Húsnæðisstofnun ríkisins
Miðvikudaginn 12. desember 1990


     Salome Þorkelsdóttir (frh.) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir að hafa komið hér inn til þess að verða við beiðni minni og svara lítilli fyrirspurn sem mig langar til að leggja fyrir hana. Hún er ekki löng en hún skiptir miklu máli.
    Eins og ég benti á eru ýmsar spurningar sem vakna varðandi húsnæðismálin og stöðu byggingarsjóðanna eins og þeim er nú komið. Við erum hér að ræða um húsbréfakerfið og ég hafði bent á að það kom mjög skýrt fram hjá ýmsum sem komu á fund nefndarinnar að þetta væri ótímabær ráðstöfun sem hér væri verið að leggja til. Samt sem áður treystum við okkur ekki til annars en að stuðla að því að þetta frv. nái fram að ganga því, eins og fram kom hér í máli hv. 6. þm. Vesturl., það á að leysa vanda t.d. á annað hundrað aðila sem bíða eftir lausn sem eru greiðsluerfiðleikalánin. Það mætti náttúrlega spyrja sig hvers vegna ekki er búið að leysa vanda greiðsluerfiðleikalána fyrir löngu með öðrum hætti í stað þess að nota nú húsbréfakerfið sem verður, t.d. að mati fasteignasala, viðbót á markaðinn. Og var nú í huga ýmissa vafamál hvort þetta yrði til þess að leysa þeirra vanda.
    En ég ætla ekki að fara ítarlegar út í þau mál. Það voru hins vegar aðrar spurningar í mínum huga sem mig langar til að beina til hæstv. ráðherra og snúa að lánum Byggingarsjóðsins. Eftir því sem mér hefur skilist vantar 1100 millj. kr. umfram lánsloforð, þ.e. þrátt fyrir það að engin ný lán verði veitt, til þess að bæta eiginfjárstöðu sjóðsins. Samkvæmt fjárlagafrv. eru engar tölur þar inni og það er ekki hægt annað en að rifja upp það sem gerðist hér í haust eða síðsumars þegar skýrt kom fram í fjölmiðlum sú mikla óánægja og ósætti innan ríkisstjórnarinnar og félmrh. hins vegar gagnvart því hvernig hugað væri að þessum málum. Því langar mig til að spyrja hana hvort búið sé að finna lausn á því máli, með tilliti til þess sögulega samkomulags sem hún og formaður Alþfl., hæstv. utanrrh., gerðu á sínum tíma og var nú vel tíundað í fjölmiðlum. Þ.e. að hún ætlaði sér ekki að styðja fjárlagafrv. nema hún fengi það fjármagn sem hún teldi sig þurfa í byggingarsjóði. Og einnig þær yfirlýsingar hæstv. ráðherra um að hún mundi ekki styðja fjárlagafrv. nema að tryggt væri fjármagn í sjóðinn eftir því sem hún gerði kröfu til.
    Nú stendur til að 2. umr. um fjárlagafrv. fari fram á morgun eftir því sem ég best veit. Þess vegna finnst mér ástæða til að spyrja núna hvaða tölu við megum vænta að sjá inni í frv. hvað varðar þessi atriði. Það skiptir náttúrlega gífurlega miklu máli, ekki bara fyrir hæstv. félmrh. heldur almennt, hvaða trygging verði veitt varðandi þessi mál sem snúa að svo mörgum.
    Þetta langaði mig til að heyra af vörum hæstv. ráðherra, hvort þessar sögulegu sættir milli hennar og formanns Alþfl. hafi verið leystar í raun. Hvernig verður staðan þegar fjárlagafrv. verður afgreitt í þinginu og mun hún geta staðið að þeirri afgreiðslu?