Launamál
Þriðjudaginn 11. desember 1990


     Geir H. Haarde :
    Herra forseti. Það er margviðurkennt og yfirlýst af ráðherrum í núv. ríkisstjórn að öll meðferð þess máls, sem hér er komið til meðferðar á Alþingi, hafi verið hreint klúður frá upphafi. Hæstv. utanrrh. hefur ítrekað lýst því yfir að upphaflegi samningurinn við BHMR hafi verið klúður, meðferð málsins í sumar af hálfu ríkisstjórnarinnar hafi verið klúður, en þeir hafa ekki enn þá fengist til að viðurkenna að bráðabirgðalagasetningin í ágúst var líka eitt klúðrið enn og reyndar eitt hneykslið enn í sögu þessa máls.
    Ég er minnugur þess þegar fjmrh. átti hinn 18. maí 1989 hvert viðtalið á fætur öðru við fjölmiðla --- hæstv. forseti, væri hægt að fá vinnufrið hér í ræðustól? Ég á nefnilega erindi við hæstv. fjmrh. Hann, virðulegur ráðherrann, gaf mörg viðtöl um það hversu samningurinn við BHMR markaði mikil tímamót og ég er minnugur þess orðalags sem hæstv. ráðherra notaði við það tækifæri þegar hann talaði um að samningurinn hefði orðið til á ,,lýðræðislegu torgi`` í Borgartúni 6. Þar var hið ,,lýðræðislega torg``. Það mætti halda að samningsatriðin hafi verið komin á uppboð á torginu hjá fjmrh. í Borgartúni 6. Hæstv. fjmrh. er eins og kunnugt er laginn við smíði nýyrða, en hitt mun mála sannast að í þessu máli er verið að brjóta niður undirstöður lýðræðislegra stjórnarhátta hérlendis og tal ráðherrans um hið lýðræðislega torg auðvitað hlægileg fjarstæða í ljósi þess sem síðan hefur gerst.
Auðvitað var það tal gaspur eitt eða eins og menn hafa orðað það hér í bænum í tengslum við þann kjarasamning: Menn gerðu tímamótakjarasamning með lygaramerki fyrir aftan bak. Það stóð ekki til að efna samninginn. Mér er sem ég sjái vini mína tvo, hæstv. ráðherra, sem hér sitja núna ef þeir væru í stjórnarandstöðu við þessar aðstæður, þar sem væri verið að taka fyrir á Alþingi bráðabirgðalög á kjarasamning eins stéttarfélags. Því að auðvitað er það út í hött að halda því fram að þetta séu einhver almenn lög. Eru þetta almenn lög? Hefðu lögin verið sett ef ekki hefði kjarasamningi við BHMR verið til að dreifa? Auðvitað ekki. Það svarar spurningunni um það hvort hér er um að ræða almenna löggjöf eða sérstök lög á einhvern ákveðinn samning. (Gripið fram í.) Menntmrh. er kímnimaður mikill eins og þingheimur veit. Nei, hér er ekki um almenn lög að ræða, þessi bráðabirgðalög sem nú eru til meðferðar og staðfestingar, nema að formi til. Enda er það tekið fram í þeim lögum að tilteknar greinar í kjarasamningi BHMR falli úr gildi. Það er því nánast út í hött að halda því fram að þetta séu almenn lög að efni til.
    Hins vegar er það svo þegar menn eru að tala um þetta mál í tengslum við svonefnda þjóðarsátt að meðferð þessara laga, tilurð þeirra, aðdragandi og eftirleikur er auðvitað ekki spurning um verðbólgu eða einhvern efnahagslegan ávinning eða efnahagsmál yfirleitt vegna þess að hér er verið að tala um allt aðra hluti, sjálfa stjórnskipan Íslands, hvað menn geta leyft sér í stjórnarháttum á Íslandi og hvað menn geta leyft

sér í stjórnarfari hér á landi. Það er auðvitað hárrétt sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefur haldið fram um það efni, og gerði m.a. hér í dag, að það er verið að leika sér að stjórnarfarsreglunum. Þegar menn gera það eru þeir jafnframt líka að grafa undan þeim. Á þetta hafa fjölmargir kunnáttumenn, fræðimenn á sviði lögfræði, bent. Auðvitað hlýtur það að vera umhugsunarefni fyrir mann sem er prófessor í stjórnmálafræði og kunnur áhugamaður um stjórnlög að taka þátt í slíkum leik.
    Hitt er svo annað mál, eins og kom fram í ræðu hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar, að stjórnskipan landsins er að mörgu leyti gölluð og ýmis ákvæði sem þar er að finna úrelt orðin. Ég skal viðurkenna það mjög fúslega að hæstv. fjmrh. hefur ásamt öðrum beitt sér fyrir ákveðnum umbótum í þeim efnum sem snúa að hans eigin embætti. Ég nefni til að mynda afgreiðslu fjáraukalaga á því þingi eða því ári sem þau taka til sem er vissulega framför þó að vissulega sé jafnframt af fleiru að taka á þeim vettvangi, sem undir fjmrh. heyrir, í sambandi við umbætur og nýjungar í stjórnsýslu og skal ég ekki eyða fleiri orðum að því á þessu stigi. Hins vegar eru þau málefni, stjórn ríkisfjármála og hvernig að þeim er staðið, fjárgreiðslur úr ríkissjóði o.fl., aðeins einn þátturinn í þeirri víðtæku endurskoðun á okkar stjórnlögum og stjórnskipan sem er löngu orðin tímabær og óhjákvæmileg að mínum dómi.
    Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson vék í ræðu sinni að nokkrum þeim atriðum sem óhjákvæmilegt er að breyta. Framkoma hæstv. ríkisstjórnar varðandi bráðabirgðalögin staðfestir m.a. það að bráðabirgðalagavaldið er úrelt fyrirbæri, á engan rétt á sér eins og samgöngum, fjarskiptum, er nú háttað og þingrofsvaldið er í meira lagi vafasamt eins og til stóð að beita því fyrir viku síðan. En manni hefur skilist það í þeirri umræðu að hæstv. forsrh. þessarar ríkisstjórnar fari einn með þingrofsvaldið og það hafi ekki verið gerður samningur milli formanna stjórnarflokkanna um að eigi verði gripið til þingrofs nema allir séu því samþykkir, eins og þó hefur verið venja í mörgum undanförnum ríkisstjórnum. Það getur ekki verið að slíkur samningur milli formanna stjórnarflokkanna sé fyrir hendi þegar yfirlýst er að það hafi átt að grípa til þingrofs þvert gegn vilja formanns minnsta stjórnarflokksins, að ég tali nú ekki um gegn vilja hv. þm. Stefáns Valgeirssonar. En hans hreyfing er aðili að þessari ríkisstjórn þó hún eigi ekki mann þar innan borðs. Þingrofsvaldið í þessari ríkisstjórn er því í hendi eins manns. Það virðist ekki liggja fyrir samkomulag milli formanna stjórnarflokkanna um að því verði ekki beitt nema með samkomulagi. Það er athyglisvert þó að auðvitað sé það svo skv. stjórnarskrá að lögformlega sé það forsrh. einn sem grípur til þess ráðs eða getur gripið til þess ráðs. En það er eða var orðin venja að menn semdu um að beita ekki þeim rétti nema samkomulag allra lægi fyrir.
    Ég lét þess getið, virðulegi forseti, að í þessu máli væri spurningin ekki um það hvort verðbólgan yrði nokkrum prósentum meiri eða minni eða hvort menn

hefðu einhvern efnahagslegan ávinning einan og sér af þessu máli. Ég veit ekki hvort þingmenn hafa almennt séð þátt Hermanns Gunnarssonar sem sýndur var hér fyrir nokkrum kvöldum síðan. Þar var vegfarendum gefinn kostur á því að þiggja úr hendi ókunnugs manns á götu úti peningaveski sem hann sagðist hafa fundið, fullt af peningum, gjaldeyri og alls kyns verðmætum. Vegfarandinn, sem þóttist hafa fundið veskið, gekk á hvern Reykvíkinginn á fætur öðrum og bauð honum að hirða það sem í veskinu væri með sér. Þeir skyldu bara skipta því á milli sín. En það var enginn sem vildi taka við þessum peningum nema einn maður, einhver útlendingur sem var til í þennan leik. Það vildi enginn taka þátt í því að skipta þessum ránsfeng. Vegna hvers ekki? Vegna þess að samviska fólksins, sem þarna átti hlut að máli, bauð því að þetta væri rangt, bauð því að þetta væri hlutur sem ekki mætti gera, sem væri rangur siðferðilega þó að fólkið hefði af því einhvern fjárhagslegan ávinning. Þetta er að vissu leyti hliðstætt mál sem hér er til meðferðar. Þetta er mál sem er réttilega þannig, eins og hv. 5. þm. Reykn. Geir Gunnarsson sagði í dag, að hér verða menn að láta samviskuna ráða. Hér mega menn ekki láta skjótfenginn ávinning ráða ferð eða hugsanlegan efnahagslegan ábata. Því hér er um æðri gildi að ræða.
    Þjóðarsáttin rennur út á næsta hausti. Kjarasamningarnir renna út á næsta hausti og auðvitað verða gerðir nýir kjarasamningar. Það vitum við þó við vitum ekki hvað í þeim muni felast. En stjórnskipun landsins mun standa um aldur og ævi og á henni hafa menn ekki leyfi til að traðka. Á íslenska þingræðinu hafa menn ekki leyfi til að trampa eða því lýðræði sem hér hefur verið byggt upp og er okkur auðvitað mjög dýrmætt. Á þessum verðmætum hafa menn ekki leyfi til að traðka þó að efnahagslegur ávinningur kunni að vera annars vegar um nokkurra mánaða skeið.
    Og auðvitað er það svo, virðulegi forseti, um þær fregnir sem hér bárust um að það stæði til að ríkisstjórnin setti ný bráðabirgðalög að undangengnu þingrofi um sama efni og hún hefði neyðst til þess að rjúfa þingið út af, þá hefði það auðvitað ekki verið annað en þingræðislegt klám. Forsrh. sagði að vísu hér í dag að það hefði ekki staðið til að gefa lögin út óbreytt. Þeim hefði eitthvað verið breytt en efnislega hefði auðvitað verið um sama mál að ræða. Ríkisstjórnin, sem ekki hafði meiri hluta til þess að koma hér þingmáli í gegn og neyddist þess vegna til þess að rjúfa þing og boða til kosninga vegna þess máls, ætlaði að gera sig seka um það þingræðislega klám, sem ég vil leyfa mér að kalla, með leyfi forseta, að endurútgefa þau lög að efni til þó svo að formi þeirra væri hugsanlega eitthvað breytt. Hvernig er hægt að ganga lengra í að lítilsvirða þau vinnubrögð og þær leikreglur sem hér er starfað eftir? Hvernig er hægt að ganga lengra?
    Ég harma það að vísu að hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni hafi snúist hugur varðandi afstöðu sína eða þá ákvörðun að greiða atkvæði gegn þessu máli. Hins

vegar hlýt ég að virða það við hann að hann kemur í veg fyrir þá klámsýningu sem ríkisstjórnin ætlaði að efna til á íslenska þingræðinu. Það hlýtur að vera virðingarvert á þeim forsendum sem það hefur verið kynnt af hans hálfu.
    Svo eru menn að tala um skemmdarverk Sjálfstfl. Og hæstv. fjmrh. belgir sig út í fjölmiðlum um svokölluð skemmdarverk Sjálfstfl. En hvað voru þessir menn með í huga? Hvers lags skemmdarverk voru það á leikreglum lýðveldisins og stjórnskipan og starfsháttum stjórnvalda sem fyrirhuguð voru? Það voru ljót verk. Ég er sannfærður um það að þegar mestur móðurinn er runninn af fólki sjá menn það hvaða skemmdarverk það voru sem formenn Alþb., Alþfl., Framsfl. og Borgfl. ætluðu sér að standa hér fyrir hefðu þeir haft til þess svigrúm.
    ,,Þetta mál er allt eitt klúður``, sagði hæstv. utanrrh. á sinni tíð og vissulega voru það orð að sönnu. Hann greip fram í fyrir hv. 1. þm. Reykv. í dag og sagði að sannleikurinn væri alltaf sagna bestur og í þeim ummælum að málið væri klúður frá upphafi til enda hafði hann lög að mæla þó að þeir hafi hins vegar dregið rangar ályktanir af þeim sannleik. Það er önnur saga.
    Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera ef bæjarþing Reykjavíkur, borgardómur, dæmir ríkisstjórninni í óhag þegar það mál sem BHMR hefur höfðað gegn ríkisstjórninni kemur þar til úrlausnar? Ætlar ríkisstjórnin þá loksins að segja af sér eða ætlar hún kannski þá að rjúfa þingið? Eða ætlar hún kannski að setja ný bráðabirgðalög eftir að þingið hefur verið sent heim og breyta forsendum þess dóms sem þar kann að verða kveðinn upp? Sjá ekki allir í hvers konar ófæru þetta stefnir með þessum vinnubrögðum ef dómstólarnir í landinu fá ekki vinnufrið eða fá ekki að kveða upp sína úrskurði án þess að þeim sé efnislega breytt eftir á af framkvæmdarvaldinu í landinu?
    Mig langar að spyrja hæstv. forsrh. að því hvað hann hyggist gera sem leiðtogi þessarar ríkisstjórnar ef dómur í bæjarþinginu í því máli sem ég nefndi fellur ríkisstjórninni í óhag þrátt fyrir að ríkislögmaður hafi tínt til allt sem hægt er að tína til ríkisstjórninni til málsbóta sem verjandi hennar í málinu? En allir sakamenn hafa verjanda eins og kunnugt er. Það er auðvitað fráleitt að leggja það að jöfnu, eins og gert hefur verið, málsvörn ríkislögmanns í því máli sem hér hefur verið höfðað og hins vegar álitsgerð sem hann kynni að láta í té eða hefði ef til vill látið í té á síðasta sumri ef hann hefði verið um það beðinn sem óvilhallur aðili og ráðgjafi í málinu.
    En það ber allt að sama brunni í þessu máli, herra forseti. Ég ætla ekki að rekja hér málsatvik með sama hætti og fram hefur komið í máli frsm. við þessa umræðu. Það er alveg ástæðulaust að lengja umræðuna með því. Ég held að málavextir liggi nokkuð vel fyrir. A.m.k. eru þeir ítarlega raktir í nál. 2. minni hl. fjh.- og viðskn., þ.e. minnihlutaáliti Friðriks Sophussonar, hv. 1. þm. Reykv. Þeir eru sömuleiðis vel raktir í því skjali sem þingmenn hafa fengið og heitir ,,BHMR gegn ríkisstjórn Íslands, kæra til Alþjóðavinnumálastofnunarinnar``. Þar eru þessir málavextir ítarlega raktir.
    En ég verð að segja það, virðulegi forseti, að sjaldan hefur mér nú þótt málsvörn hæstv. forsrh. fyrir eigin gerðum aumari en í dag þegar hann segir að það sé vegna einhverrar ótilgreindrar frjálshyggju sem sjálfstæðismenn hafa tekið prinsippafstöðu gegn þessum ólögum sem hér eru til meðferðar í líki bráðabirgðalaganna. Og það eru mér ný tíðindi að forsvarsmenn BHMR, Páll Halldórsson og Birgir Björn Sigurjónsson, séu orðnir einhverjir sérstakir frjálshyggjumenn. Ég man nú ekki betur en Birgir Björn Sigurjónsson, framkvæmdastjóri BHMR, hafi skrifað sérstaka bók sem hét Frjálshyggjan og var um það hversu sú kenning væri fráleit í hans augum. Ég er að vísu mjög ósammála því riti en það kemur þessu máli ekkert við. ( HG: Það er góð bók.) Hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni þykir það góð bók. En mér er til efs að höfundi þess rits þyki það málefnalegt innlegg í umræður um þessi bráðabirgðalög að segja það að menn snúist gegn þeim út af einhverri svokallaðri frjálshyggju. Þetta er auðvitað hreinn og klár útúrsnúningur hjá
hæstv. forsrh. og með fádæmum að menn grípi til útúrsnúninga og orðhengilsháttar í umræðum um alvarlegt mál af þessu tagi. Ef hann vill tala við einhvern um frjálshyggju, til að mynda í vaxtamálum, þá legg ég til að hann tali við viðskrh. sinn. En eins og kunnugt er hefur hv. þm. og stuðningsmaður stjórnarinnar, Stefán Valgeirsson, ítrekað ásakað viðskrh. núv. ríkisstjórnar um frjálshyggju í vaxtamálum. Er það ekki alveg rétt hjá mér? ( SV: Það er rétt.) Það er rétt, staðfestir hv. þm. Stefán Valgeirsson. Ég er nú sennilega samt sem áður meira sammála hæstv. viðskrh. um vaxtamál en hv. þm. Stefáni Valgeirssyni og hæstv. forsrh. en það kemur þessu máli bara ekkert við.
    Hér er verið að deila um ákveðin grundvallaratriði, grundvallarprinsipp sem snúast um það hvað menn geta leyft sér í stjórnarháttum hérlendis. Það er það sem þetta mál snýst um, grundvallaratriði í stjórnskipan og í siðferði manna í stjórnmálum. Vissulega var það engin tilviljun þegar áðurnefndur Páll Halldórsson sagði í viðtali við fréttamann Ríkissjónvarpsins þegar hann var spurður að því hvort ekki hefði verið eðlilegt að fá hæstv. fjmrh. til að koma og ræða við þá á málþingi um siðferði í stjórnmálum, það var engin tilviljun að umræddur formaður BHMR sagði eftirfarandi: ,,Það datt ekki nokkrum manni í hug að leita til Ólafs Ragnars Grímssonar fjmrh. þegar siðferði í stjórnmálum bar á góma.``