Húsnæðisstofnun ríkisins
Þriðjudaginn 11. desember 1990


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð. Ég þakka fyrir undirtektirnar sem frv. hefur fengið. Í annan stað var beindi til mín spurningu hv. 18. þm. Reykv. Spurningin laut að því hvort gera ætti einhverjar ráðstafanir varðandi þá hópa sem ekki komast inn í félagslega íbúðakerfið af því að þeir eru yfir tekjumörkunum og hafa að öðrum kosti ekki aðstöðu til að eignast íbúð gegnum almenna lánakerfið eða húsbréfakerfið.
     Af því tilefni vil ég segja að því hefur nokkuð verið haldið fram að með tilkomu húsbréfakerfisins væru ákveðnir tekjuhópar sem lentu á milli og gætu hvorki eignast íbúð í húsbréfakerfinu né gegnum félagslega íbúðakerfið. Í þeim athugunum sem fram hafa farið hjá Húsnæðisstofnun um þá hópa sem hafa nýtt sér húsbréfakerfið er það mat Húsnæðisstofnunar að hér sé um að ræða svipaða tekjuhópa og nýttu sér almenna lánakerfið frá 1986.
    Það má segja líka að með þeim breytingum sem voru gerðar sl. vor á félagslega íbúðakerfinu voru tekjumörkin eða tekjuviðmiðunin hækkuð töluvert hjá fólki sem hefur aðgang að félagslega íbúðakerfinu. Mig minnir að hjá hjónum hafi tekjuviðmiðunin verið hækkuð um 25%. Þannig að með því var opnað fyrir að fleiri gætu átt aðgang að félagslega íbúðakerfinu.
    Í annan stað vil ég segja að frv. sem er nú til meðferðar í hv. deild og var afgreitt frá félmn. mun enn rýmka það að fólk geti komið sér þaki yfir höfuðið með aðgangi að húsbréfakerfinu þar sem fyrir liggur brtt. um að skipta megi fasteignaveðlánum fyrir húsbréf fyrir fjárhæð sem nemur allt að 75% í stað 65% sem var áður. Þetta tvennt, þ.e. hækkuð tekjumörk eða tekjuviðmiðun í félagslega íbúðakerfinu ásamt því frv. sem liggur fyrir hv. deild, tel ég að muni stuðla að því, sem hv. þm. nefndi, að auðvelda fólki gegnum þessi tvö kerfi að koma sér þaki yfir höfuðið.