Húsnæðisstofnun ríkisins
Miðvikudaginn 12. desember 1990


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég gat því miður ekki verið við upphaf þessarar umræðu þar sem ég var á bundin við atkvæðagreiðslu í Nd. Mér skilst að hér hafi verið beint nokkrum fyrirspurnum til mín varðandi það frv. sem við ræðum hér og þær brtt. sem liggja fyrir frá hv. félmn.
    Þær brtt. sem eru lagðar fram við þetta frv. af hálfu nefndarinnar eru komnar frá húsnæðismálastjórn eftir umfjöllun hennar um þetta frv. Ég er í meginatriðum sammála þeim brtt. sem húsnæðismálastjórn lagði fram og nefndin flytur. Mér skilst að hér hafi sérstaklega verið spurst fyrir um 3. tölul. þeirra brtt. sem nefndin leggur fram sem orðast svo, með leyfi forseta: ,,Greiðslubyrði umsækjanda sé að jafnaði yfir 30% af áætluðum heildarlaunum hans á ári næstu fjögur árin. Eftir skuldabréfaskiptin verði greiðslubyrðin að jafnaði um 20% af heildarlaunum hans.``
    Spurt er hvað liggi að baki þessum tölum. Hér er um að ræða viðmiðanir sem húsnæðismálastjórn eða ráðgjafarstöðin hefur lengi haft varðandi
allar umsóknir um greiðsluerfiðleikalán. Þá er miðað við að greiðslubyrði umsækjenda sé að jafnaði yfir 30% og að ekki sé veitt greiðsluerfiðleikalán með öðrum hætti en þeim að eftir standi að viðkomandi greiði a.m.k. sem samsvarar að jafnaði 20% af heildarlaunum hans. Þetta eru ákveðnar viðmiðanir sem hafa verið notaðar hjá ráðgjafarstöðinni sem ráðgjafarstöðin og húsnæðismálastjórn telja rétt að hafa varðandi þær breytingar sem hér eru gerðar á húsbréfakerfinu og greiðsluerfiðleikalánum. Hér er um að ræða að ekki verði skuldbreytt meiru en þarf fyrir viðkomandi einstakling þannig að hann geti leyst sín mál. Er miðað við neðri mörkin, 20%, og við efri mörkin um að skuldir hans séu að jafnaði yfir 30% af áætluðum heildarlaunum til þess að hann komi til greina til þess að njóta þeirrar fyrirgreiðslu eða ákvæða sem eru í þessu frv.
    Mér skilst að hér hafi verið sett fram spurning um fræðslu til fasteignasala vegna húsbréfaviðskipta. Fræðsla hefur farið fram, fór fram strax í upphafi þegar húsbréfakerfið tók gildi. Fyrir réttu ári síðan var haldið námskeið með fasteignasölum og nýverið hefur einnig verið haldið námskeið með fasteignasölum þegar til framkvæmda komu ákvæðin um að nýbyggingar kæmu inn í húsbréfakerfið.
    Varðandi þær fyrirspurnir sem hv. þm. Salóme Þorkelsdóttir setti hér fram þá vörðuðu þær almennt stöðu Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna og hvað til þeirra er ætlað á fjárlögum og hvað ríkisstjórnin hyggist fyrir til þess að bæta greiðslustöðu þessara sjóða. Því er til að svara að málefni bæði Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna hafa verið til umfjöllunar hjá ríkisstjórninni. Hafa verið skoðaðar þar ákveðnar leiðir til að bæta greiðslustöðu Byggingarsjóðs ríkisins, til að mynda með tilliti til þeirra ákvæða sem nú eru í lögum um greiðslujöfnun fasteignaviðskipta sem bentu til þess að settu ákveðnar hömlur á ef farið væri út í

vaxtabreytingar á þegar teknum lánum þannig að slíkar vaxtabreytingar mundu ekki skila sér í bættri greiðslustöðu sjóðsins heldur einungis leggjast við höfuðstól lánsins og ekki koma til greiðslu fyrr en í lok lánstímans og þar með ekki mynda vaxtabætur. Ríkisstjórnin hefur verið að láta skoða þessa leið og ég hef verið að láta athuga það lögfræðilega hvaða leiðir væru færar ef út í þetta yrði farið. Þær niðurstöður liggja nýverið fyrir og til þingflokkanna hafa verið sendar núna þær leiðir sem mögulegar eru varðandi vaxtabreytingar. Ég hef einnig óskað eftir því að þingflokkarnir tækju afstöðu bæði til vaxtabreytinga og eins þess hvort samstaða gæti tekist um lokun á lánakerfinu frá 1986. Ef ekki væri fallist á lokun af hálfu þingflokkanna var óskað eftir því að þeir tækju þá afstöðu til þess hvernig það lánakerfi skuli starfa áfram og hvernig eigi að fjármagna það.
    Það koma, eins og þingmenn vita, tvær leiðir til greina til þess að bæta skuldastöðu Byggingarsjóðs ríkisins. Í fyrsta lagi með ríkisframlagi. Í annan stað með vaxtahækkunum eða vaxtabreytingum en í þriðja lagi væri hægt að fara þá leið að til kæmi bæði ríkisframlag og vaxtabreytingar. Allar þessar leiðir sem hafa verið til athugunar í ríkisstjórninni eru nú til skoðunar hjá þingflokkunum. Í síðustu viku voru lagðir fyrir stjórnarflokkana ákveðnir valkostir í því sambandi og óskað eftir að í þessari viku lægi fyrir afstaða þingflokkanna til þeirra kosta sem uppi eru til að bæta stöðu Byggingarsjóðs ríkisins. Ég hef ekki haft spurnir af afstöðu þingflokkanna í þessu máli en ég vona að þær geti legið fyrir í þessari viku.
    Varðandi Byggingarsjóð verkamanna lá það fyrir að ekki væri hægt að ráðast í frekari nýframkvæmdir á næsta ári í félagslegum íbúðum nema til kæmi viðbótarfjármagn inn í Byggingarsjóð verkamanna. Ríkisstjórnin hefur rætt tillögu þar að lútandi að heimilað verði að veita lán til byggingar 500 nýrra félagslegra íbúða á næsta ári sem fjármagnaðar verði með hækkun á ríkisframlagi frá því sem nú er í frv. til fjárlaga. Jafnframt verði heimilað að leita eftir skuldabréfakaupum hjá lífeyrissjóðunum í þessu skyni.
    Fundir hafa verið haldnir með lífeyrissjóðunum til þess að kanna afstöðu þeirra, hvort þeir væru tilbúnir í að veita frekara fjármagn úr lífeyrissjóðunum umfram skyldukaupin til þessa verkefnis, að heimila framkvæmdir á 500 nýjum félagslegum íbúðum. Viðbrögð þeirra hafa verið jákvæð við þessu og vænti ég að lífeyrissjóðirnir muni koma inn í það mál og að einnig verði á fjárlögum viðbótarfjármagn sem dugi til þess að hægt verði að fjármagna 500 nýjar félagslegar íbúðir á næsta ári. Ég vænti þess að þetta hafi svarað fyrirspurn hv. þm.