Upplýsingaskylda stjórnvalda
Miðvikudaginn 12. desember 1990


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson) :
    Herra forseti. Um þetta frv. má hafa þau sömu inngangsorð og ég hafði áðan og vísa í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem segir að skipa skuli nefnd og leggja fram frv. um upplýsingaskyldu stjórnvalda. Þessi tvö mál, það sem ég mælti fyrir áðan um stjórnsýsluna og það mál sem ég mæli fyrir nú, eru jafnframt nátengd. Reyndar voru þessi mál bæði í einu frv. sem lagt var fyrir 109. löggjafarþing og fékk þá nokkra meðferð. En síðan, í meðferð þeirrar nefndar sem ég skipaði samkvæmt ákvörðun stjórnarsáttmálans, varð niðurstaðan sú að skilja þessi tvö mál að og hafa frv. um stjórnsýslu sér, en frv. um upplýsingaskyldu stjórnvalda annað mál. Sýndist mér þegar þetta var lagt fyrir mig að það séu mörg rök sem að þessu hníga.
    Það er ekkert síður mikilvægt að setja lög eða reglur um upplýsingaskylduna en um stjórnsýsluna almennt því satt að segja er hér töluvert mikið á reiki. Þetta frv. kveður ekki á um allt það sem skoða þarf í þessu sambandi en skapar þann ramma sem er nauðsynlegur til þess að stjórnvöld geti síðan með reglugerðum sett nánari ákvæði um upplýsingaskyldu, m.a. aðgang að skjölum o.s.frv.
    Hér eru hins vegar, sérstaklega í 4. gr., heimildir til að takmarka upplýsingaskylduna. Má segja að það sé hvað mikilvægast í því sem hér er lagt fram þótt margt annað sé einnig mikilvægt, eins og t.d. réttur almennings til þess að fá upplýsingar um eigin mál og að ákveðnum tíma liðnum um önnur.
    Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta lengri framsögu. Ég vísa til þess sem áður hefur verið um þessi mál rætt hér á hinu háa Alþingi og til þeirrar ítarlegu meðferðar sem þetta mál hefur haft og þá þekkingu sem er hér innan deildarinnar á því. Ég legg til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.