Húsnæðisstofnun ríkisins
Miðvikudaginn 12. desember 1990


     Salome Þorkelsdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég vil aðeins þakka hæstv. félmrh. fyrir þær upplýsingar sem hún gaf hér. Hún lauk ræðu sinni með því að segja að hún vænti þess að hún hefði svarað þeirri fyrirspurn sem ég lagði fyrir hana. En ég verð nú að segja eins og er að mér fannst ekki koma beint svar við því sem ég var að spyrja um því mér finnst það liggja í þeim upplýsingum sem hún gaf hér að það sé engan veginn ljóst hvernig verði staðið að þessu máli. Þetta liggur fyrir, það er beðið afstöðu þingflokkanna, þetta liggur í þingflokkunum --- og þegar talað er um þingflokkana þá er að sjálfsögðu ekki átt við þingflokka stjórnarandstöðunnar heldur stjórnarliðsins --- og hún væntir þess að þetta og hitt verði gert. Ég skil það þá þannig að hennar afstaða til þess hvort hún standi að afgreiðslu fjárlagafrv. sé háð því hvort þessi skilyrði verði uppfyllt sem hún tæpti á í sinni ræðu. Það var þetta væntanlega og ég vænti þess sem kom svo skýrt fram í hennar máli og segir okkur að það er engan veginn ljóst hvernig þessi mál verði til lykta leidd eins og þau standa í dag.
    En það var eitt atriði sem ég gleymdi að spyrja hæstv. ráðherra beint um og það er niðurlag bréfs húsnæðismálastjórnar. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta, það er fjórði liðurinn: ,,Samþykkt þessa frv. mun leiða af sér mjög aukið vinnuálag í Húsnæðisstofnun ríkisins, sérstaklega hvað varðar tímafreka úrvinnslu greiðsluerfiðleikalána. Því má gera ráð fyrir þörf stofnunarinnar fyrir fjölgun starfsmanna meðan þau mál ganga yfir.``
    Ég vil þá spyrja hæstv. félmrh. að því hvort gert sé ráð fyrir því að fjölga starfsmönnum eða með hvaða móti eigi að leysa þennan vanda starfsmanna stofnunarinnar sem ég veit að eru allir af vilja gerðir að greiða sem best fyrir þeim sem þangað þurfa að leita. En eins og fram kom og ég gat um í minni fyrri ræðu, þá hefur það verið erfiðleikum bundið að sinna þessum störfum eins og þarf, einmitt vegna aukins álags út af húsbréfakerfinu.
    Ég vil láta þess getið að gefnu tilefni vegna ræðu hv. 4. þm. Suðurl. að ekki vakir fyrir okkur að tefja þetta mál. Við skrifuðum undir nál. án fyrirvara, ég og hv. 14. þm. Reykv., sem skrifuðum undir fyrir hönd Sjálfstfl. og munum ekki á nokkurn hátt tefja fyrir framgangi málsins.