Lánsfjárlög 1990
Miðvikudaginn 12. desember 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingar á lánsfjárlögum fyrir árið 1990. Í frv. er lagt til að heimild ríkissjóðs til innlendrar lántöku á þessu ári verði aukin úr rúmum 6 milljörðum í rúma 12 milljarða. Auk þess eru í frv. heimildir fyrir fjmrh. til að endurlána Alþjóðaflugþjónustunni 180 millj. kr. og Lánasjóði ísl. námsmanna 450 millj. kr.
    Ástæða þess að nú er leitað eftir viðbótarheimildum til innlendrar lántöku ríkissjóðs liggur fyrst og fremst í því að innlend lánsfjáröflun hefur gengið það vel á árinu að ástæða þykir til að reyna að fjármagna halla ríkissjóðs að fullu hér innan lands, auk þess sem innlends fjármagns verður aflað til að greiða erlendar afborganir ríkissjóðs og yfirdráttarskuld ríkissjóðs hjá Seðlabankanum um síðustu áramót. Af 6 milljarða króna aukinni innlendri lántöku má rekja rúman helming, eða 3,4 milljarða, til þeirrar ákvörðunar að greiða yfirdrátt ríkisins í Seðlabankanum og erlendar afborganir og afborganir af lánum í Seðlabankanum með innlendu lánsfé. Um 1,2 milljarða kr. má rekja til lánahreyfinga þeirra auknu endurlána til LÍN sem hér er leitað heimilda fyrir svo og 928 millj. kr. útgáfu spariskírteina vegna skuldbreytinga í tengslum við uppgjör ríkissjóðs við Íslandsbanka vegna gamla Útvegsbankans. Að lokum má svo rekja 1,4 milljarða kr. eða tæplega fjórðung upphæðarinnar til aukins rekstrarhalla ríkissjóðs frá því sem gert var ráð fyrir í fjárlögum eftir að þeim var breytt í framhaldi af kjarasamningum í febrúar sl.
    Gert er ráð fyrir að 180 millj. kr. endurlán til Alþjóðaflugþjónustunnar verði fjármagnað með erlendri lántöku, enda er hér um að ræða stofnkostnað sem íslenska ríkið leggur út fyrir en fær síðan endurgreiddan með vöxtum á tíu árum frá Alþjóðaflugmálastofnuninni. Aukna lánsfjárþörf Lánasjóðs ísl. námsmanna má rekja til fjölgunar lántakenda hjá sjóðnum annars vegar og hins vegar til þess að áformaður sparnaður á móti hærri framfærsluviðmiðun hefur ekki gengið eftir nema að hluta, m.a. vegna þess að tekjur námsmanna sl. sumar voru minni en gert var ráð fyrir.
    Samkvæmt frv. þurfa innlendar lántökur ríkissjóðs á þessu ári að nema 12 milljörðum 650 millj. kr. Þar af stafa 928 millj. kr. af skuldbreytingum í tengslum við uppgjör Útvegsbankans eins og ég rakti hér áðan.
    Ríkissjóður þarf því að afla sér 11,7 milljarða kr. á almennum innlendum lánsfjármarkaði. Nú þegar hafa spariskírteini verið seld eða bindandi kaupsamningar verið gerðir fyrir 7,3 milljarða kr. Ef uppfylla á það sem eftir er af lánsfjárþörfinni á ríkisvíxlamarkaði þurfa þeir að seljast fyrir um 4,4 milljarða króna umfram innlausn frá síðustu áramótum og yrði þá ríkisvíxlastofninn tæplega 10,5 milljarðar kr. um næstu áramót. Góðar líkur eru taldar á því að þetta muni takast. Lífeyrissjóðir og bankar hafa gegnt miklu hlutverki við að fjármagna lánsfjárþörf ríkissjóðs innan lands í ár. En ekki má gleyma hlutverki hins almenna manns sem sparar litlar upphæðir í einu.
    Sú merkilega breyting hefur átt sér stað að nú hafa

um 8500 einstaklingar gerst áskrifendur að spariskírteinum ríkissjóðs. U.þ.b. 70 millj. kr. koma inn í áskriftum á hverjum mánuði og fer sú upphæð vaxandi. Sá mikli fjöldi manna, 8500 manns, sem hefur á einu ári gerst áskrifandi að spariskírteinum ríkisins er mikil traustsyfirlýsing af hálfu almennings í landinu við það sparnaðarform sem felst í spariskírteinum ríkissjóðs.
    Virðulegur forseti. Ég mælist svo til þess að að lokinni 1. umr. verði þessu máli vísað til hv. fjh.- og viðskn.