Launamál
Þriðjudaginn 11. desember 1990


     Stefán Valgeirsson :
    Herra forseti. Síðasti hv. ræðumaður gat þess að hann vildi stuðla að því að þegar um breytingar á stjórnarskrá væri að ræða yrði það lagt fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég lagði einmitt fram frv. um slíka breytingu sem liggur fyrir en ég hef ekki orðið var við að nefnd hafi gengið frá því máli. Ég vonast til þess að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson standi með mér í því að reyna að ná fram þessari breytingu.
    Ég hef verið á móti því að afnema heimild til ríkisstjórnar til þess að gefa út bráðabirgðalög. En nú er ég kominn á allt aðra skoðun. Eftir þá reynslu sem við höfum nú get ég ekki séð annað en að það verði blátt áfram að grípa til þess að breyta þessu ákvæði þannig að ekki geti endurtekið sig það sem hér hefur gerst.
    Ég held að það sé best fyrir alla, bæði mig og aðra, að ég tali hér af fullkominni hreinskilni. Ég vona að hæstv. forsrh. heyri mál mitt. Þegar þessi ríkisstjórn, eða fyrri ríkisstjórn sem þeir vilja vera láta forsrh. og ráðherrar hans, var mynduð vil ég minna á það að ekki var hægt að mynda þá ríkisstjórn öðruvísi en að ég styddi hana. Ég setti fram ákveðin skilyrði fyrir þátttöku minni í þeirri ríkisstjórn. Ég setti t.d. það skilyrði að unnið yrði að því að jafna orkuverð í landinu. Hæstv. iðnrh. hefur að vísu skipað nefnd til að vinna í því máli. En það var gert svo seint að það er auðséð að ekki var stefnt að því að standa við það mál.
En svo stendur mál að Landsvirkjun hefur sína taxta þannig að hún ætlast til að það sé búið að borga allar þær skuldir sem á henni hvíla nú í árslok 2004. Með öðrum orðum: Mönnum er mismunað í þjóðfélaginu til þess að þeir sem eiga Landsvirkjun eignist hana á þessum tíma. Ég verð að segja það að ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum með það að fulltrúar Sjálfstfl. í þessari nefnd eru ekki á þeim buxunum að jafna orkukostnaðinn, þ.e. að það komi á Landsvirkjun, að því sé breytt.
    Ég lagði mjög mikla áherslu á það og mínir félagar að vextir yrðu lækkaðir. Við lögðum til að þeir færu niður í 5% en það var sæst á það að miðað væri við 6%. Hvernig er þessu nú varið? Hvernig er því varið?
    Í Tímanum, blaði hæstv. forsrh., kemur það fram að raunvextir á óverðtryggðum lánum séu 8,6%, þetta er í blaði hæstv. forsrh., Tímanum, 6. des. sl., og á verðtryggðum lánum 8,2%. En ég vil draga í efa að þessar tölur séu raunhæfar eins og þetta er framkvæmt.
    Í þessu sambandi vil ég segja frá því að það hefur verið haft samband við mig út af okkar stefnu í þessum málum. Þeir sem hafa orðið að skuldbreyta, það hefur komið fyrir að þeir hafi þurft að borga 10,5%.
    Það er dálítið merkilegt að það er morgunauki sem er fluttur á morgnana eftir átta - fréttir, nokkurs konar fréttaauki frá útlöndum. Ef ég man rétt er það kallað viðskiptavaki. Og þriðjudaginn 3. des. er það Bjarni

Sigtryggsson sem segir frá því að raunvextir hér á landi séu 7,2 eða 7,3% og vill halda því fram að þeir séu lægri en annars staðar. Nú vill svo til að þegar ég var erlendis bárust mér í hendur frá Bretlandi tölur um það hvernig þróunin hefur verið þar í landi, hjá járnfrúnni, sl. þrjú ár, 1987 -- 1990. Í fyrsta lagi er það atvinnuleysið. Atvinnuleysið 1987 var 10,6% en er núna 5,9%. Verðbólgan 1987 var 4,2% en er núna 10,9%. Hagvöxturinn 1987 var 4,5% en er nú 1%. En vextirnir 1987 voru 9,7% en eru núna 14,9% eða með öðrum orðum 4% að teknu tilliti til verðbólgu. Og ef fjölmiðlarnir hafa svona viðskiptavaka, sem þeir kalla sig, og endurtaka um hádegið svona fréttir, og svo er lapin upp svona vitleysa af blöðunum svo jafnvel í fréttum ríkisfjölmiðlanna komi þetta aftur.
    Þannig hefur nú verið staðið við þetta fyrirheit, sem ég vil kalla svo, að raunvextirnir eru á milli 8 og 9% eftir því sem Tíminn segir.
    En ekki nóg með það. Ég fór með skuldabréf sem var með vöxtum Landsbankans eins og þeir eru á hverjum tíma, óverðtryggðir, og það var búið að segja mér að þetta væri tekið með ,,á pari``, eins og það er kallað. En hver var útkoman? Afföllin voru 10% og kostnaðurinn við þetta fjögurra ára bréf var 40 þús. eða samtals 190 þús.
    Ég vil segja við hv. 1. þm. Suðurl. Þorstein Pálsson: Þetta er arfinn. Þetta er arfinn í þjóðfélaginu sem var sáð og dreift út undir stjórn ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar. En þessi ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar hefur ekki staðið við það að taka á þessum mönnum sem ráða bönkunum. Ég stóð, hæstv. forsrh., á móti því að kjörvextir væru teknir upp í Búnaðarbankanum en það var ekki langt liðið frá því að ég hætti þar þangað til þeir voru teknir upp. Og hvað gerði það? Þeir hækkuðu við það til hins almenna manns um 0,75%. Þetta er nú stjórnin á þessum málum.
    En það var fleira sem ég setti upp. Ég setti það upp að ég hefði aðgang að fjh. - og viðskn. og yrði boðaður á fundi hennar. Ég var boðaður á fundi fyrsta veturinn, þangað til Borgfl. kom í ríkisstjórn, en aldrei síðan. Aldrei síðan. Og í Tímanum 8. des., í Tímabréfi, segir, með leyfi forseta:
    ,,Menn voru þeim mun sannfærðari um að sjálfstæðismenn mundu ekkert gera til þess að hindra framgang laganna í þinginu að í ljós kom fyrir stuttu að alþingismaður sem talinn hafði verið stuðningsmaður frv. fremur en hitt, Stefán Valgeirsson, talaði um að greiða atkvæði gegn frv.`` o.s.frv.
    Sá sem var forsrh. á þeim tíma sem var farið að ræða um þessi bráðabirgðalög, Halldór Ásgrímsson, hafði samband við mig. Ég sagði honum hug minn allan og ætla ekki að rekja það frekar, ég hef gert það áður. En ég spurði hann að því hvort hann hefði ekki komið skilaboðum um það til forsrh. hver mín afstaða væri. Hann sagði að svo hefði verið. Síðan hefur ekki verið talað við mig eitt einasta orð um þessi bráðabirgðalög. Enginn. Og af því leiddi að ég kom fram með þáltill. til þess að fá umræðu um þetta mál og vita um það og krefjast þess að fá lögfræðilegt álit

sem kom fram hjá hæstv. forsrh. þegar hann ræddi við borgarstjórann í Reykjavík að hann hefði haft nokkuð marga lögfræðinga til þess að bera sig upp við.
    Ég sá mér ekki annað fært en að koma með fsp. hér á Alþingi til þess að reyna að fá úr því skorið hvort það ætti að fela fyrir mér þessi álit sem hljóta að hafa borist þeim í hendur. En ég reiknaði líka alveg með því að það mundi gerast sem gerðist í sambandi við Sjálfstfl. Mér kom það ekki á óvart. Það er auðvitað alveg rétt að það var upphlaup. En það var engu síður upphlaup hjá hæstv. ríkisstjórn að ætla sér undir þessum kringumstæðum að rjúfa þing og boða til kosninga eingöngu vegna þess að ég bað um álitsgerð um þetta mál. Það var hvorki reynt að hafa áhrif á mig, kalla mig fyrir eða senda mér þetta á nokkurn hátt. Það er því dálítið skrýtið sem kemur fram í málflutningi og blöðum að af þeim ástæðum hafi átt að rjúfa þing og efna til kosninga, af því að ég bað um þessa álitsgerð. Ég talaði um það hér á hv. Alþingi að þó að það væri álitsgerð frá öðrum heldur en umboðsmanni Alþingis, þá mundi ég skoða það, en það var ekki haft fyrir því.
    Auðvitað hefði ég aldrei orðið til þess að það yrðu kosningar um miðjan vetur þó að hæstv. ríkisstjórn dytti það í hug. Mér hefði aldrei dottið það í hug. Ég hefði auðvitað setið hjá. En af því að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson kom með þessa yfirlýsingu á mánudaginn þegar ég ætlaði að gefa þessa yfirlýsingu til þess að koma í veg fyrir það --- ja, ég verð að segja að það óhæfuverk yrði unnið að láta fara að kjósa um miðjan vetur, þá breytti ég henni og sá ekki ástæðu til þess.
    Og þó er það kannski það sem lengst er gengið í öllu þessu og sem mér datt ekki í hug að væri mögulegt og veit og trúi að það hefði aldrei komið til greina að ríkisstjórnin hefði rofið þing og gefið út aftur bráðabirgðalög. Það hefðu orðið þær umræður hér á hv. Alþingi að forseti vor, Vigdís Finnbogadóttir, hefði aldrei samþykkt það undir þessum kringumstæðum. Ég trúi því ekki. Það er því alveg furðulegt hvað þessum hæstv. ráðherrum hefur dottið í hug að gera.
    Ég gæti auðvitað farið ofan í þetta enn þá meira, samskipti mín við hæstv. ríkisstjórn, því það má segja að í fáum atriðum hafi verið við það staðið sem um var rætt sem hefur að vísu komið nokkuð fram hjá mér hér á undan. En það kann að vera að ég muni ræða það mál betur í þessum umræðum ef ég tel ástæðu til.
    Í Tímablaðinu sem ég vitnaði í áðan, 6. des., er einnig viðtal við Guðmund J. Guðmundsson, sem hv. þm. ættu að kynna sér vel, þar sem hann ræðir um vextina og hvernig ríkisstjórnin hefur staðið að því máli að líða það að á tíma þjóðarsáttar skuli raunvextir hafa hækkað verulega og að enn standi til að þeir hækki meira. En ég ætla ekki að ræða þau mál meira að sinni. Ég hef bara þá reynslu af þessu stjórnarsamstarfi að það stendur ekkert á að lofa en það stendur á því að efna loforðin. Og í mörgum tilvikum sé ég ekki betur en að það hafi verið fyrir

fram ákveðið að svíkja ýmis af þeim loforðum og gæti ég farið út í það frekar.
    Ég las upp úr ræðu sem Ellert Schram flutti á fundi landsmálafélagsins Varðar. Og af því að ég er alveg sammála því sem kemur fram hjá Ellert um hvernig kerfið er, hvernig þessir flokkar eru þá gríp ég niður í lok þess sem kemur fram í Morgunblaðinu eftir Varðarfundinn. Þar segir Ellert m.a., með leyfi forseta:
    ,,Sjálfstfl. á ekki að gerast hlífiskjöldur fyrir gróðaöflum og hann á ekki að hossa handhöfum hlutafjárvaldsins sem einhverjum hetjum sjálfstæðisstefnunnar. Enginn fjöldaflokkur getur leyft sér að falast eftir atkvæðum hins almenna kjósanda til að safna síðan auðnum og völdunum í hendur hinna fáu. Sérhagsmunirnir eru skeinuhættastir auðsöfnun alþýðunnar. Við skulum ekki vera skálkaskjól fyrir þá.``
    Þetta eru ekki mín orð. En þetta er mín hugsun og ég tek undir þetta. Og ég vil vekja athygli á þessu. Þetta er fyrrv. þingmaður Sjálfstfl. er segist vera sjálfstæðismaður, en honum ofbýður svo hvernig málum er komið í þjóðfélaginu að hann lætur sig hafa það að segja sínum flokksmönnum til syndanna. Það væri meira hægt að lesa upp af ræðu Ellerts, sem er lærdómsrík og sýnir í raun og veru hvernig er komið í innviðum Sjálfstfl. ( FrS: Hann tollir þó í flokknum enn. Það er meira en sumir gerðu.) Hann tollir í flokknum enn þá en hann er að reyna að hafa áhrif á frjálshyggjumennina og vonandi tekst honum það. Þess vildi ég óska, hv. 1. þm. Reykv. Það væri betur ef hv. 1. þm. Reykv. Friðrik Sophusson kæmi hér upp í ræðustól og tæki undir þessi orð Ellerts Schram.