Öflun gagna um veiðiheimildir smábáta
Þriðjudaginn 11. desember 1990


     Halldór Blöndal :
    Herra forseti. Fimm þingmenn í sjútvn. Ed. hafa í dag ritað hæstv. forseta Ed. svohljóðandi bréf:
    ,,Við undirritaðir alþingismenn, sem sæti eigum í sjútvn. Ed., beinum því til hæstv. forseta að hann sjái til þess að við fáum í hendur sem trúnaðarmál lista yfir þá eigendur og útgerðarmenn smábáta sem fengið hafa bréf frá sjútvrn. um áætlaðan fiskveiðikvóta þeirra og hversu mikið kemur í hlut hvers og eins samkvæmt þeim bréfum sem send hafa verið.``
    Undir bréfið rita: Halldór Blöndal, Skúli Alexandersson, Danfríður Skarphéðinsdóttir, Karvel Pálmason og Guðmundur H. Garðarsson.
    Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að hafa þessi orð fleiri. Með bréfi þessu viljum við ítreka þá alvöru sem er á bak við þá beiðni okkar að sjútvrh. láti okkur í té þær upplýsingar sem við teljum okkur nauðsynlegar til þess að við getum gegnt störfum okkar í sjútvn. Ed.