Launamál
Miðvikudaginn 12. desember 1990


     Björn Valur Gíslason :
    Herra forseti. Ég vil að það komi skýrt fram hér að ég tel setningu bráðabirgðalaga af því tagi sem hér um ræðir algera neyðarkosti. Það á að vera skýlaus réttur fólks að fá að semja um kaup sitt og kjör án þess að eiga það á hættu að samningar verði að engu gerðir með valdboði. Það er auðvitað alveg ljóst að ríkisstjórnir undanfarinna ára og áratuga hafa margoft ofnotað það vald sem þær hafa til setningar bráðabirgðalaga. Þar hafa komið við sögu nær allir stjórnmálaflokkar á Íslandi sem á annað borð hafa átt aðild að ríkisstjórn og Sjálfstfl. sennilega hvað oftast. Það réttlætir hins vegar ekki setningu þessara bráðabirgðalaga sem hér um ræðir. Ég var andvígur því að þau lög yrðu sett og talaði gegn setningu þeirra innan Alþb.
    Í dag er það hins vegar alveg ljóst vegna þess hvernig málum er stillt upp að verðbólgan mun rjúka upp og verðlag fara úr böndum ef þessi lög verða ekki staðfest hér á Alþingi. Og það er jafnljóst að þeir sem fara verst út úr því ævintýri, ef af verður, eru þeir sem minnst hafa fyrir. Ég tel að búið sé að leggja nóg á launafólk í bili og ekki sé á bætandi að rýra enn kjör þess með óðaverðbólgu og verðlagshækkunum. Ég tel að ríkisstjórnin verði nú alveg á næstunni að losa launafólk undan þessari ábyrgð að halda verðbólgu niðri í landinu því það er ekki við þetta fólk að sakast. Ég tel að draga verði fleiri til ábyrgðar og láta fleiri bera þessa þungu byrði en launafólkið eitt. Í trausti þess að svo verði gert tel ég það þó skömminni skárri kost að þessi bráðabirgðalög fáist staðfest hér á Alþingi en þau verði felld með jafnalvarlegum afleiðingum og ljóst er að muni verða. Ég segi því já.