Húsnæðisstofnun ríkisins
Miðvikudaginn 12. desember 1990


     Salome Þorkelsdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég ásamt hv. 14. þm. Reykv., sem erum fulltrúar Sjálfstfl. í félmn. Ed. sem hefur haft þetta mál til umfjöllunar, höfum bæði skrifað undir nál. Við töldum ekki ástæðu til annars en að samþykkja þetta frv. með þeim breytingum sem gerðar eru og koma fram á þskj. 264, brtt. sem þar eru lagðar fram, og byggjast á þeim umræðum og umsögnum sem fram komu í nefndarstarfinu.
    Eins og kom fram í máli hv. 6. þm. Vesturl. eru margir óvissuþættir í þessum málum og það kom greinilega fram hjá þeim aðilum sem komu á fund nefndarinnar og í umfjöllun þar að það væru ýmsar athugasemdir varðandi það að koma á þessu sem gert er ráð fyrir að bæta við í sambandi við húsbréfin með þessu frv. Það var kannski fyrst og fremst það að menn töldu þetta ekki vera tímabært vegna þess að húsbréfakerfið hafi ekki náð þeirri fótfestu sem æskilegt og nauðsynlegt er. Það þurfi betri fótfestu og starfsmenn Húsnæðisstofnunarinnar þurfi lengri tíma til að aðlaga sig þessu breytta kerfi. Það kom fram t.d. hjá formanni Félags fasteignasala að það væri ýmislegt sem skapaði óvissu í hugum fólks eins og t.d. vaxtabreytingin. Hann gerði athugasemdir við að hún hefði verið vanhugsuð og óheppileg og umræðan sem hafi orðið um afföllin á húsbréfunum hafi líka verið óheppileg. Og hann talaði um að það væri mikill hringlandaháttur í þessum málum sem ekki væri af hinu góða.
    Hér er náttúrlega um viðkvæmt mál að ræða eins og við þekkjum öll og við viljum auðvitað stuðla að því að sem best verði staðið að þessum málum sem varða hvern einstakling og hverja fjölskyldu í landinu. Það hafa svo margar spurningar vaknað upp þegar verið er að breyta lögum um húsnæðismálin að það væri kannski að æra óstöðugan að fara að rekja það upp og tína það allt til einu sinni enn eins og hefur nú oft verið gert. En umsagnir varðandi þetta frv. snúa í raun og veru allar að þessu. Það er tímasetningin.
    Það er hins vegar önnur stór spurning sem óneitanlega vaknar núna þegar verið er að fjalla einu sinni enn um húsnæðismálin og það er staða byggingarsjóðanna, uppsprettu húsnæðislánanna. Ég hef skilið það svo að það vanti núna 1100 millj. kr. vegna eiginfjárstöðu byggingarsjóðsins og er þá miðað við að engin ný lán verði veitt. Þetta er aðeins umfram þau lánsloforð sem veitt hafa verið. Þess vegna vaknar sú spurning hvernig hugsanlega er hægt að leysa þessi mál. Ég verð, hæstv. forseti, að óska eftir því að fá hæstv. félmrh. hér inn og svara fyrir það hvernig hún eða hæstv. ríkisstjórn hefur hugsað sér að
leysa þessi mál með tilliti til þess að við erum nú að fjalla um fjárlagafrv. Ég veit ekki betur en að 2. umr. þess verði á morgun og þess vegna leikur mér forvitni á að heyra hennar viðhorf til þess hvernig þessi mál verði leyst á stjórnarheimilinu. ( Forseti: Ég mun þá þurfa að biðja hv. ræðumann að fresta þessu og við tökum þá fyrir annað mál. Ráðherra mun vera

bundinn í atkvæðagreiðslu í Nd.) Er reiknað með að það taki langan tíma? ( Forseti: Það er sjálfsagt að fresta þessari umræðu.) Já, þá mun ég gera það, hæstv. forseti. Ég vil endilega nota þetta tækifæri til þess að leggja eina litla spurningu fyrir hæstv. félmrh. sem getur skipt miklu máli.