Slysavarnaráð
Miðvikudaginn 12. desember 1990


     Jóhann Einvarðsson :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hv. 6. þm. Reykn., flm. málsins fyrir þessar skýringar. Það kom ekki fram, hvorki í hennar máli né í grg., að nefndin væri hætt störfum, af hvaða ástæðum sem það er nú. En það er greinilegt af hennar orðum að það er ekki vegna þess að núv. ráðherra hafi ákveðið að leggja nefndina niður nema síður sé. Þar að auki var ástæðan fyrir spurningunni hjá mér sú að það segir beinlínis í grg.: ,,Fyrir liggur að núverandi heilbrrh., Guðmundur Bjarnason, hefur ákveðið að stofna slysavarnaráð í samræmi við þær tillögur sem fram hafa komið frá nefndinni.`` Svo nefndin virðist vera búin að senda tillögur til ráðherrans. Hvort hann svo ætlar að fylgja þeim eftir eða ekki skal ég ekki segja um, en þetta var ástæðan fyrir því að ég lagði þessar spurningar fram.