Stjórnsýslulög
Miðvikudaginn 12. desember 1990


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson) :
    Herra forseti. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að ríkisstjórnin muni leggja fram frv. til stjórnsýslulaga. Ég skipaði því, fljótlega eftir að ríkisstjórnin var mynduð, nefnd til þess að útbúa slíkt frv. Reyndar má rekja þennan undirbúning nokkuð lengra aftur í tímann. Á 109. löggjafarþingi var samþykkt frv. sem ég lagði þá fram sem forsrh. um umboðsmann Alþingis. Því frv. fylgdi frv. til stjórnsýslulaga. Var reyndar af flestum, ekki síst löglærðum mönnum, talið afar nauðsynlegt að þau frv. færu saman. Svo varð þó ekki. Þau urðu aðskilin, frv. um umboðsmann Alþingis var samþykkt eins og hv. alþm. vita en frv. til stjórnsýslulaga náði ekki samþykki. Umboðsmaður Alþingis hefur síðan lagt á það mikla áherslu að frv. til stjórnsýslulaga, sem bæði kveður á um hin ýmsu hugtök í stjórnsýslunni og skilgreinir þær skyldur sem á embættismönnum hvíla, yrði lagt fyrir
Alþingi sem fyrst. Ég lagði því þetta frv. fram á síðasta þingi og mælti þá nokkuð ítarlega fyrir því. Það fór þá til nefndar sem sendi það til umsagnar og komu ýmsar umsagnir um þetta frv. sem nefndin hefur síðan tekið til nýrrar meðferðar á milli þinga.
    Nú eru hér í þessari hv. deild þingmenn sem þekkja þetta mál mjög vel. Ég taldi eðlilegt að leggja málið hér fram í þeirri von að það fái nú skjóta meðferð í gegnum þingið. Og með tilvísun til fyrri framsögu sem ég hef haft um þetta mál og þess sem ég veit að er orðið vel kunnugt hér ætla ég ekki að lýsa einstökum greinum frv. heldur láta nægja stutta framsögu og gera að tillögu minni að þessu frv. til stjórnsýslulaga verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.