilin

mál eins og ég gat um hér í framsögu. Það er hugsanlegt að gera aðra breytinguna á lögunum án þess að gera hina. Reyndar er hugsanlegt að gera þarna nokkrar breytingar sem eru óskyldar þessum, eins og að því er varðar erfðaréttindi og möguleika á að skipta jörðum og fleira í þeim dúr sem fram kemur í þessu frv.
    Aðalatriðið er hins vegar að þetta frv. fái faglega umfjöllun hér í þinginu. Það er ekki rétt sem hv. þm. Stefán Valgeirsson segir að þetta frv. sé gamall kunningi og hafi verið margrætt hér á þingi. Þetta frv. hefur ekki verið flutt áður í þessari mynd þó að efnisatriði þess hafi að sjálfsögðu verið til umræðu hér á sínum tíma, eðlilega. Það er rétt hjá hv. þm. og ég er reyndar með í fórum mínum framsöguræðu hans þegar hann sem formaður landbn. mælti fyrir áliti nefndarinnar hinn 18. maí 1976 og lagði til að frv. yrði samþykkt, að vísu eftir mjög litla umfjöllun í landbn. á þeim tíma, hvað sem kann að hafa verið á fyrri þingum. Um þetta mál urðu hér miklar deilur á sínum tíma en að vísu fékk deildin ekki langan tíma til að afgreiða málið. Það er rétt munað hjá hv. þm. að þá áttust þau við, hann og hv. núv. 3. þm. Reykv., Ragnhildur Helgadóttir, sem einnig hefur blandað sér í umræðuna á þessu stigi.
    Ég hygg að flestum sé kunnugt um ýmis dæmi um ágreining sem orðið hefur vegna þessara laga, þegar komið hefur til ráðstöfunar á bújörðum, þegar einstaklingar hafa viljað selja eða kaupa jarðir eða stéttarfélög eða aðrir slíkir hafa viljað koma sér upp aðstöðu á bújörðum. Ég tel þessi ákvæði hamla gegn því að bændur og aðrir sem eiga jarðir fái fyrir þær sannvirði. Það er þess vegna spurning hverjum menn eru að þjóna með því að vilja halda í þessi ákvæði. Sannleikurinn er auðvitað sá að ákvæði um hömlur á ráðstöfunarrétti eigna bitna auðvitað á þeim sem eiga þær eignir. Í þessu tilfelli eru það nú væntanlega mest bændur sem eiga þær jarðir sem þessi lög ná til. Og án þess að ég vilji taka mér slík orð í munn þá hafa menn talað um það að það séu ákveðnir fjötrar sem þessi lög fela í sér gagnvart því að menn geti komið jörðum sínum í verð og hugsanlega brugðið búi eða flust burtu ef hugur þeirra stendur til þess.
    Ég sé það nú á hv. 6. þm. Norðurl. v. að ég fæ engu tauti við hann komið í þessu máli en ekki hafði ég heldur reiknað með hans stuðningi við þetta frv.
    Þá er spurningin um til hvaða þingnefndar þetta mál á að fara. Ég reifaði það nokkuð í minni framsögu vegna þess að ég geri mér alveg grein fyrir að ýmsum kann að þykja það eðlilegt, og við fyrstu sýn kann að þykja eðlilegt, að þessu máli verði vísað til landbn. þar sem það var á sínum tíma, eins og hv. síðasti ræðumaður gat réttilega um. En að mínum dómi er hér ekki um að ræða efnisatriði sem varða sérstaklega atvinnuveginn landbúnað. Hér er um að ræða ákveðin lögfræðileg prinsippatriði um forkaupsrétt, um ráðstöfunarrétt yfir eigum manna og fleira í þeim dúr sem ég tel að eigi frekar heima í þeirri þingnefnd sem almennt fjallar um slík mál, hv. allshn. Nú vill að vísu svo til að í þeirri nefnd sitja margir ágætir kunnáttumenn um íslenskan landbúnað, m.a.

ýmsir sem hafa talað gegn frv. þannig að
ég efast ekkert um að hv. þm. Stefán Valgeirsson á samherja í andstöðu sinni gegn frv. í hv. allshn. Mér finnst það hins vegar ekki vera aðalatriðið heldur það að þessu máli sé vísað til nefndar sem fjallar um lögfræðileg prinsippmál í deildinni en ekki nefndar sem fjallar um málefni atvinnuvegarins landbúnaðar. Á því vil ég gera greinarmun í þessu tilfelli og treysti því að deildin fallist á það þó að ég treysti í sjálfu sér báðum nefndunum og þeim þingmönnum sem þar sitja til að fjalla vel og málefnalega um frv. Deildin mun væntanlega skera úr um það ef svo fer fram sem horfir og mun ég að sjálfsögðu una við þann úrskurð. En aðalatriðið er það að þetta frv. fái efnislega og vandaða meðferð vegna þess að það er enginn vafi á því að hér er um að ræða ákvæði í lögum sem hafa orðið mörgum manninum til trafala og sem eiga engan rétt á sér að dómi okkar flutningsmanna.