Launamál
Miðvikudaginn 12. desember 1990


     Stefán Valgeirsson :
    Herra forseti. Þrátt fyrir margítrekaðar árangurslausar tilraunir af minni hálfu til að fá í hendur skriflega álitsgerð lögfræðinga sem ríkisstjórnin hlýtur að hafa aflað sér vegna fram kominna fullyrðinga á Alþingi og utan þess um að bráðabirgðalög ríkisstjórnarinnar, nr. 89/1990, séu ekki í samræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar, hefur það ekki tekist. Verður því að álykta að ríkisstjórninni hafi ekki tekist að fá neina lögfræðilega álitsgerð sem feli í sér rökstutt álit sem réttlæti og rökstyðji að setning bráðabirgðalaganna standist gagnvart stjórnarskránni. Haft er eftir Eiríki Tómassyni lögfræðingi sem er mjög handgenginn hæstv. forsrh. að íslensk stjórnmál einkennist af siðferðiskreppu og væru bráðabirgðalögin á BHMR gróft dæmi um það. Þegar ríkisstjórnin stóð frammi fyrir því að verulegar líkur væru fyrir að bráðabirgðalögin mundu falla á jöfnum atkvæðum hér í deildinni, sem hún átti að vita fyrir, a.m.k. hvað mig varðaði, ætlaði hún að grípa til þess óyndisúrræðis að rjúfa þing og boða til kosninga um miðjan vetur og leggja síðan til við forseta vorn að hún gæfi út enn á ný bráðabirgðalög, efnislega eins, gagnvart BHMR, en að vísu eftir eitthvað breyttum formerkjum. Þó ég trúi því ekki að forsetinn hefði sett slík lög þá vil ég forða henni frá því að standa frammi fyrir slíkri beiðni. Allt þetta mál er hreint klúður frá upphafi. Sýnir dómgreindarleysi ríkisstjórnarinnar og tillitsleysi við landsbyggðina að leggja til að fara út í kosningar um miðjan vetur og hefja kosningabaráttu yfir jólahátíðina. Ég lýsi andstöðu minni við þessum bráðabirgðalögum, en af ofangreindum ástæðum mun ég sitja hjá við þessa atkvæðagreiðslu.