Launamál
Þriðjudaginn 11. desember 1990


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson) :
    Herra forseti. Ég hafði satt að segja ekki hugsað mér að hafa mörg orð í þessari umræðu um málið. Það hefur verið mikið rætt og má segja að það hafi verið af tillitssemi við hv. sjálfstæðismenn að ég hugsaði mér að tala stutt. En eftir ræðu hv. þm. Þorsteins Pálssonar hlýt ég að fara nokkrum orðum fleirum um málið heldur en ég hafði ætlað mér.
    Hv. þm. talaði um upphlaup, makalaust upphlaup. Ég satt að segja veit ekki hvar hv. þm. hefur verið og hvaðan hann kemur, úr myrkviðnum virðist vera. Ef um upphlaup hefur verið að ræða, þá er það upphlaup sem formaður og varaformaður Sjálfstfl. stofnuðu til eins og alþjóð að sjálfsögðu veit.
    Hv. þm. talaði um það að aðgreina yrði bráðabirgðalögin og efnahagsmálin. Menn geta að sjálfsögðu deilt um þann kjarasamning sem gerður var við BHMR og menn geta jafnvel deilt um meðferð málsins áður en kom að setningu bráðabirgðalaga. Ég tel mig að vísu hafa fært rök fyrir því að sú meðferð hafi á allan máta verið eðlileg og skal ekki endurtaka mikið um það. Ég held hins vegar að það verði alls ekki um það deilt að bráðabirgðalögin og svonefnd þjóðarsátt eða efnahagsmálin eru óaðskiljanleg eins og komið er. Nægir þar að vitna til ummæla fjölmargra aðila vinnumarkaðarins, t.d. forustumanna VSÍ og VMS, forustumanna ASÍ og fleiri gæti ég til talið. Um þetta verður alls ekki deilt.
    Menn hefur greint hér á um álit Seðlabanka og álit Þjóðhagsstofnunar. Ég veit ekki hvort ástæða er til að eyða mörgum orðum um það. Það er alveg ljóst að þessi álit eru byggð á nokkuð mismunandi forsendum. Segja má að Þjóðhagsstofnun, þótt hún taki skýrt fram að mjög margt sé óljóst, reikni dæmið eins og kjarasamningar hefðu áfram verið í gildi. Ef eitthvað má segja jákvætt um álit Seðlabankans þá er það helst það að þar virðist reiknað með því að kjarasamningum yrði sagt upp. Menn geta vitanlega deilt um það hvort ástandið er betra, engir kjarasamningar og vinnudeilur, sem þá hefðu eflaust fylgt í kjölfarið og vitanlega miklir erfiðleikar að ná nýjum kjarasamningum eftir þá launahækkun sem þó hefði orðið, eða einhver víxlverkun launa og verðlags eins og tekið er fram í spá Þjóðhagsstofnunar. ( Gripið fram í: Og gengis.) Og gengis, að sjálfsögðu.
    Ég vil að vísu taka það fram að ég tel langlíklegast að kjarasamningum hefði verið sagt upp, en þá hefði líka orðið hér fullkomin óvissa í efnahagsmálum. Bráðabirgðalögin og efnahagsmálin verða því alls ekki aðskilin. Annað er hrein vitleysa.
    Af því að hv. þm. talaði um peningamagn í umferð og skýrslu Seðlabankans, þá verð ég að viðurkenna að það kemur mér mjög á óvart að þar skuli vera talið vera um svikalogn að ræða. Ég náði mér aftur í skýrsluna og var að reyna að fletta henni í gegn og finna þá kafla sem um þetta svikalogn fjalla. Þvert á móti segir t.d. um peningamagn í umferð ( ÞP: Á bls. 9.) Já, bls. 10, segir hv. þm. ( ÞP: Á bls. 9.) Á bls. 10, segir hv. þm. Ég bið hv. þm. að fletta þar

upp, neðarlega á bls. 10 þar sem segir að þróun peningamála hafi verið jákvæð og þar sem segir á næstu blaðsíðu á eftir að staða bankanna hafi að þessu leyti batnað um 4,5 milljarða kr. Ég gæti einnig vakið athygli hv. þm. á skýrslu sérfræðinga Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem nýlega hafa skilað skýrslu sem er áreiðanlega sú langsamlega jákvæðasta sem skilað hefur verið um þróun íslenskra efnahagsmála. Reyndar er ekki nema ein aðfinnsla sem kemur fram í skýrslu sérfræðinga Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og hún er sú að styrkja þurfi Seðlabankann til að hafa áhrif, m.a. á vexti í þjóðfélaginu, sem eru orðnir of háir á ný.
    Og af því að hv. þm. spurði um það hvaða áhrif aukið peningamagn í umferð núna allra síðustu vikurnar hefur haft, þá er það rétt að það hefur haft þau áhrif að vextir hafa hækkað. Vextir hér á landi eru nú samkvæmt skýrslu Seðlabankans orðnir þeir hæstu sem finnast í heiminum, þ.e. þeir sömu og eru á Norðurlöndum á sama tíma og t.d. vextir í Evrópu eru að meðaltali um 7,2% og vextir í Bandaríkjunum samkvæmt skýrslu Seðlabankans 3,2%. Vitanlega er það mikið hættumál. Hins vegar kemur mjög skýrt fram, bæði í skýrslu Seðlabankans og í skýrslu sérfræðinganna, sú jákvæða þróun sem hér hefur orðið, að fjármagna halla ríkissjóðs að öllu leyti innan lands. Og það er í fyrsta sinn sem það hefur gerst. (Gripið fram í.) Að sjálfsögðu er mér fullkomlega ljóst að fjármögnun á halla ríkissjóðs innan lands hefur leitt til þess að vextir hafa þrýst upp og menn hafa vitanlega orðið að vega og meta þau áhrif gegn hinum sem lántaka erlendis mundi hafa til þensluaukningar innan lands. Þetta hefur að sjálfsögðu verið vandlega skoðað.
    Ég vil segja það fyrir mitt leyti að ég tel núna áhyggjuefni að vextir hafa hækkað. Það er vitanlega margt sem hefur stuðlað að því. M.a. hafa mjög mikil hlutafjárkaup stuðlað að hækkun vaxta, þ.e. meiri eftirspurn eftir fjármagni úr bönkum og því hækkun vaxta. --- Ja, hv. bankaráðsmaður hristir hausinn. En þetta er ein af þeim skýringum sem hafa komið fram hjá þeim mönnum sem um þetta hafa fjallað, m.a. bankastjórum Seðlabankans. Því var m.a. haldið fram á nýlegri spástefnu að þar sem þessi eftirspurn muni minnka, þá muni vextir fara lækkandi. Og eitt af því sem kom jákvætt fram á þessari svokölluðu spástefnu var þó það að raunvextir mundu fara lækkandi hér upp úr áramótunum. ( Gripið fram í: Fyrirtækin hefðu annars þurft að fá peningana að láni. Skilja menn þetta ekki?) Jú, jú, ljóst er það að þau kynnu að hafa þurft að fá þá að láni, annaðhvort innan lands eða erlendis. Mörg fyrirtæki taka lán erlendis til síns reksturs en í hlutafjárkaupin hefur fjármagnið komið innan lands. Ég er að bera hér fyrir mig þá lærðu hagfræðinga sem hv. þm. hafa keppst hér við að vísa í.
    Svo að ég komi nú aftur að þessu með bráðabirgðalögin og þjóðarsáttina
þótti mér satt að segja mjög stangast á í ræðu hv. þm. Þorsteins Pálssonar, annars vegar það sem hann vildi kalla stuðning við þjóðarsáttina og hins vegar andstöðu við bráðabirgðalögin sem, eins og ég hef sagt

og öll rök hníga að, eru í raun óaðskiljanleg.
    Ég hef vitanlega reynt að finna einhverja vitræna skýringu á þessu upphlaupi hv. sjálfstæðismanna. Kannski var hana að finna í nokkrum af þeim orðum sem hv. þm. Þorsteinn Pálsson lét hér falla áðan þegar hann velti vöngum yfir því að að sjálfsögðu væri þjóðarsátt andstæð markaðshyggjunni. Eða eins og t.d. ritstjórinn Ellert Schram sýnir fram á í einni af sínum helgargreinum, þá er hún vitanlega andstæð frjálshyggjunni. Og það er hárrétt sem hv. þm. sagði hér áðan að virtur prófessor eins og Guðmundur Magnússon sýnir fram á það að þjóðarsáttin er andstæð frjálshyggjunni.
    Nýlega kom fram hjá varaformanni Sjálfstfl. að þjóðarsáttin væri gervilausn. Það kom fram í sjónvarpsviðtali sem við áttum og kom í kjölfar þessarar niðurstöðu prófessors Guðmundar Magnússonar. Ég skil það mætavel að frjálshyggjumönnum innan Sjálfstfl. sé það mikið kappsmál að ryðja burtu svona þröskuldi fyrir frjálshyggjunni. En það er þá miklu betra að koma fram og segja það sem verið er að ýja að hér, eins og í ræðu hv. þm. áðan, að þjóðarsáttin geti ekki gengið upp til lengdar, hún byggi upp alls konar stíflur o.s.frv. og hún sé andstæð blessaðri frjálshyggjunni sem er, eins og ritstjórinn Ellert Schram lýsir, að öllum fyrirtækjum og einstaklingum eigi að vera frjálst að gera allt það sem þeir æskja.
    Þessi ríkisstjórn er annarrar skoðunar. Þessi ríkisstjórn telur heillavænlegra að leita samkomulags við aðila vinnumarkaðarins í því skyni að hafa áhrif á þróun efnahagsmála. Ég vek athygli á því að í þessari þjóðarsátt sem nú er hafa engar bremsur í raun verið settar á verðlag. Dagsbrún hefur haft verðlagseftirlit og varað menn við, vonandi er það heimilt, hefur varað menn við að versla þar sem hækkað hefur mest. Ég tel það vera afar jákvætt. En mér er ekki kunnugt um að Verðlagsstofnun hafi sem slík sett á verðlagsstöðvun, hún hefur ekki gert það. Það hefur verið haldið uppi stöðugum áróðri, getum við kallað það, gegn verðhækkunum. Þannig hefur mikill árangur náðst og sérstaklega eiga sumir aðilar, sem með frjálsum samningum hafa stuðlað að þjóðarsáttinni, eins og fyrst og fremst bændur, miklar þakkir skildar. Landbúnaðarvöruverð hér á landi á tíma þjóðarsáttarinnar hefur hækkað langsamlega minnst af öllu vöruverði eða um 2%. Ekki er það gert með einhverri skipun ofan frá. Það er gert með samningum bænda og aðila vinnumarkaðarins. Stjórnvöld hafa hins vegar leitast við að stuðla að því að þeir samningar gætu staðist. Ég vona að þó þetta sé andstætt frjálshyggjunni geti þetta ekki talist slæmur kostur. Ef þetta er skýringin sem virðist ýjað að hjá mörgum sem þekkja vel innviði Sjálfstfl. þá væri miklu betra að fá hana hreint hér fram svo menn viti við hvaða draug þeir eru að glíma.
    Það kom fram hjá hv. þm. Friðriki Sophussyni að það hafi staðið til hjá ríkisstjórninni að setja á ný lög á BHMR, sömu lög sagði hann, en bætti svo við, eða ný lög með sama innihaldi. Þetta er, vil ég strax leiðrétta, mikill misskilningur. Hugmyndin var sú ef komið hefði til þingrofs að setja almenn launa- og verðstöðvunarlög sem giltu í þrjá mánuði þannig að nýtt þing gæti fjallað um efnahagsmálin í heild sinni og ákveðið hvort það vildi þjóðarsátt eða ekki. Þetta var sú hugmynd sem ég vann að. Sem betur fer kom ekki til þess að til hennar þyrfti að grípa því ég er ekki því hlynntur að þing sé rofið nema mjög brýna nauðsyn beri til. Ég er ekki sömu skoðunar og forsætisráðherra Dana að það beri að gera hvenær sem ríkisstjórn kann að henta.
    Rætt hefur verið um það að kalla hefði átt saman þing. Það er hárrétt, það kom vel til greina og ég hafði það mjög í huga. Hins vegar var allan júlímánuð leitað eftir samkomulagi við BHMR eftir ýmsum leiðum. Það tók hreint út sagt allt of langan tíma og það var komið fram í byrjun ágúst og komið að þeim dögum að vinnuveitendur hugðust hefja útborgun til sinna viðsemjenda. Því var afar brýnt að stöðva þá víxlverkun strax. Það hefði verið miklu erfiðara að stíga skrefið til baka ef 4,5% hækkun hefði verið komin yfir allan vinnumarkaðinn.
    Ég hef aðeins áður minnst á þær spár sem hv. þm. Friðrik Sophusson minntist nokkuð á og spurði hvort það tíðkaðist að biðja Seðlabankann um nýjar spár. Ég veit ekki hvað hv. þm. var að meina. Í mörgum tilfellum hef ég rætt við bankastjóra Seðlabankans og beðið um skýringar á því sem þeir láta frá sér fara. T.d. hringdi ég, ég átti ekki heimangengt þessa daga, í bankastjóra Seðlabankans og spurði við hvað væri átt þegar segir í áliti Seðlabankans að álykta megi að samþykkt vinnuveitenda um samsvarandi launahækkun væri gerð til að setja þrýsting á stjórnvöld til að viðhalda bráðabirgðalögunum. Ég skal viðurkenna að ég fékk engin svör. Enda var þessi samþykkt gerð áður en bráðabirgðalögin voru sett í fyrsta lagi, og furðuleg staðhæfing að ætla vinnuveitendum að gera slíka samþykkt, svo ég noti nú orð varaformanns Sjálfstfl., ,,einhverja gervisamþykkt``. Ég er sannfærður um það að þeir meintu það sem þeir samþykktu eins og þeir hafa hvað eftir annað staðfest. Ég hringdi því til að leita slíkra skýringa og vitanlega hefur það oft verið gert. Seðlabankastjóri tjáði mér að hann hefði margar athugasemdir sjálfur að gera við þetta álit og mundi koma því til skila, sem hann svo gerði.
    Hv. þm. spurði hvort aðrir aðilar sem eru með lausa samninga megi semja sig frá þjóðarsáttinni. Að sjálfsögðu er slíkum aðilum frjálst að gera þá kjarasamninga sem þeir ná, en mjög rík samstaða er í þjóðfélaginu, bæði hjá vinnuveitendum og sem betur fer hjá launþegum, að gera kjarasamninga sem eru innan þjóðarsáttarinnar. Allir þeir kjarasamningar sem síðan hafa verið gerðir hafa verið innan þjóðarsáttarinnar. Ég veit ekki um neina tilraun eða a.m.k. neinn vilja hjá vinnuveitendum til að gera kjarasamninga sem ganga lengra en þjóðarsáttin og ríkisvaldið mun ekki gera kjarasamninga sem ganga lengra.
    Hv. þm. spurði um álit lögfræðinga. Að sjálfsögðu var álits lögfræðinga leitað, margra lögfræðinga áður en bráðabirgðalögin voru sett. Og af því að nafn Eiríks Tómassonar var nefnt þá staðfesti ég að hann var

einn af þeim og kemur satt að segja undarlega fyrir eyru ef hann hefur sagt annað á þeim fundi sem minnst var á. Ég þekki hann ekki að því sem hér var vísað til, ég hef ekki fylgst með því. Hann mætti meira að segja á fund ríkisstjórnarinnar ásamt fleiri lögfræðingum svo það eru margir til vitnis um það sem þar fór fram. Álita var leitað, ekki síst á fundum með fjölmörgum lögfræðingum, sem síðan voru dregin saman af mínum aðstoðarmanni, sem er lögfræðingur, sem annaðist milligöngu um að leita álits þessara lögfræðinga. Bráðabirgðalögin voru að sjálfsögðu byggð á þeirri niðurstöðu sem út úr þeim fundum og álitsgerðum kom. ( FrS: En á tímabilinu 1. febr. til 1. júlí?) 1. febr. til 1. júlí? Að sjálfsögðu voru lögfræðingar með í þeirri meðferð allri, einkum þeir lögfræðingar sem eru jafnt og þétt og stöðugt í kjarasamningunum. Þeir voru þar að sjálfsögðu til kvaddir. En ég vil taka það fram af því sérstaklega var nefnt nafn Eiríks Tómassonar hér að hann var kallaður inn í júlímánuði ásamt ýmsum fleiri lögfræðingum.
    Ég veit ekki hvort ástæða er til að svara hér meiru. Hvað tekur við þegar þjóðarsátt er lokið? Ég vona ekki frjálshyggjan. Ég vona að takist að ná samkomulagi við aðila vinnumarkaðarins um að hafa stjórn á okkar efnahagsmálum, svipaða stjórn og verið hefur, án verðstöðvunar og með stórauknu frjálsræði á fjölmörgum sviðum, m.a. í fjármagnsflutningum milli Íslands og útlanda sem er verið að stuðla að, m.a. væntanlega í meira frelsi til erlendra fjárfestinga hér á landi o.s.frv. M.a. með aðlögun okkar peningamarkaðar að því sem er erlendis, m.a. með einhverju skrefi í þá átt að afnema lánskjaravísitöluna, af því að ég veit að hún er hv. þm. mjög hugleikin, og fleira gæti ég þannig upp talið.
    Aðeins að lokum. Hv. þm. Þorsteinn Pálsson spurði hvort hækka ætti skatta. Það á alls ekki að hækka skatta. Sköttum verður haldið í sama hundraðshluta af þjóðartekjum og er á þessu ári, þ.e. um 27%. Hins vegar vona ég að samkomulag geti náðst um breytingar á okkar skattkerfi, m.a. að losa okkur í áföngum út úr aðstöðugjaldinu. Ég geri ekki ráð fyrir því að þingmenn muni það að ég hef hér hvað eftir annað nefnt að aðstöðugjaldið er að mínu mati mjög óréttmætur skattur. Ég vona að nú þegar verið er að vinna að því að samræma íslensk skattalög því sem er í Evrópu þá losi menn sig út úr aðstöðugjaldinu.