Launamál
Þriðjudaginn 11. desember 1990


     Ólafur G. Einarsson :
    Herra forseti. Nú þegar þetta frv. er komið hér til 2. umr. virðist sem mesta móðursýkiskastið sé um garð gengið í áróðrinum gegn Sjálfstfl. Svo sjúklegt áróðursstríð hefur vart í annan tíma sést og það sem sett var af stað fyrir tæpum hálfum mánuði. Það var sú niðurstaða sem varð á fundi þingflokks sjálfstæðismanna þann 28. nóv. sl. sem hratt þessari umræðu af stað. Það virtist svo sem niðurstaða sjálfstæðismanna kæmi mönnum eitthvað sérstaklega á óvart. Ég veit ekki hvers vegna. Þeir þingmenn flokksins sem höfðu tjáð sig um þetta mál höfðu aldrei léð máls á öðru en andstöðu við bráðabirgðalögin. Þessi vitneskja varð fjmrh. tilefni til þess að tala um skemmdarverk sjálfstæðismanna en honum datt ekki í hug að tala um skemmdarverk þeirra liðhlaupa sem urðu í hans eigin röðum. Nei, það var Sjálfstfl. sem var sökudólgur í þessu máli þgar svo leit út sem ríkisstjórnin kæmi ekki fram eigin svikasamningum. Það var jafnvel látið líta svo út sem Sjálfstfl. væri að bregðast ríkisstjórninni, þessari ríkisstjórn sem hann hefur verið í andstöðu við frá fyrstu tíð og er enn og verður. Það var látið líta svo út sem sjálfstæðismenn væru að setja þjóðarsáttina í hættu.
    Hvað sem hæstv. ráðherrar segja þá eru þessi tvö mál alveg óskyld, þjóðarsátt og bráðabirgðalög. Um hið fyrra, þjóðarsáttina, er sæmileg sátt, en um hið síðara ekki og hefur aldrei verið.
    Við sjálfstæðismenn vorum ekki að mótmæla þjóðarsátt eða setja hana í hættu. Við vorum að lýsa andúð okkar á bráðabirgðalögunum og öllum aðdraganda þeirrar lagasetningar. En við vorum ekki þar með að lýsa einhverri sérstakri aðdáun okkar á þeim samningi sem ríkisstjórnin gerði við BHMR á sínum tíma.
    En hvers vegna þessi andúð á bráðabirgðalögunum? Hvers vegna ætli þingflokkur sjálfstæðismanna sé að setja fylgi flokksins í hættu þegar ljóst má vera á þeirri stundu að flestir eru á öðru máli, ríkisstjórnin náttúrlega en einnig talsmenn fjölmennra samtaka eins og Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambandsins og ýmsir aðrir um allt land? Fyrir því eru þær ástæður sem öllum ættu að vera skiljanlegar nema þeim sem telja að setja megi allar leikreglur lýðræðis til hliðar til þess að ná megi því fram sem lofað hefur verið þótt það feli í sér svik við aðra.
    Við höfum haldið því fram að það beri að virða samninga. Við höfum haldið því fram að það beri að virða reglur þingræðis og lýðræðis. Og við höfum haldið því fram að það beri að halda í heiðri þrígreiningu valdsins í löggjafarvald, dómsvald og framkvæmdarvald. Á móti þessu öllu hefur ríkisstjórnin gengið í einu og öllu. Öllu er ruglað saman. Framkvæmdarvaldið tekur sér löggjafarvald og setur lög ofan í dóma. Það er ekki hægt að ætlast til þess eða krefjast þess að Sjálfstfl. leggi svona stjórnarathöfnum lið.
    Við höfum jafnvel heyrt þá spurningu hvort við værum ekki tilbúnir til að sitja hjá við afgreiðslu

þessa frv. gegn því að ríkisstjórnin hætti við skattpíningaráform sín. Að þessu hafa spurt menn sem telja sig hafa einhvern aðgang að hæstv. ríkisstjórn. En með þessum skattpíningaráformum sem hér hafa verið uppi á borði ætlaði ríkisstjórnin sjálf að svíkja þjóðarsáttina. Það voru ein svikin enn sem voru í bígerð. Kannski verður ekkert af þeim. En við verslum ekki með mannréttindi og við verslum ekki með þetta mál sem allt er varðað undirferli og svikum. Rekjum það aðeins. Það hefur verið gert en það er ágætt að gera það einu sinni enn.
    Ríkisstjórnin semur við BHMR í maímánuði 1989. Tímamótasamningur hét það á máli hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. Ríkisstjórnin semur svo síðar eða handsalar Alþýðusambandinu og Vinnuveitendasambandinu að þessi samningur við BHMR skuli svikinn. Þegar svo ríkisstjórnin hæstv. fyrir nokkrum dögum lendir í vandræðum með að standa við það loforð sitt að svikin verði lögfest á Alþingi þá er skipulögð einhver magnaðasta rógsherferð gegn Sjálfstfl. sem lengi hefur sést og hafa þær þó margar verið skrautlegar. Ástæðan: Flóttinn sem brostinn var í lið ríkisstjórnarinnar.
    Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson gat ekki lengur gert það sem hann ætlaði sér í skjóli Sjálfstfl. Mig langar, með leyfi forseta, að lesa hér upp dálítinn texta. Hann er svona:
    ,,Ríkisstjórnin missteig sig alvarlega í samskiptum sínum við Bandalag háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna. Í fyrsta lagi stóð hún að samningi við BHMR sem fól í sér ákvæði um að verði almennar breytingar á launakjörum annarra launþega geta aðilar krafist breytingar á launaliðnum sem því nemur. Í öðru lagi hafðist hún ekki að þegar ASÍ og VSÍ gerðu sinn þjóðarsáttarsamning í vetur leið. Í þriðja lagi tilkynntu ráðherrar einhliða 12. júní sl. að þeir ætluðu ekki að standa við ákvæði samningsins við BHMR að því er varðaði 5. gr. hans varðandi launabreytingar 1. júlí. Í framhaldi af málshöfðun kom síðan samhljóða dómsorð Félagsdóms 23. júlí sl. svohljóðandi: ,,Af orðalagi 6. mgr. 5. gr. er ljóst að ákvæðið mælir fyrir um greiðslur ef framkvæmd kjarasamanburðarins dregst fram yfir 1. júlí 1990. Verða hin tilvitnuðu ákvæði ekki skýrð á annan veg en þann að stefnda beri að greiða félagsmönnum stefnanda upp í hækkun sem þeir kunna að eiga rétt á skv. kjarasamanburðinum, þar sem honum var ekki lokið hinn 1. júlí 1990. Af viðbrögðum ríkisstjórnarinnar og einstakra ráðherra við þessum dómi mátti ætla að þeir hefðu misskilið ótvíræð ákvæði eigin samnings eða þá að ekki hafi verið ætlunin að standa við hann.````
    Síðan kemur hér aðeins áfram: ,,Það er ofan í þessi samskipti og dómsorð sem ríkisstjórnin nú setur bráðabirgðalög. Hún hefur tapað máli fyrir dómi en taldi sig ekki geta unað því, m.a. með vísun til yfirlýsinga atvinnurekenda um hliðstæða hækkun til sinna viðsemjenda og verðhækkanir og gengislækkun í kjölfarið. Samningaumleitanir sem fram fóru á milli BHMR og fjmrh. í nokkra daga leiddu í ljós að forustumenn BHMR voru reiðubúnir að taka ákvæði 15.

gr. kjarasamnings síns um víxlhækkanir byggðar á samningum annarra samtaka til endurskoðunar en töldu sig ekki hafa umboð til að falla frá launahækkun frá 1. júlí skv. gildandi samningi. Samningaumleitanir fóru fram í skugga umræðu innan ríkisstjórnarinnar um bráðabirgðalög og við þær aðstæður voru hverfandi líkur á að tækist að leysa málið með samkomulagi. Innan ríkisstjórnar voru uppi mjög harðar kröfur frá samstarfsaðilum Alþb. um lagasetningu. Fyrsta tillaga forsrh. gerði ráð fyrir að binda allt í hólf og gólf á vinnumarkaði með lögum fram á haust 1991. Einnig þá sem nú hafa lausa samninga. Niðurstaðan er mildari á pappírnum en leiðir að sama marki.``
    Þessi texti er eftir hv. þm. Hjörleif Guttormsson og birtist í DV þann 13. ágúst 1990.
    Það hefur nokkuð verið rætt hvort hæstv. forsrh. hafi sagt ósatt þegar hann og hans ríkisstjórn settu þessi margumræddu bráðabirgðalög. Í sjálfu sér skiptir það kannski ekki neinu höfuðmáli hvort hæstv. forsrh. hafði meiri hluta fyrir bráðabirgðalögunum þegar þau voru sett, enda hefur verið gert mikið mál úr því einmitt núna í seinni tíð að í raun og veru þurfi hæstv. ráðherra ekkert að fullyrða neitt um það hvort meiri hluti sé fyrir bráðabirgðalögum. Það má vel vera rétt. En hæstv. ráðherra sagði í umræðum á Alþingi í októbermánuði sl. þau frægu orð að þar sem meiri hluti hefði verið tryggður fyrir bráðabirgðalögunum sæi hann ekki muninn á því að gera það með þeim hætti eða að setja þessa löggjöf hér á Alþingi. Síðan kemur þetta á daginn, sem stóð að vísu ekki mjög lengi, að ekki var meiri hluti fyrir staðfestingarfrv. hér á Alþingi.
    Hv. þm. Páll Pétursson sagði hér þegar hann talaði fyrir meirihlutaáliti fjh. - og viðskn. að í raun og veru hefði þetta verið alveg satt hjá hæstv. forsrh. Það hefði verið meiri hluti fyrir lögunum. En vegna deildaskiptingar Alþingis hefði svo óheppilega viljað til að það var ekki meiri hluti í Nd. Þetta kallar maður að fara í gegnum sjálfan sig.
    Það hefur verið talað um hvort hér sé um stjórnarskrárbrot að ræða. Mikilsmetnir lögfræðingar hafa látið þá ótvíræðu skoðun í ljós að um stjórnarskrárbrot sé að ræða. Það mál er nú fyrir dómstólum. En hæstv. ríkisstjórn skýtur sér ævinlega á bak við einhverja huldulögfræðinga sem hún segir að hafi fullyrt að alls ekki sé um stjórnarskrárbrot að ræða. En við bíðum og sjáum hvað setur við meðferð þessa máls hjá dómstólunum.
    Ég hef verið að velta því dálítið fyrir mér hvers vegna ýmsir, ekki bara ríkisstjórnin heldur ýmsir aðrir, hafi reiknað með því að sjálfstæðismenn mundu hjálpa ríkisstjórninni til þess að koma þessu máli í gegnum Alþingi. Ég verð að viðurkenna að ég á dálítið erfitt með að svara þessari spurningu. En það kann að vera að menn reikni með því að í þingflokki sjálfstæðismanna séu nægilega margir menn með eitthvað brenglaða siðferðiskennd.
    Mér dettur þetta svar í hug þegar ég rifja upp viðtal sem Ríkissjónvarpið átti þann 29. nóv. sl. við formann Vinnuveitendasambandsins. Hann er spurður

þessarar spurningar, með leyfi forseta ætla ég að lesa hana: ,,Áttir þú von á því að stuðningur sjálfstæðismanna væri vís við þessi bráðabirgðalög?`` Og formaður Vinnuveitendasambandsins svarar: ,,Að sjálfsögðu ekki. Það höfðu ýmsir þingmenn á umliðnum vikum lýst því yfir að þeir treystu sér ekki til annars en að ganga gegn þessum lögum vegna siðferðisástæðna, margsinnis lýst því yfir. En við áttum alls ekki von á því að þingflokkurinn sem heild snerist gegn þessum lögum og ætlaði að knýja fram að þau yrðu felld.`` Þetta voru hans orð. En hann er ekki í neinum vafa um stjórnarliðana. Þeir voru allir alveg pottþéttir, eins og þar stendur. Það var engin hætta með að siðferðiskenndin þvældist fyrir þeim.
    Þessi afstaða formanns Vinnuveitendasambandsins hefur mjög verið notuð af hálfu ríkisstjórnarinnar. Það hefði nú einhvern tíma þótt tíðindum sæta að ríkisstjórn vinstri flokka fyndi sér helst skjól hjá formanni Vinnuveitendasambandsins. Ég tala nú ekki um þegar hann er jafnframt formaður kjördæmisráðs Sjálfstfl. á Vestfjörðum. Það hefðu þótt tíðindi ef formaður Framsfl. væri enn í framboði á Vestfjörðum, sem hann er að vísu ekki.
    Hæstv. ráðherrar hafa farið háðulegum orðum um þá sem eru andvígir þessu frv. Háðið beinist ekki síst að þeim sem leggja áherslu á siðgæði í stjórnmálum. Ráðherrarnir hefðu átt að vera á ráðstefnunni sem var haldin í Háskólabíói í gær um siðferði í stjórnmálum. Ég skil vel að engum af forsvarsmönnum ráðstefnunnar datt í hug að biðja þá um að hafa framsögu. Ég skil það vel. En þeir hefðu haft gott af því að hlusta á þær ræður sem þar voru fluttar. Þar kom nefnilega margt athyglisvert fram og ýmislegt rifjað upp sem flestum er ljóst en ekki hæstv. ríkisstjórn sem nú situr við völd á Íslandi.
    Það gamla máltæki var rifjað upp að allt vald spillir en algert vald gerspillir. Það er einmitt það sem hér er á ferðinni hjá þessari hæstv. ríkisstjórn sem nú situr. Á þessari ráðstefnu var líka minnst á þrígreiningu valdsins og hvers virði það er að halda þeirri skipan en hafa það ekki eins og þessi hæstv. ríkisstjórn, að rugla þessu öllu saman, að framkvæmdarvaldið taki sér löggjafarvaldið og setji lög ofan í dóma. Þetta getur ekki gengið á okkar landi og raunar hvergi.
    Það var líka minnst á það á þessari ráðstefnu að það kæmi býsna skýrt fram að tilgangurinn helgi meðalið í þessu máli hæstv. ríkisstjórnar. Það skuli sem sagt sett númer eitt að verðbólgunni skuli haldið í skefjum, sem er út af fyrir sig gott mál. En þetta á að gera með hvaða ráðum sem er. Það þýðir, eins og hér hefur einnig komið fram hjá hv. þm. Þorsteini Pálssyni, að hjá þessari ríkisstjórn virðist það vera forsenda fyrir árangri í efnahagsmálum að fótum troða lög og reglur í landinu og almennt siðgæði. Öðruvísi
nær ríkisstjórnin hæstv. sem nú situr á Íslandi ekki neinum árangri í efnahagsmálum. Allt einkennist þetta af hroka hjá hæstv. ráðherrum.
    Látum nú vera þó að þeir séu ekki mjög fróðir í lögum. Ég man nú reyndar vel eftir því þegar þessi hæstv. ríkisstjórn var mynduð að ráðherrarnir hældu

sér alveg sérstaklega af því að í þessari ríkisstjórn sæti enginn lögfræðingur. Það getur út af fyrir sig vel gengið ef þeir hefðu vit á því, þessir hæstv. ráðherrar, að leita sér ráða hjá virtum lögfræðingum en það virðast þeir ekki gera. Það minnir reyndar á það sem líka kom fram á ráðstefnunni um siðgæði í stjórnmálum. Þar voru rifjuð upp ummæli hæstv. fjmrh. þegar félagsdómur var fallinn á sl. sumri, þá varð honum að orði: ,,Lögfræðin í félagsdómi er í efnahagslegu tómarúmi.`` Þetta var mikil speki sem kom þar fram hjá hæstv. fjmrh. en lýsir hins vegar ekki mikilli þekkingu á lögfræði. En það er önnur saga og var svo sem ekki við því að búast.
    Það var minnst hér á í dag að einn af ræðumönnunum á þessari ráðstefnu, sem ég er að vitna til, var Eiríkur Tómasson hæstaréttarlögmaður. Eftir honum voru höfð hér í umræðunum í dag ákveðin ummæli. Þau voru, ég held orðrétt, ,,að lögin væru gróft dæmi um siðferðisbrest í íslenskum stjórnmálum``.
    Þetta var einn af ráðgjöfum ríkisstjórnarinnar. Svo kemur hæstv. forsrh. hér upp og dregur þessi ummæli í efa. Hann efast um að hæstaréttarlögmaðurinn hafi viðhaft þessi orð á ráðstefnunni í gær. Það verður áreiðanlega hægt að færa sönnur á það að þessi orð féllu. Já, við búum við mjög sérkennilegt stjórnarfar í þessu landi, það er óhætt að segja það.
    Það kom fram hér þegar allur þessi áróður fór af stað að hæstv. ríkisstjórn hugleiddi í alvöru að rjúfa þing áður en þetta mál kæmi til atkvæðagreiðslu í þinginu, þ.e. þegar hún hélt og hafði ástæðu til að ætla að ekki væri meiri hluti, alla vega í Nd., fyrir afgreiðslu málsins. Hæstv. forsrh. sagði hér í umræðunum í dag að það hefði alls ekki verið ætlunin að setja þessi bráðabirgðalög að nýju. Það hefði verið allt önnur löggjöf sem þeir hefðu ætlað sér að setja.
    Mig langar til þess að spyrja hæstv. fjmrh. og hæstv. utanrrh. hvað þeir höfðu í huga þegar þeir lýstu þeirri skoðun sinni að auðvitað ætti að rjúfa þing þegar í stað og setja bráðabirgðalögin aftur í samband. Hvað meintu þeir? Þeir hafa kannski meint eitthvað allt annað en hæstv. forsrh. Það er nauðsynlegt fyrir okkur að fá að vita hvað þeir höfðu í hyggju, eða var kannski ekkert að marka þessar yfirlýsingar þeirra? Það má vel vera.
    Allt þetta ber vott um þá spillingu sem hefur verið ráðandi hjá þessari ríkisstjórn frá fyrstu tíð. Spilling í öllu sjóðasukkinu sem fór af stað um leið og ríkisstjórnin var mynduð. Spilling í áfengiskaupum. Þeir hafa þó vit á því á Grænlandi að segja af sér og efna til kosninga þegar þeim verður á á þeim brautum. Þegar þeir renna til þar. Það gerist ekki hér. Það er spilling í hinu ferðahvetjandi kerfi, eins og hæstv. forsrh. orðaði það, þegar verið var að upplýsa hér um milljónirnar sem þeir stinga í vasann alveg aukalega. Varla verður því kerfi breytt meðan þessi hæstv. ríkisstjórn er við völd. Það er spillingin nú sem fram kemur í umgengni ríkisstjórnarinnar við þingræðið, lýðræðið og dómstólana í landinu. Þessa óheillaþróun þarf að stöðva. En það verður ekki gert meðan þessi ríkisstjórn er við völd í landinu. Sjálfstæðismenn settu

fram þá kröfu að ríkisstjórnin segði af sér vegna athafna sinna í þessu máli. Svarið sem við fengum var hótun um þingrof sem þýddi auðvitað að þessi ríkisstjórn, þessi sama ríkisstjórn, gæti setið í nokkra mánuði í viðbót, laus við þingið og öll óþægindin sem fylgja því að þurfa að leggja mál fyrir Alþingi eða yfirleitt að bera mál undir aðra.
    Þessi ríkisstjórn gerði þennan tímamótasamning við BHMR. Þessi ríkisstjórn ákvað að svíkja hann og þessi ríkisstjórn lenti svo í vanda með að efna loforðið um svikin. Þá er ráðist á Sjálfstfl. og hann ásakaður um skemmdarverk. Ég veit satt að segja ekki hvað er að þeim mönnum sem svona tala. Þeir kunna vel að ná lýðhylli einhvern takmarkaðan tíma, hæstv. ráðherrar, en það dugar skammt. Fyrr en síðar mun það ljúkast upp fyrir öllum almenningi að ríkisstjórnin vann hér óhæfuverk sem hún nú vill að Alþingi leggi blessun sína yfir og staðfesti.
    Með þessum verkum sínum hefur ríkisstjórnin eyðilagt það ferli sem menn verða að starfa eftir í þjóðfélaginu og það er dæmalaust heimskuverk að haga sér þannig. Afleiðingin er sú að þeir sem verða fyrir þessum gerðum ríkisstjórnarinnar munu aldrei treysta henni í einu né neinu. Þeir munu neita að gera við hana nokkurn samning, vitandi það að samningum við hana er ekki hægt að treysta. Það verður hins vegar viðfangsefni næstu ríkisstjórnar að reisa við þann trúnað sem verður að ríkja milli ríkisstjórnar og þegnanna. Það verður ekki létt verk, sérstaklega ekki ef einhver núverandi stjórnarflokka verður í næstu ríkisstjórn og það verður alveg ómögulegt ef þeir verða þar einir. En það er jú ósk þeirra, von og keppikefli eins og allir vita af yfirlýsingum hæstv. ráðherra að undanförnu.
    Hæstv. forsrh. sagði hér í umræðunum fyrr í dag að meðferð þessa máls hefði á allan hátt verið eðlileg. Það var hans niðurstaða. Hann sagði að vísu að hann hefði talið að það hefði verið eðlilegast að kjarasamningnum hefði verið sagt upp. En þá, sagði hæstv. ráðherra, hefði fylgt fullkomin óvissa í efnahagsmálum. Með öðrum orðum, eins og ég sagði áðan, tilgangurinn helgar meðalið eins og fyrri daginn hjá þessari ríkisstjórn. Forsenda fyrir árangri í efnahagsmálum hjá þessari ríkisstjórn er að setja allar venjulegar leikreglur til hliðar. Ekki aðeins að samningsréttur sé afnuminn heldur samningar sviknir með bráðabirgðalögum sem nú er svo ætlast til að Alþingi leggi blessun sína yfir.
    Hæstv. forsrh. sagðist hafa reynt að finna vitræna skýringu á upphlaupi sjálfstæðismanna, eins og ráðherrann orðaði það. Hann taldi upp nokkur atriði sem honum fannst koma til greina sem skýring. Það var í fyrsta lagi að þessi bráðabirgðalög væru andstæða markaðshyggjunnar, sem er alveg rétt. Í öðru lagi að þjóðarsátt væri gervilausn, sem er líka alveg rétt. Og í þriðja lagi að þessi bráðabirgðalög byggðu upp stíflur, sem er líka alveg rétt. Þetta er allt saman rétt hjá hæstv. forsrh. En svo bætti hann við: ,,Þessi ríkisstjórn er bara allt annarrar skoðunar.``
    Það er dálítið merkilegt að fá það alveg beint í æð hér úr ræðustólnum frá hæstv. forsrh. hver skoðun

þessarar hæstv. ríkisstjórnar er. Það er dálítið merkilegt að heyra þetta á þeim tíma sem austantjaldsríkin hvert á fætur öðru og Sovétríkin sjálf eru að færa sig yfir til markaðshyggjunnar. Þá eru hér menn í ríkisstjórn á Íslandi sem eru að fara í alveg þveröfuga átt og hæla sér bara af því.
    Ég vil spyrja hæstv. forsrh. hvort hann hafi reynt að finna einhverja vitræna skýringu á afstöðu einstakra stuðningsmanna stjórnarinnar. Hlustaði hæstv. forsrh. á ræðu hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar? Ég veit það ekki. Það væri fróðlegt að vita. Varla ásakar hæstv. forsrh. þá hv. þm. Stefán Valgeirsson, Hjörleif Guttormsson og Geir Gunnarsson um að vera einhverja sérstaka aðdáendur markaðshyggju, hvað þá frjálshyggju, sem ég efast nú um að hæstv. forsrh. hafi hugmynd um hvað er. Út af fyrir sig væri fróðlegt að heyra útskýringar hans á því hvað er frjálshyggja. Kannski gefst okkur kostur á að heyra hans skýringar á því. Hvaða skýringar á hæstv. forsrh. á afstöðu þessara hv. þm., stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar? Þeir eru alla vega stuðningsmenn hennar stundum, að vísu ekki alltaf.
    Hæstv. bankamálaráðherra kom hér líka í ræðustól og var eitthvað að afsaka aðförina að bönkunum. Það er nú eitt dæmið um stjórnarfarið hér að þegar hagdeild Seðlabankans sendir frá sér álitsgerð sem passar ekki í kramið þá byrjar það á því að forsvarsmenn Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambandsins ganga á fund bankastjórnar Seðlabankans til þess að klaga og síðan eru bankastjórar Seðlabankans kallaðir inn á teppið hjá ríkisstjórninni. Hvað eiga svona stjórnarhættir að þýða? Maður er satt að segja alveg orðlaus á því hvað menn leyfa sér að gera hér á síðustu tímum.
    Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson flutti hér að mörgu leyti ágæta ræðu í dag. Hann sagðist vera efnislega andvígur bráðabirgðalögunum og, ég held ég hafi tekið rétt eftir, hann var líka andvígur þeirri aðferð sem viðhöfð var í þessu máli öllu. Hann tók hins vegar fram að hann hefði aldrei lýst því yfir að hann mundi greiða atkvæði gegn frv. til staðfestingar bráðabirgðalögunum, þótt, eins og ég held að hann hafi sagt, fjölmiðlar hafi eðlilega ráðið svo í mál hans. Mér fannst hann flytja ágæt rök í sínu máli en niðurstaðan hins vegar ekki vera rétt hjá honum, þ.e. að þessi rök skyldu ekki leiða hann lengra en það að sitja hjá. Mér fannst öll hans röksemdafærsla segja það að hann ætti að segja nei í atkvæðagreiðslunni um þetta mál. En það er hans mál. Hann sagðist sitja hjá og rökin voru einkum þau að hann gerði það til þess að koma í veg fyrir þingrof og að beitt yrði bráðabirgðalögum í kjölfar þingrofs.
    Þetta eru auðvitað rök út af fyrir sig en ég get ekki fallist á það að svona röksemdafærsla réttlæti það að þingmaður veiti ríkisstjórn, sem hann trúir að muni haga sér svona, stuðning. Það er röksemdafærsla sem ég get ekki samþykkt. Hv. þm. kom inn á það atriði að þessi málsmeðferð ætti að vera mönnum hvatning til að breyta reglunum um þingrofsréttinn og ég er honum alveg sammála. En hann hefði væntanlega

treyst sér til að greiða atkvæði gegn þessu frv. ef hann hefði ekki trúað því að ríkisstjórnin mundi rjúfa þing og setja bráðabirgðalögin í samband aftur ef frv. félli.
    Hv. þm. nefndi hér nokkur atriði sem ég ætla líka að koma inn á af þessu gefna tilefni. Ekki endilega tilefni ræðu hans heldur af tilefni þessara bráðabirgðalaga. Hann nefndi í fyrsta lagi að það ætti að nema úr stjórnarskránni heimildina til útgáfu bráðabirgðalaga.
    Það vill svo til að formenn þingflokka mynda nefnd að beiðni forseta Alþingis sem er að athuga með ýmsar breytingar á stjórnarskrá og þingsköpum. Þetta er einn þáttur sem þessi nefnd hefur haft til umfjöllunar, afnám heimildar til útgáfu bráðabirgðalaga. Það eru að vísu dálítið skiptar skoðanir um það í þeim hópi hvort það eigi að afnema heimildina alveg. Ég hef lýst þeirri skoðun minni áður úr þessum ræðustóli að það beri að gera en ég verð var við að það eru ekki allir á einu máli um það. En ég held ég megi segja að í þessari nefnd hafi, a.m.k. til skamms tíma, þeir sem ekki vildu afnema heimildina alveg verið tilbúnir til að ljá máls á því að þrengja hana. En ég neita því ekki að það hefur komið upp sú skoðun í nefndinni meðal allra dyggustu stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar að það sé ekki heppilegasti tíminn að gera það einmitt núna vegna þess að það yrði kannski tekið sem gagnrýni á hæstv. forsrh. Það færi nú í verra ef menn færu að lesa það út úr því að afnema heimild til útgáfu bráðabirgðalaga, menn færu að taka það sem gagnrýni á hæstv. forsrh. Það eru náttúrlega þeir sem trúa því að hann muni verða hér forsrh. um aldur og ævi. Ég er að vísu ekki í þeim hópi. En við erum að tala hér um framtíðina og ég vona eindregið að þingið muni samþykkja að breyta þessari heimild, ef ekki afnema hana þá þrengja hana mjög.
    Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson nefndi hér einnig að þetta mál sýndi þörfina á að breyta Alþingi í eina málstofu. Ég er líka sammála því og hef lýst því áður en ástæðan fyrir þeirri skoðun minni er ekki vandræðagangur ríkisstjórnarinnar í þessu máli. Það eru allt aðrar ástæður sem móta þá skoðun mína. Það er alveg sama með þingrofsréttinn. Við höfum rætt það í þessari nefnd og ég vona að það náist samkomulag um að breyta þeim reglum líka.
    Það var dálítið fróðlegt hér líka í umræðunum í dag að heyra hv. þm. Stefán Valgeirsson rekja hér raunir sínar. Hvernig nánast allt hefði verið svikið sem hann setti sem skilyrði fyrir stuðningi sínum við ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar þegar hún var mynduð haustið 1988 og hann var nú raunar guðfaðir að ásamt fleirum. Það komu fleiri þar að verki. Hann nefndi nokkur atriði sem hann hefði sett sem skilyrði en hv. þm. skiptir ekki höfuðmáli lengur fyrir ríkisstjórnina eftir að Borgfl. gekk í liðið. Hann nefndi vaxtamálin, hann nefndi jöfnun orkuverðs og hann nefndi aðild sína að fjh.- og viðskn. Allt hefði þetta verið svikið. Er þetta ekki alveg í samræmi við framhaldið á störfum þessarar hæstv. ríkisstjórnar?
    Hann sagðist hafa beðið um álitsgerð um lögmæti

bráðabirgðalaganna en því var svarað með hótunum um þingrof. En svo var hann svo heppinn að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson varð á undan með yfirlýsinguna um að hann ætlaði sér að sitja hjá og þá gat hann breytt þeirri yfirlýsingu sem hann var sjálfur að undirbúa.
    Báðir þessir þingmenn, hv. þm. Hjörleifur Guttormsson og hv. þm. Stefán Valgeirsson, ég get ekki lesið annað út úr þeirra orðum en það að þeir vildu báðir vera á móti bráðabirgðalögunum en þeir vildu jafnframt að málið færi í gegn. Þessi afstaða er býsna stórmannleg. En þessi afstaða þeirra, á meðan þeir héldu ríkisstjórninni í þeirri spennu að þeir yrðu nú kannski til þess að fella hana, fletti hins vegar ofan af hugrenningum ráðherranna og hvað þeir gátu hugsað sér að gera ef bráðabirgðalögin nytu ekki meiri hluta á Alþingi, þ.e. að rjúfa þing og gefa út bráðabirgðalögin að nýju.
    Stórmannlegri var þó afstaða hv. þm. Geirs Gunnarssonar sem eftir að farið var að spyrja hann, sem var nú
ekki gert fyrr en núna á haustdögum, hvað hann ætlaði sér að gera, hefur verið alveg staðfastur í þeim ásetningi sínum að greiða atkvæði gegn bráðabirgðalögunum. Og það staðfesti hann hér í ræðu sinni í dag.
    Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa mikið fleiri orð um þetta mál að sinni. Allur málatilbúnaður ríkisstjórnarinnar er henni til skammar og þetta er Alþingi til vanvirðu, sérstaklega ef það staðfestir þessa svikasamninga. En það má segja þó að það kunni eitthvað gott að leiða af þessu vandræðamáli ríkisstjórnarinnar, þ.e. aukinn áhugi fyrir því að Alþingi verði ein málstofa og alveg sérstaklega aukinn áhugi og stuðningur við afnám heimildar til útgáfu bráðabirgðalaga.