Launamál
Þriðjudaginn 11. desember 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Þessi umræða hefur staðið nokkuð lengi. Margt hefur verið sagt í henni og í sjálfu sér nokkuð erfitt að bæta þar einhverju nýju við. Í raun og veru má segja að þessi umræða hafi þróast upp í þrjú meginviðfangsefni. Auk þess frv. sem hér er til umræðu hefur mönnum orðið tíðrætt um stjórnskipun lýðveldisins og breytingar á henni í grundvallaratriðum og í þriðja lagi um efnahagsmálastefnuna á síðustu árum og á næstu árum.
    Ég ætla að segja hér fáein orð um þessi þrjú efnisatriði og fyrst víkja nokkuð að þeim spurningum sem hv. þm. Friðrik Sophusson bar hér fram þó hæstv. forsrh. hafi reyndar svarað þeim flestum fyrr í dag.
    Ég vil fyrst koma að þeirri síðustu sem hv. þm. Friðrik Sophusson bar fram, spurningunni um það hvort viðræður hefðu farið fram við BHMR um launamál og hvað tæki við eftir þjóðarsátt. Fyrir tveimur mánuðum síðan skrifaði ég öllum aðildarfélögum BHMR bréf og óskaði eftir því að eiga viðræður við stjórn eða fulltrúa hvers félags fyrir sig ásamt því að eiga síðan í lok þeirra viðræðna fundi með forustu BHMR. Mér fannst það ánægjulegt og jákvætt að BHMR tók þessari ósk vel og á undanförnum vikum hef ég átt fundi með fjölmörgum aðildarfélögum BHMR, sérstakan fund með fulltrúum hvers félags og mun á næstu vikum halda þeim viðræðum áfram þar til ég hef rætt við félögin öll en þau eru, ef ég man rétt, í kringum 20. Þessir fundir hafa verið langir og ítarlegir, sumir staðið í nokkra klukkutíma hver fundur og þar hefur verið rætt mjög ítarlega bæði um þau málefni sem hér ber á góma og einnig um það sem hv. þm. spurði um, hvað tæki við.
    Á þessum fundum hefur líka verið farið nokkuð mikið yfir reynslu BHMR af kjaramálum á síðustu árum vegna þess að það var nú svo þegar ég kom í fjmrn. og fulltrúar BHMR komu á minn fund að þeir fluttu mér langan fyrirlestur um það hve illa hefði gengið í fjármálaráðherratíð fyrirrennara minna, bæði hv. þm. Þorsteins Pálssonar og hæstv. núv. utanrrh. Jóns Baldvins Hannibalssonar, að koma á eðlilegum samskiptum milli fjmrn. og samningamanna BHMR. Mér finnst þess vegna nokkuð sérkennilegt að hv. þm. Þorsteinn Pálsson skuli standa hér og kunna ráð öll og hafa þau undir hverju rifi hvað snertir lausn á samskiptavandamálum á sviði kjaramála við BHMR vegna þess að þegar ég kom í fjmrn. fékk ég ítarlega lýsingu á því hve illa hefði gengið í þeim samskiptum og hve ríkulega hefði þar verið skortur á trúnaðartrausti. ( ÞP: Var ekki Jón Baldvin næst á undan þér?) Jú, ég sagði það líka, hv. þm., áðan þegar þingmaðurinn vék hér í hliðarherbergi að þegar ég kom í fjmrn. hefði ég fengið lýsingu á því af hálfu fulltrúa BHMR hve illa þessi samskipti hefðu gengið í tíð beggja fyrirrennara minna, bæði núv. hæstv. utanrrh. ( ÞP: Og breyttist það til batnaðar þegar hæstv. kom?) Ég ætla ekki að tileinka mér þann skæting sem hv. þm. gerir hér í frammíkalli sínu en ég nefni þetta hér

vegna þess að forustumönnum BHMR og félögum BHMR er það fyllilega ljóst að þeir hafa um langa hríð átt í erfiðri sambúð við forustumenn í samningamálum ríkisins og nefni þá staðreynd, sem ekki hefur komið fram hér í umræðunni, að þegar ég tók við embætti fjmrh., þá tók ég við arfi gagnkvæmrar tortryggni og trúnaðarbrests milli þessara heildarsamtaka og fjmrn. sem sköpuð höfðu verið í tíð hv. þm. Þorsteins Pálssonar og í tíð hæstv. núv. utanrrh. Þess vegna hafa þessar viðræður sem ég hef átt á síðustu vikum við einstök félög BHMR ekki bara snúist um atburði síðustu vikna og mánaða heldur hafa þær snúist um þann lærdóm sem hægt er að draga af þessari margra ára reynslu. Þar hafa samskiptin og skortur á trúnaði í tíð þeirra fjmrh. sem sátu á undan mér einnig verið ítarlega rædd. Og hver er ástæðan? Jú, ástæðan er sú að menn gera sér skýra grein fyrir því að það þarf að leita nýrra leiða til þess að tryggja að kjör háskólamenntaðra manna sem starfa á vettvangi ríkisins verði með þeim hætti að friður geti þar skapast.
    Ég hef á þessum fundum reifað ýmsar hugmyndir sem ég tel að sé gagnlegt að ræða á næstu vikum og mánuðum, t.d. að finna viðhlítandi lausnir á þeim kjaravanda sem ríkir í sambúð háskólamenntaðra manna og ríkisins. Það var ekki ætlun mín að fara að ræða þær hugmyndir hér á vettvangi þingsins. En fyrst hv. þm. Friðrik Sophusson spurði hvað tæki við, hvaða hugmyndir menn hefðu og hvort viðræður hefðu átt sér stað við einstök félög BHMR, þá vil ég hér aðeins geta nokkurra þessara hugmynda.
    Í fyrsta lagi hef ég reifað það sjónarmið í þessum viðræðum við einstök félög BHMR á undanförnum vikum að e.t.v. geti verið skynsamlegt að skapa meira svigrúm fyrir sérstaka samninga um kjör ákveðinna starfsstétta háskólamenntaðra manna hjá ríkinu í stað þess að stefna að heildarsamningi við alla eins og gert var í þeim samningi sem gerður var í lok verkfallsins langa fyrir ári síðan. Ég hef nefnt sem dæmi að í þeim samningi eftir verkfallið 1989 var ákveðið að aðeins eitt aðildarfélag BHMR, Félag dýralækna, gerði sérstakan samning um sín kjaramál eða svokallaðan sérkjarasamning eins og stundum er nefnt. Það var gerður sérkjarasamningur við Félag dýralækna, samhliða hinum almenna samningi, um vaktafyrirkomulag og vaktagreiðslu dýralækna. Þegar fulltrúar Félags dýralækna komu á minn fund, þá gerðu þeir mér ítarlega grein fyrir því að það væri einmitt þessi sérstaki kjarasamningur við dýralækna sem hefði skilað þeim árangri að nú væru dýralæknar farnir að snúa heim erlendis frá og öll héruð dýralækna væru nú setin í fyrsta sinn um langan tíma. Þetta dæmi frá því eina aðildarfélagi BHMR sem gerður var sérstakur kjarasamningur við samhliða almenna samningnum sýnir okkur kannski ásamt almennri reynslu að það getur verið
skynsamlegt að taka sérstaklega á kjaravandamálum tiltekinna starfsstétta innan BHMR í stað þess að reyna að leysa vanda allra með einni allsherjar formúlu. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að það eigi

að skoða mjög rækilega á næstunni þessa möguleika, annars vegar almennan samning og hins vegar sérstakan samning um kjör ákveðinna hópa vegna þess að það er nokkuð ljóst að t.d. skólinn er töluvert annars konar vinnustaður en ráðuneytin og stjórnarskrifstofurnar svo aðeins tvö dæmi séu nefnd.
    Önnur hugmynd, sem ég hef kynnt í þessum viðræðum við einstök félög BHMR, er aukið sjálfstæði ríkisstofnana sem fælist m.a. í því að ríkisstofnanir fengju eina upphæð á fjárlögum en hefðu þá meira sjálfdæmi til þess að ráðstafa þeim fjármunum í laun, í kjaratengd atriði, í rekstrarkostnað, í viðhald og fjárfestingu. ( HBl: Eru ekki einhver fyrirmæli?) Ég nefni sem dæmi, hv. þm., að í því fjárlagafrv. sem ég lagði hér fram á Alþingi er stigið veigamikið skref í þessa átt með því að Háskóli Íslands mun fá á næsta ári, ef fjárlagafrv. verður samþykkt í þeim búningi sem ég lagði það fram, í fyrsta skipti í sögu Háskólans nánast algert sjálfdæmi um það hvernig hann skiptir þeirri heildarupphæð sem ákveðin er í fjárlagafrv. milli ólíkra liða í útgjöldum Háskólans, launa, kjaratengdra atriða, rekstrarkostnaðar og annars. Í stað þess að í áratugi hafa fjárveitingar til Háskólans verið sundurgreindar mjög nákvæmlega í fjárlagafrv. mun nú Háskólinn sjálfur geta ákveðið hvernig hann ráðstafar þeim. Ég þekki það af þessum starfsvettvangi að það er fjölmargt sem skapar kjör háskólakennara annað og fleira en launagreiðslurnar einar.
    Þær hugmyndir um aukið sjálfstæði ríkisstofnana sem mundu gefa meira sjálfdæmi og svigrúm til lausnar á kjaravanda einstakra hópa innan ramma ríkisstofnananna sjálfra hafa verið ræddar mjög ítarlega á þessum samráðsfundum. Þar hefur margt komið fram bæði jákvætt en einnig í formi efasemda um þessa leið. En ég er sannfærður um það að hún er ein af þeim sem þarf að ræða á næstu mánuðum þegar menn huga að framtíðarskipan þessara mála.
    Þriðja hugmyndin, sem ég hef varpað fram í þessum viðræðum við einstök félög BHMR, er að gerðir verði sérstakir samningar um ákveðin svið í þjóðfélaginu, í ríkiskerfinu, þar sem fjölmennar stéttir háskólamenntaðara manna og annarra starfsmanna ríkisins eru til staðar. Þannig hefur verið talað um sérstakan skólasamning þar sem öll félög kennara --- en þau eru mjög mörg, það er Kennarasamband Íslands, Félag háskólamenntaðra kennara, Hið íslenska kennarafélag, Félag kennara við Háskóla Íslands og Tækniskólann, fóstrur og ýmsar aðrar uppeldisstéttir --- að allir þessir aðilar kæmu að einu borði þar sem rætt væri með víðtækum hætti um skólasamning sem tæki ekki bara til kaups og kjara heldur til starfshátta í skólanum og framtíðarþróunar hans. Á sama hátt mætti gera heilbrigðissamning, heildarsamning við allar heilbrigðisstéttirnar þar sem reynt væri að draga að einu borði samtök lækna, og þau eru mörg, samtök hjúkrunarfræðinga og annarra stétta sem á heilbrigðisstofnunum starfa og gera langtímasamning um þróun heilbrigðisstofnananna og kjör á þeim.
    Þessi þrjú meginatriði sem ég hef hér nefnt, í fyrsta lagi sérkjarasamningar ásamt almennum kjarasamningi, í öðru lagi aukið sjálfstæði ríkisstofnana sem fælu þeim sjálfdæmi innan ákveðins fjárhagsramma um að semja um kjaratengd atriði og fjölmargt sem snýr að afkomu og aðbúnaði starfsfólksins og í þriðja lagi heildarsamningar á ákveðnum sviðum, t.d. skólasamningar eða heilbrigðissamningar, tel ég vera þrjár meginhugmyndir sem beri að ræða á næstu vikum og mánuðum til þess að reyna að finna leiðir til að skapa viðunandi sátt og frið á þessu sviði.
    Ég gæti nefnt fjölmargt annað sem fram hefur komið á þessum viðræðufundum við einstök félög BHMR en ég ætla ekki að gera það nánar að umræðuefni hér, aðeins lýsa því yfir að ég tel að þessir fundir hafi verið gagnlegir. Ég mun halda þeim áfram. Ég mun síðan ræða við forustu BHMR um reynsluna af þessum fundum og þær hugmyndir sem þar hafa komið fram og reyna á næstu vikum og mánuðum að skapa grundvöll fyrir því að viðunandi lausn geti fundist í þessum málum.
    Ég vil einnig geta þess hér vegna þess að hv. þm. er það kannski ekki kunnugt að á vettvangi fjmrn. og hinna fjölmörgu félaga BHMR starfa með reglubundnum hætti samstarfsnefndir þar sem fulltrúar félaganna og fulltrúar samninganefndar fjmrn. og launaskrifstofu fjmrn. koma saman til þess að leysa ýmiss konar vandamál sem upp koma. Á þessum vettvangi hafa á undanförnum mánuðum farið fram fjölmargar viðræður um lausn ýmiss konar vandamála sem félögin hafa viljað ræða. Þess vegna er myndin ekki sú, sem hér hefur komið fram af hálfu ýmissa, að ekki sé reynt af minni hálfu, fjmrn. eða ríkisstjórnarinnar að þróa þessi mál áfram í jákvæðar áttir. Það er gert. Við gerum okkur vissulega grein fyrir þeirri andstöðu sem fram kemur hjá forustu BHMR gagnvart þeim bráðabirgðalögum sem sett hafa verið og hún er skiljanleg. En hún breytir því ekki að það er bæði skylda okkar og skylda þeirra að reyna að finna nýjar leiðir til þess að treysta í framtíðinni sambúðina á þessu sviði og eyða þeirri djúpstæðu tortryggni sem á sér margra ára sögu í samskiptum BHMR og opinberra samningsaðila.
    Hv. þm. Friðrik Sophusson spurði mig einnig sérstaklega að því hvað ég ætti við með þeim ummælum mínum að ég teldi að ráðherrarnir væru persónulega og pólitískt skuldbundnir af niðurstöðum samningsins, sem ég viðhafði á sínum tíma þegar samningurinn var gerður. Þau ummæli voru sett fram vegna þess að forustumenn BHMR höfðu um margra mánaða skeið, eins og ég gat um áðan, lýst því hvernig í tíð fyrirrennara minna, m.a. formanns Sjálfstfl. í fjmrn., hefði skapast slík tortryggni og erfiðleikar í sambúð BHMR við ríkisvaldið að nauðsynlegt væri að ráðherrarnir reyndu að vinna að því að samningurinn næði fram að ganga. Ég tel líka að við höfum gert það.
    Það er dálítið merkilegt að í öllu því moldviðri sem hefur verið þyrlað upp um þetta mál hefur það gleymst að fulltrúar fjmrn. og fulltrúar BHMR unnu sameiginlega að framgangi þessa samnings með árangursríkum hætti. Það voru skipaðar þrjár nefndir

samkvæmt samningnum til þess að vinna ákveðin verk. Sú sem átti að skila grundvelli að menntunarmatinu skilaði jákvæðri niðurstöðu. Sú sem átti að fjalla um ábyrgðarmatið hélt fjölmarga fundi. En þar var um mjög tæknilega flókið atriði að ræða sem fulltrúar BHMR viðurkenndu ekki síður en fulltrúar ríkisvaldsins að var engan veginn auðvelt að leysa. Og ég held að í sjálfu sér hafi ekki verið neinn ágreiningur milli BHMR og fulltrúa fjmrn. um það að vel hefði að mörgu leyti verið unnið að því erfiða verki.
    Í þriðja lagi var svo kjarasamanburðurinn sjálfur og hann var kjarnaatriðið í samningsgerðinni. En hann virðist alveg hafa gleymst í allri þessari umræðu. Þar náðu BHMR og fjmrn. fullkomnu samkomulagi um það á hvaða grundvelli sá kjarasamanburður yrði gerður. Náðu fullkomnu samkomulagi um það hvernig að honum yrði staðið og fullkomnu samkomulagi um það hverjum hann væri falinn. Þar var af báðum aðilum ákveðið að leita til ákveðins fyrirtækis, Gallups á Íslandi, til þess að framkvæma þennan samanburð. Ég ætla ekki hér að gagnrýna það fyrirtæki. En það er sameiginlegt álit BHMR og fjmrn. að það verk hafi tekið lengri tíma og reynst erfiðara í framkvæmd en forsvarsmenn þessa könnunarfyrirtækis gáfu til kynna þegar þeir tóku verkið að sér. Og það er ein meginástæðan fyrir því að vinnan við kjarnaatriðið í samningnum sjálfum hefur ekki þokast áfram eins og menn vonuðu þegar samningurinn var gerður.
    Ég nefni þetta hér vegna þess að stundum er rætt um þennan kjarasamning BHMR þannig að 4,5%, sem komu til umfjöllunar í sumar, væru kjarnaatriðin í samningnum sjálfum en svo er ekki. Kjarnaatriðið í samningnum sjálfum er samanburðurinn á milli launa á almennum markaði og hjá háskólamenntuðum mönnum í þjónustu ríkisins. Það sjónarmið sem ég setti fram við forustu BHMR í sumar í aðdraganda bráðabirgðalaganna var að skynsamlegt væri að víkja 4,5% til hliðar og halda áfram allri þeirri vinnu sem snerist um kjarasamanburðinn sjálfan vegna þess að það væri kjarnaatriðið í samningnum. Þessi 4,5% voru eingöngu refsiákvæði sem koma áttu til greiðslu ef kjarasamanburðinum væri ekki lokið. Það var viðurkennt af báðum aðilum að það var hvorki sök fjmrn. né BHMR að það fyrirtæki sem tók málið að sér hafði ekki skilað því verki sem vænst var. Þar að auki var það ljóst og vitað af hálfu beggja aðila að þegar upphæð þessa refsiákvæðis, 4,5%, var ákveðin 1989 á vormánuðum var um 30% verðbólga. Verðgildi þessara 4,5% hafði því gerbreyst. Það sem hafði breytt þessu verðgildi var m.a. árangurinn af efnahagsstefnunni og þjóðarsáttarsamningarnir. Þess vegna var það nokkuð ljóst að raungildi refsiákvæðisins var töluvert annað.
    Þess vegna er það nokkur misskilningur sem hér hefur komið fram í umræðum á þingi og utan þings að ekki hafi verið gerðar tilraunir til þess af hálfu fjmrn. eða ríkisstjórnarinnar að ræða við BHMR. Satt að segja hefur verið í gangi samfelldur viðræðuferill að einu eða öðru leyti, samfelldur samstarfsferill um fjölmörg atriði milli fjmrn., samninganefndar ríkisins, launaskrifstofu ríkisins og BHMR allan þennan tíma

og hann stendur enn. Það er sá grundvöllur sem menn m.a. byggja á til þess að halda áfram að leita lausna á þessu vandamáli.
    Ég tel að ég hafi nú svarað þeim tveimur sérstöku spurningum sem hv. þm. beindi til mín. Hæstv. forsrh. vék síðan að þeim spurningum öðrum sem voru almenns eðlis og snertu ríkisstjórnina alla í þessu máli. Ég verð að vísu að segja það að afstaða Sjálfstfl. til kjarasamninga almennt séð og lagasetningar í því sambandi er í þessum umræðum nokkuð sérkennileg í ljósi þeirrar sögu sem flokkurinn á.
    Í umræðunum hefur einnig verið vikið nokkuð að stjórnskipun landsins. Þar hafa ýmsir þingmenn sett fram hugmyndir sínar og tillögur. M.a. lýsti hv. þm. Hjörleifur Guttormsson tillögum um það að Alþingi yrði ein deild, að rétturinn til bráðabirgðalaga yrði afnuminn og þingrofsrétturinn yrði afnuminn eða takmarkaður. Ég hef löngum verið þeirrar skoðunar að allt þetta þrennt ætti að gera. Ég hef fyrir mörgum árum í stjórnarskrárnefnd lýst þessum skoðunum. En það strandaði á fulltrúum Sjálfstfl., m.a. í þeirri nefnd, að hægt væri að setja fram með breiðri samstöðu tillögur um þetta efni. ( FrS: Allt Sjálfstfl. að kenna.) Nei, nei, það er ekkert Sjálfstfl. að kenna. Ég er bara að lýsa staðreyndum málsins, hv. þm. Friðrik Sophusson. Ég fagna því hins vegar ef Sjálfstfl. er kominn á þá skoðun að það eigi að afnema réttinn til útgáfu bráðabirgðalaga. Ég hef ekki fyrr heyrt það að Sjálfstfl. væri þeirrar skoðunar. Satt að segja held ég að enginn flokkur hafi jafnoft, nema ef vera skyldi Framsfl., beitt bráðabirgðalagaréttinum. Þannig að það eru vissulega tíðindi fyrir okkur sem höfum nú, eins og ég hef gert í um það bil tíu ár, setið með fulltrúum Sjálfstfl. í stjórnarskrárnefnd lýðveldisins að heyra það hér hjá talsmönnum Sjálfstfl. að þeir séu tilbúnir að afnema í stjórnarskránni réttinn til útgáfu bráðabirgðalaga. Ég get lýst því yfir hér að ég mundi fagna því ef Sjálfstfl. væri reiðubúinn að taka undir það sjónarmið sem við margir höfum sett fram um langt árabil.
    Í stjórnarskrárnefndinni lýstum við Ragnar Arnalds líka þeirri tillögu fyrir mörgum árum síðan og höfum fylgt henni eftir um áraraðir í stjórnarskrárnefndinni að þingrofsréttinum yrði breytt á þann veg að það þyrfti samþykki meiri hluta þingsins til þess að rjúfa þingið. Ég hef ekki heldur heyrt að Sjálfstfl. sé búinn að taka undir þá stefnu en ég fagna því ef svo er. Það mun ekki standa á okkur að styðja slíka tillögu, þvert á móti. Við höfum sett hana fram árum saman og beðið eftir því að meiri hluti kynni að skapast hér á Alþingi fyrir þeirri stjórnarskrárbreytingu.
    Hvað snertir afnám deildaskiptingarinnar á Alþingi þá hafa verið mismunandi áherslur í því máli innan míns flokks eins og ýmissa annarra. Ég hef hins vegar verið þeirrar skoðunar lengi að þingið ætti að verða ein málstofa og síðan ætti að breyta starfsháttum nefnda þingsins í samræmi við það. Þær hugmyndir sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson lýsti hér og sumir hafa tekið undir eru því tillögur sem við fulltrúar Alþb. í stjórnarskrárnefnd höfum flutt þar árum saman.
    Ég tel mjög brýnt að stjórnarskrá lýðveldisins verði breytt á þennan veg vegna þess að ég tel það lið í því að treysta lýðræðislega stjórnskipun landsins og færa stjórnarhætti í samræmi við nútímaviðhorf. Það er reyndar margt annað sem ég vildi gera til viðbótar til breytinga í stjórnskipun landsins og starfsháttum Alþingis og samskiptum framkvæmdarvalds og löggjafarvalds. En ég tel ekki ástæðu til þess að rekja það hér.
    Í þriðja lagi hafa hér orðið umræður um efnahagsmál, um stöðugleika í efnahagsmálum, um vexti, um verðbólgu, um ríkisfjármál. Það er eitt sem hefur vantað í þá umræðu. Það eru tillögur Sjálfstfl. Það hefur ekki komið orð um þær. Það fór fram prófkjör hjá Sjálfstfl. í Reykjavík. Þar voru frambjóðendur spurðir, m.a. varaformaður flokksins og efsti maður nú á listanum í Reykjavík
og fjölmargir aðrir, hvort Sjálfstfl. og þeir sérstaklega mundu afnema þá skatta sem núv. ríkisstjórn hefur lagt á. Svarið hjá þeim öllum var já, já, já. Þessa skatta reikna þeir sjálfir upp á 13 milljarða. Það er halli á ríkissjóði upp á 4 -- 5 milljarða. Hér er þess vegna ríkisfjármálavandi að dómi Sjálfstfl. upp á 18 milljarða, tæp 20% af heildarútgjöldum ríkisins. Sjálfstfl. boðar það að hann ætli að viðhalda hér stöðugleika í efnahagsmálum. Þá hlýtur hann, ef hann ætlar að framkvæma þetta, að skera niður ríkisútgjöldin sem nemur þessum 18 milljörðum. Hvar á að gera það? Ekki í greiðslu vaxta og afborgana af lánum. Varla í fjárfestingunni sem er nú í sögulegu lágmarki og fjölmörg verkefni bíða og Sjálfstfl. flytur miklar tillögur um viðbótarútgjöld. Varla í tryggingakerfinu eða niðurgreiðslunum. Varla á það að gerast með því að láta það koma niður á gamla fólkinu, öryrkjunum, eða með því að hækka matvælin, kjötið og mjólkina. Eða á að gera það kannski í rekstrarútgjöldunum þar sem 70 -- 80% eru í skólunum og heilbrigðiskerfinu og meginhlutinn af því sem eftir er í lögreglunni, kirkjunni og annars staðar? Jú, jú, auðvitað getum við fundið 1, 2 og 3 milljarða hingað og þangað. Það vantar bara tillögur Sjálfstfl. og fyrr en þær koma fram blasir það við að ef Sjálfstfl. fær leyfi til að framkvæma það sem hann hefur boðað verður verðbólga hér orðin 30 -- 40% innan árs. Um það eru allir hagfræðingar sammála, bæði Þjóðhagsstofnunar og Seðlabanka, Vinnuveitendasambandsins og Verslunarráðsins, hver einn og einasti, enda hefur enginn hagfræðingur fengist til þess að koma fram og vitna um að það sé heil brú í efnahagsstefnu Sjálfstfl.
    Ef þeir menn sem tala hátt um siðferði hér í ræðustólnum í dag ætla að framkvæma það sem þeir lofuðu kjósendum sínum í Reykjavík --- eða ætlar kannski hv. þm. Friðrik Sophusson að svíkja það? Ætlar borgarstjórinn í Reykjavík að láta verða sitt fyrsta verk á Alþingi að svíkja það? Ætlar Eyjólfur Konráð Jónsson, sem fagnaði góðum árangri í prófkjörinu, að svíkja það? Sá eini sem hafði manndóm og vit til að segja ekki skilyrðislaust já var hv. þm. Geir Haarde. ( FrS: Þetta er allt saman rangt.) Allt

saman rangt. ( FrS: Ég mun fara yfir það á eftir.) Það er ánægjulegt ef hv. þm. vill lesa hér upp svar borgarstjórans í Reykjavík. Það voru bara tveir stafir, joð og á, við þessari spurningu. Og það væri líka fróðlegt ef hv. þm. læsi upp svar hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar því að hann gerði gott betur. Hann sagðist ekki bara ætla að afnema skatta þessarar ríkisstjórnar heldur líka skattana sem settir voru á í tíð ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar og þá var hann kominn með vandann upp í 25 milljarða. Þessir menn tala svo hér um siðferði.
    Þessir menn tala svo um það að vextirnir séu of háir. Hvað halda þeir að þeir verði ef efnahagsstefna Sjálfstfl. fengi hér framgöngu eins og þeir boða hana? Ég spurði hv. þm. Eyjólf Konráð Jónsson að því í Ed. fyrir nokkrum vikum síðan í hverju þessi stefna fælist. Jú, svar hans var mjög einfalt. Það var á þessa leið: Það er allt í lagi að lækka skattana um 18 milljarða vegna þess að þá kemur svo mikil framleiðsluaukning í hagkerfið að ríkið fær til sín miklu meira til baka sem dugir bæði til að vega upp þessa skattalækkun og vega upp tolla. Þetta var það sem frændi hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar, Ronald Reagan, forseti Bandaríkjanna, trúði og þessi stefna var prófuð þar. Og hún leiðir til mestu efnahagskreppu í sögu Bandaríkjanna á undanförnum áratugum. Kreppu sem gerir það að verkum að þingið og forsetinn engjast nú frá einum mánuði til annars um hvernig á að leysa þetta vandamál. Sjálfstfl. hefur nefnilega ekki lagt fram neina stefnu aðra en þessa. Það er þessi stefna sem OECD fordæmir svo rækilega í skýrslunni sem hér var til umræðu sl. vor. Og það er þessi stefna sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn varar Íslendinga við að taka upp aftur.
    Auðvitað er hægt að finna fjölmargt athugavert og sem þarf að bæta í núverandi efnahagsástandi. Það verður hins vegar ekki hægt að segja annað, hvað margar ræður sem hv. þm. Sjálfstfl. flytja hér, en að á tveimur árum eftir að við komum inn í ríkisstjórn, Framsfl. og Alþfl. breyttu um stefnu frá þeirri stefnu sem ríkti í sambúð þeirra og Sjálfstfl., hefur tekist að snúa efnahagsmálunum frá því hruni sem blasti við á haustmánuðum 1988 í mesta og traustasta stöðugleikaástand sem hér hefur skapast í 30 ár. Það væri hægt að leiða marga menn til vitnisburðar um það. Og auðvitað er það það sem er erfiðast fyrir Sjálfstfl. að upphlaupið hér fyrir nokkrum dögum síðan, frumraun borgarstjórans á vettvangi þingmálanna, tillaga hans um það hvernig ætti að meðhöndla bráðabirgðalögin leiddi til þess að forustumenn í atvinnulífi, stjórnendur fyrirtækjanna, forsvarsmenn í launamálum fólksins í landinu, ábyrgðarmenn í efnahagsmálum, þeir sem vilja trausta hagstjórn velta nú þeirri spurningu fyrir sér: Er hægt að taka áhættuna af því að hleypa Sjálfstfl. að aftur? Er hægt að treysta þessum mönnum? Og maður les efasemdirnar úr augunum og orðunum á heittrúuðum sjálfstæðismönnum sem hafa hingað til trúað því að hin heilaga pólitíska þrenning, Sjálfstfl., Morgunblaðið og atvinnulífið, væri það hornbjarg sem ætti að byggja íslenskt þjóðfélag á.

    Hverjir voru raunvextirnir á ríkispappírunum þegar hv. þm. Þorsteinn Pálsson var fjmrh.? Voru þeir ekki 10%? 10% raunvextir á spariskírteinum ríkisins þegar hv. þm. Þorsteinn Pálsson var fjmrh. Hvað eru þeir núna? Þeir eru 6% og skírteinin seljast á frjálsum markaði mjög vel. Spariskírteini ríkisins með 6% raunvöxtum á frjálsum markaði. Er markaðurinn ekki óháður dómari? Jú. Hann hefur kveðið upp þann jákvæða sanngirnisdóm sem sýnir skýrt hvaða þáttaskil hafa orðið hér í efnahagsstjórninni.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að nota meiri tíma hér til þess að fara almennt út í stöðu efnahagsmála en ég gerði það hins vegar vegna þess að með réttu sagði hv. þm. Þorsteinn Pálsson: Spurningin um samhengi milli ríkisfjármála annars vegar, peningamála og stöðugleikans hins vegar er lykilspurningin í íslenskri efnahagsstjórn á næstu árum. Og þar hefur Sjálfstfl. ekki enn skilað neinu sannfærandi svari. Það eina svar sem hefur verið reitt fram er álíka ábyrgðarlaust og afstaða Sjálfstfl. í því máli sem hér er til umræðu.