Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Þriðjudaginn 11. desember 1990


     Halldór Blöndal :
    Herra forseti. Þetta frv. hér er auðvitað athyglisvert, einkum fyrir þá sök að það fjallar um tvö efnisatriði sem voru rækilega tekin til umræðu á síðasta þingi þegar frv. til laga um virðisaukaskatt var til umræðu.
    Ég vil fyrst víkja að 1. gr. frv. Á þskj. 326 lögðum við, ég og hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson, til að í 17. gr. kæmi ,,1. sept.`` fyrir ,,16. nóv``. Þingið felldi þetta og þar með hafði þingið lýst því yfir að það gæti ekki fallist á þessa dagsetningu, 1. sept. Ég get ekki borið hæstv. fjmrh. það á brýn að hann hafi fellt brtt. okkar sjálfstæðismanna, sem við og Kvennalistinn stóðum að, vegna þess að hæstv. fjmrh. hefur ekki atkvæðisrétt í þinginu. Að öðrum kosti hefði hann vitaskuld tekið þátt í því að fella þessa tillögu Sjálfstfl. og Kvennalista á síðasta þingi. En hann sagði sínum stuðningsmönnum að fella tillöguna.
    Það er auðvitað mikið álitaefni, þótt ríkisstjórn hafi bráðabirgðalagavald, hvort henni sé heimilt að breyta skattalögum á þann veg sem Alþingi hefur áður hafnað. Ég hygg að þetta sé mjög hæpið. Ég hygg á hinn bóginn að þetta sé mjög algengt um þá ríkisstjórn sem nú situr. Hún hefur oftar en í þetta eina skipti hopað, hvikað frá fyrra ásetningi af ótta við almenningsálit. Í þetta skipti stóðu sakir þannig að nemendur í skólum landsins höfðu gert ríkisstjórninni fulla grein fyrir því að þeir mundu ekki una því að greiða virðisaukaskatt af skólabókum sínum á þessu hausti, 1. sept. Í framhaldsskólum landsins lá fyrir skýr yfirlýsing um að nemendur mundu ekki festa kaup á kennslubókum sínum fyrr en ríkisstjórnin hefði gefið sig. Frá flestum eða kannski öllum framhaldsskólum landsins bárust bréf til ríkisstjórnarinnar og til alþingismanna þar sem þessi krafa var áréttuð, að hið unga fólk sætti sig ekki við að ríkisstjórnin hefði það þannig að féþúfu.
    Ég vil, herra forseti, sérstaklega óska eftir því við þessa umræðu núna að hæstv. fjmrh. láti okkur í fjh. - og viðskn. í té þær upplýsingar, sem embættismenn hans létu okkur fá á sl. vori, um þær miklu tekjur sem ríkissjóður yrði af ef dagsetningin 1. sept. yrði valin í staðinn fyrir 16. nóv. Jafnframt vil ég biðja hæstv. fjmrh. að láta nefndinni í té hvernig honum hafi tekist að vinna upp þennan tekjumissi. Ég veit að vísu að hallinn á fjárlögum er miklu meiri en gert hafði verið ráð fyrir. Ég veit líka að hæstv. fjmrh. hefur viðurkennt að hallinn sé vaxandi frá einum mánuði til annars. Ég veit enn fremur að hæstv. fjmrh. neitaði að viðurkenna ýmsa útgjaldaliði sem bendir til að ekki séu öll kurl komin til grafar. Á fundi fjh. - og viðskn. í gærmorgun þegar fjallað var um lánsfjárlög kom fram hjá starfsmanni Lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna að fjárlagahallinn yrði 600 -- 700 millj. hærri en fjmrh. vill viðurkenna vegna beinna aðgerða hæstv. fjmrh. í sambandi við skuldbindingar gagnvart opinberum starfsmönnum og byggingarsjóðum ríkisins. Það er nú annað mál.
    Aðalatriðið er, svo gott sem það er, að fjmrh. hætti

við að hafa námsmenn að féþúfu. En hitt auðvitað bölvað að það skuli gerast með þeim hætti að ríkistjórnin nánast ýti til hliðum beinum fyrirmælum Alþingis, sem að vísu voru gefin af stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar. Við í stjórnarandstöðunni gagnrýnum ekki að deginum skyldi flýtt, síður en svo. Við gagnrýnum þau vinnubrögð sem ráðherrann hefur.
    Líka gagnvart því sem segir í 2. gr. frv. þar sem talað er um að endurgreiða eigendum íbúðarhúsnæðis virðisaukaskatt sem þeir hafa greitt af vinnu manna við endurbætur eða viðhald þess. Þetta sérstaka atriði var tekið upp mjög rækilega í fjh. - og viðskn. Við fórum aftur og aftur yfir þetta atriði með fulltrúum hæstv. fjmrh. Þeir höfnuðu þessu á þeim grundvelli að ógerningur væri að framkvæma lögin með þessum hætti af því að þau fælu í sér slíka hættu á skattsvikum að þetta gæti ekki gengið upp. Undanþága af þessu tagi gengi ekki. Við vorum að vísu þeirrar skoðunar að skattsvikin yrðu meiri ef lagagreinin yrði eins og hún var samþykkt hér í þinginu.
    Nú vil ég líka biðja hæstv. fjmrh. um að sjá til þess að þeir sömu embættismenn og hann sendi nefndinni í fyrra mæti í nefndinni núna og færi fram öll þau rök sem þeir færðu fram sl. vor á móti þeim hugmyndum sem hér komu fram. Öll þau rök, þannig að við getum nú rifjað upp hvað var á móti þessum tillögum þá.
    Ég þarf ekki að minna á það, herra forseti, að Landssamband iðnaðarmanna hefur svo árum skiptir beitt sér fyrir því að margvíslegar aðgerðir yrðu gerðar til þess að reyna að sporna við því sem kallað hefur verið ,,svört vinna``. Eitt sem þeir hafa bent á í því sambandi er að vinna við endurbætur og viðhald húsa verði frádráttarbær frá tekjuskatti. Rökin fyrir því að þessi frádráttarliður var á sínum tíma felldur niður voru þau að tekjuskattur hafði verið lækkaður mjög verulega. Þetta var á þeim árum þegar tekjuskattur var greiddur eftir á og verðbólga var einlægt vanáætluð í fjárlagafrv.
    Nú erum við með staðgreiðslu. Nú er svo komið að tekjuskattur er 45% af tekjum manna þegar komið er yfir visst lágmark, skattleysismörkin eiginlega orðin mjög lág. Með lífeyrissjóðsgjaldi og stéttarfélagsgjaldi er sem sagt 45% tekið af launþegum. Þá er komin upp sú staða að hinn venjulegi launamaður verður að spyrja sig tvisvar áður en hann framkvæmir nauðsynlegt viðhald eða endurbætur. Einfaldlega vegna þess að hann hefur ekki efni á því að greiða fyrir verkið eins þung og skattheimtan er orðin.
    Það kemur auðvitað mjög til álita hvort rétt sé að taka það ákvæði upp á nýjan leik að viðhaldið verði frádráttarbært við álagningu tekjuskatts. Það má hafa það til endurskoðunar. En hinu ber að fagna að ríkisstjórnin skuli ekki hafa treyst sér til annars en að viðurkenna nauðsyn þess að eigendur íbúðarhúsnæðis eigi rétt á endurgreiðslu virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna við endurbætur eða viðhald þess. Báðar þessar breytingar eru auðvitað til bóta. En ég ítreka, herra forseti, að hér er einungis verið að koma fram þeim málefnum sem stjórnarandstaðan lagði áherslu á á sl. vori. Þetta er kannski ekki í eina skiptið sem við verðum vör við að ríkisstjórnin og stuðningsmenn hennar eru lengi að hugsa. Það tók hálft ár í þessu tilviki að átta sig. Við skulum vona að ríkisstjórnin átti sig stundum fljótar á því þegar verið er að reyna að leiðbeina henni.